c

Pistlar:

23. ágúst 2018 kl. 22:33

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Verður ókeypis olía Ortega að falli?


Óhætt er að segja að fall Daniel Ortega, forseta Níkaragva, hafi verið óvenju skjótt. Í byrjun árs virtist allt leika í lyndi og vinsældir hans meiri en hjá nokkrum öðrum leiðtoga í Mið- og Suður-Ameríku. Nú sameinast landsmenn um það að kalla eftir afsögn hans. Fyrstu merki um vaxandi óvinsældir birtust þegar stúdentar hófu að mótmæla slökum vinnubrögðum stjórnarinnar í kringum skógaelda í apríl síðastliðnum. Ástandið var fljótt að fara úr böndunum og nokkrum dögum seinna birtust hundruð þúsunda mótmælenda úti á götunum, margir fyrrverandi stuðningsmenn forsetans, og mótmæltu óvinsælum breytingum á félagslega kerfinu. Síðan þá hefur óánægjan stigmagnast upp í óöld og lögregla og her hefur drepið um 450 mótmælendur og sært 2.500 til viðbótar. Ekkert lát virðist vera á átökunum. Sósíalistastjórn Daniel Ortega virðist á fallanda fæti.oetega

Chávez byrjar að gefa olíu

Í gegnum tíðina er ekki óalgengt að erlend fjármagn streymi inn í Níkaragva til að styðja við annað hvort stjórn eða stjórnarandstöðu. Fyrir og eftir valdatöku Sandínista 1979 dældu Bandaríkjamenn inn fjármunum, lengst af til að reyna að halda stjórn Anastasio Somoza hershöfðingja á floti. Höfðu þeir lítinn sóma af því. Fyrir stuttu var þessi saga rakin nánar hér.

Eftir að Ortega komst til valda á ný árið 2007 leit Hugo Chávez, forseti Venesúela, svo á að nauðsynlegt væri að styðja ríkisstjórn hans, enda stæðu vinstri menn höllum fæti í Níkaragva auk þess sem Chávez vildi berjast gegn bandarískum áhrifum í þessum heimshluta. Chávez hóf því í orðsins fyllstu merkingu að dæla inn ódýrri ef ekki nánast ókeypis olíu til Níkaragva í þeirri von að geta haldið Ortega-stjórninni á lífi. Á milli áranna 2007 og 2016 er talið að Venesúela hafi gefið Níkaragva-búum olíu að virði tæplega 4 milljarðar bandaríkjadala. Vinátta þessara byltingaforingja var fölskvalaus eins og sjá má af mynd hér að neðan.

Þessari olíu var dreift á markaðsvirði af DNP, ríkisreknu dreifingarfyrirtæki. Hagnaður ríkisstjórnarinnar af sölunni varð í fyrstu til þess að ýta við efnahagnum og frá 2007 til 2016 notaði Ortega um 40% af hagnaðinum til þess að styðja við nokkuð metnaðarfull velferðarátök, svo sem að útvega ódýrt húsnæði, mat handa hungruðum og efldi stuðning við smáfyrirtæki. Fátækt minnkaði og allt virtist leika í lyndi. Milli 2007 og 2017 jókst landsframleiðsla um 4,1% að jafnaði með hvorki meira né minna en 6,4% vexti árið 2012. Árið áður hafði Venesúela sent inn olíu fyrir um 560 milljónir dala eða um 6% af landsframleiðslu Níkaragva.

Ortega-fjölskyldan í góðum málum

En olían frá Venesúela hafði ekki einungis jákvæð áhrif á efnahag Níkaragva. Ortega-fjölskyldan naut einnig góðs af því. Dreififyrirtækinu DNP er stýrt af tengdadóttur Daniel Ortega, Yadira Leets Marín. Samkvæmt nýlegum upplýsingum þá er hinum 60%, sem koma inn fyrir olíuna, gróft áætlað um 2,4 milljarðar dala, ekki varið til að byggja upp félagsþjónustu í neinni mynd. Þess í stað runnu fjármunirnir til félags sem heitir Albanisa og starfar í Venesúela og Níkaragva. Félaginu er stýrt af syni Daniels, Rafael Ortega. Upplýst hefur verið að fjármunirnir eru notaðir til fjárfestinga í margvíslegum fyrirtækjum, svo sem flugfélagi, farsímafélagi, fasteignafélögum, hótelum og félagi sem á bensínstöðvar.ortch

Upplýsingar um Albanisa eru af skornum skammti. Fyrrverandi stjórnandi félagsins, Rodrigo Obragon, skóf ekki af því í viðtali fyrir skömmu og sagði að eigir félagsins rynnu til Ortega-fjölskyldunnar sem stundaði eignasöfnun sem menn hefðu ekki séð áður í Níkaragva. Persónulegur auður Daniel Ortega hefur verið staðfestur og áreiðanlegar heimildir, eins og Wall Street Journal, hafa upplýst að fjölskyldan sé nú ein sú auðugasta í landinu.

Þau 11 ár sem Ortega hefur setið í valdastóli hefur hann nýtt til að afnema takmörkun á hve mörg kjörtímabil forsetinn má sitja. Gert konu sína að aðstoðarforseta og meinað stjórnarandstöðuflokkum að bjóða fram í kosningum. Á tímabili virtist hann ætla að komast upp með þetta en eftir að kreppan hófst í Venesúela árið 2015 hefur smám saman skrúfast fyrir alla olíuaðstoð. Ortega varð að bjarga sér sjálfur og virtist ekki eiga mikla innistæðu hjá landsmönnum þegar fór að kreppa að. Þá mundu þeir meira eftir auðsöfnunin og spillingunni heldur en einstaka félagsmálapakka.