c

Pistlar:

28. ágúst 2018 kl. 20:48

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Trump og Kínverjarnir

Eins og margt annað í hinum alþjóðlega heimi þá lesum við að viðskiptaátök Bandaríkjanna og Kínverja séu Donald Trump Bandaríkjaforseta að kenna. Vissulega er það svo að upphaf átakanna má rekja til ákvarðanna Trump. Í maí síðastliðnum birtist listi með 140 kröf­um sem rík­is­stjórn Trump tók sam­an í fyrstu fundalot­unni við Kínverja. Þegar listinn er skoðaður sést að Bandaríkjamenn hafa nokkuð til síns máls. Kínverjar hafa haft nánast óheftan aðgang að verðmætasta markaði í heimi í mörg ár en hafa um leið taflið og hindrað aðgengi erlendra fyrirtækja inn á kínverska markaðinn. Á list­a Trump voru atriði á borð við að kín­versk stjórn­völd samþykki með hraði um­sókn­ir Mastercard og Visa um að selja greiðslu­kortaþjón­ustu á inn­an­lands­markaði, og að greitt verði fyr­ir því að JP­Morg­an fái að eiga meiri­hlut­ann í kín­versku verðbréfa­fyr­ir­tæki. Það er með ólíkindum hvernig Kínverjar hafa náð að loka af eigin fjármálamarkað sem sést til dæmis af því að sívaxandi fjöldi kínverska ferðamanna á í vandræðum að greiða rafrænt nema boðið sé sérstaklega upp á slíka þjónustu með samtengingu við kínverska greiðslumiðlun. Fyrir vikið greiða Kínverjar sem mest fyrir þjónustu fyrirfram eða nota reiðufé. Fyrr á árinu tók til starfa hér á Íslandi fyrirtæki sem reynir að koma til móts við Kínverjar og leigja út posa sem taka kínversk kreditkort.

Virðingarleysi Kínverja fyrir einkaréttarvörðu efni er vel þekkt og þá hafa þeir svínbeygt erlend samfélagsmiðlafyrirtæki í þágu ritskoðunar og eftirlits. Oftast reyna þeir þó að loka fyrir aðgengi þeirra að kínverska markaðinum þó þeir vænti þess auðvitað að þeirra eigin netfyrirtæki geti starfað á heimsvísu.trump-china

Öryggishagsmunir í Kína umfram frjáls viðskipti

Í frétt Financial Times (sem Morgunblaðið vitnaði til í viðskiptakálfi sínum í síðustu viku) kom fram að í einka­sam­töl­um við banda­ríska koll­ega sína hafa kín­versku emb­ætt­is­menn­irn­ir sagt að ef kring­um­stæður væru friðsam­legri væru þeir fá­an­leg­ir til að ým­ist samþykkja eða ræða nán­ar tvo þriðju af kröf­um for­set­ans. Ósanngjarnari eru þær nú ekki. Þeir bæta því við að þær kröf­ur sem eft­ir sitji, svo sem að leyfa er­lend­um fyr­ir­tækj­um að koma inn á kín­verska tölvu­skýja­markaðinn, komi ekki til greina vegna þjóðarör­ygg­is­hags­muna og annarra þátta.

En þó kröfur Trump séu réttmætar þá er engin vissa að samningataktík hans gangi upp. Eins og oft áður teflir hann djarft og lætur diplómatíuna lönd og leið. Staðreyndin er sú að nú þegar eru sam­skipti Banda­ríkj­anna og Kína verri en þau hafa nokk­urn tím­ann verið síðan Xi Jin­ping komst til valda árið 2012. Kergja er í málinu og ráðamenn í Bejing eru óvilj­ug­ir að gefa Washingt­on nokkuð eft­ir, jafn­vel í mál­um sem væru í fullu sam­ræmi við um­bóta­mark­mið Kína­for­seta. Það er hins vegar ekki eingöngu persóna Trump sem skiptir máli. Xi Jin­ping, forseti Kína, er nánast einráður og hefur verið að endurmeta hugmyndafræði kínverska Kommúnistaflokksins. Xi hafði áhyggj­ur af því að flokk­ur­inn væri kom­inn í auka­hlut­verk í stefnu­mót­un í helstu mála­flokk­um í land­inu og því end­ur­heimti hann stjórn flokks­ins yfir stofn­un­um rík­is­ins og setti póli­tíska hug­mynda­fræði ofar stefnu­mót­un tæknikrat­anna eins og Kevin Rudd, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra Ástr­al­íu, vakti athygli á í grein sem birtist í Morgunblaðinu ekki fyrir löngu. Daður Xi við marxisma hefur einnig valdið óróleika og heimurinn ætti ekki síður að hafa áhyggjur af afstöðu hans en Trump. Og Xi Jin­ping veit nánast fyrirfram hvernig kosningar fara, öfugt við Trump. Öll Suðaustur-Asía fylgist með og óttast utanríkis- og viðskiptastefnu Kína.

Í lok árs 2016 ákvað miðstjórn Kommúnistaflokksins að endurvekja gamlan sið, að flokksmenn ávarpi hver annan sem félaga (comrade), samanber félagi Maó. Allt til 1985 eða þar um bil notuðu langflestir Kínverjar ávarpið félagi en þá breyttist tískan. Maójakkar hurfu af sviðinu, vestræn tíska varð vinsæl og ráðamenn fóru að nota fína titla. En svo ákvað miðstjórnin að hverfa til fyrri siða. Xi Jinping lét boð út ganga um að hann væri félagi Xi Jinping: Kallið mig ekki forseta eða aðalritara Flokksins, heldur félaga! Hvar þessi endurskoðun endar er erfitt að segja en ástæða er til að hafa nokkrar áhyggjur af þessu.

Stoppuðu bandaríska yfirtöku

Stefna Kínverja hef­ur reitt banda­rísku emb­ætt­is­menn­ina til reiði samkvæmt áðurnefndri frétt Financial Times. Það kom þeim til dæmis mjög á óvart að kín­versk sam­keppn­is­yf­ir­völd skyldu ekki samþykkja 44 millj­arða dala yf­ir­töku bandaríska fyrirtækisins Qualcomm á NXP, rétt eins og það kom Kín­verj­un­um á óvart að Trump skyldi halda tolla­hækk­un­um til streitu. Yfirtakan var með þeim stærri og hafði vakið mikla athygli. Það var lít­il skör­un í starf­semi ör­gjörvafyr­ir­tækj­anna tveggja en að sögn fólks sem kom að mál­inu setti kín­verska sam­keppnis­eft­ir­litið skil­yrði sem ómögu­legt var að full­nægja, svo sem að Qualcomm, sem er með höfuðstöðvar sín­ar í San Diego, skyldi selja öll tækni­einka­leyfi NXP, en það myndi gera að engu eina helstu ástæðuna fyr­ir kaup­un­um.

Kín­verska sam­keppnis­eft­ir­litið sendi aðeins eina til­kynn­ingu frá sér eft­ir að Qualcomm hætti við kaup­in 25. júlí, þar sem sagði að banda­ríska fyr­ir­tæk­inu hefði ekki tek­ist að „leysa úr atriðum er varða sam­keppn­is­mál“ og lagði eft­ir­litið til frek­ari viðræður til að „finna lausn við hæfi“.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.