c

Pistlar:

31. ágúst 2018 kl. 12:47

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sýning um sögu fullveldisins

Það er engin ein leið við að segja söguna, hún á sér ótalmarga farvegi og ótalmörg sjónarhorn. Sá er hér heldur á penna hefur gjarnan vitnað til enska sagnfræðingsins R.G. Collingwood (1889-1943) sem benti á að sagnfræðingar fengjust ekki aðeins við atburði heldur einnig hegðun. Fyrir söguna er markmiðið ekki atburðurinn sjálfur heldur sú hugsun sem hann lýsir. Að uppgötva þessa hugsun er að skilja atburðinn. Öll saga er því saga hugsunar og söguþróun er þróun hugsunar. Þannig speglast sagan í hugmyndum okkar um hana hverju sinni.

Þetta árið minnumst við Íslendingar 100 ára fullveldis okkar. Um fullveldið og áhrif þess geta ríkt mörg sjónarhorn. Hugsanlega er ein leið til þess að líta á fullveldi að telja það tæki eða farveg fyrir velferð þeirra sem þess njóta, þá væntanlega borgara í viðkomandi fullvalda ríki. Mikilvægt er að hafa í huga að fullveldi er ekki einungis gott af sjálfu sér eins og Atli Harðarson heimspekingur bendir á í grein um fullveldi í bók sinni Vafamálum sem kom út 1998. Þar bendir Atli á að flestir líti svo á að fullveldi sé gott vegna þess að það stuðli að velferð og hamingju landsmanna eða komi í veg fyrir að þeir séu niðurlægðir og kúgaðir. Þetta er ágæt skilgreining þó það sé freistandi að bæta ýmsu við hana. Gæti til dæmis fullveldi ekki að einhverju leyti skilgreinst af því hverju það áorkar við að tryggja þegnum velferð og aukin efnahagsleg gæði? Ef litið er með þeim hætti á fullveldissögu Íslands þá blasir við að við höfum farið frá því að vera eitt fátækasta ríki heims í að vera eitt það auðugasta. Það höfum við gert á 100 ára fullveldistíma okkar. Það hlýtur að segja eitthvað um ágæti fullveldisins fyrir okkar litlu þjóð.bús

Afmörkun fullveldis

Þetta hlutverk fullveldisins, sem tæki til að ná efnahagslegri farsæld, er ekki hluti af nálgun þeirra sem setja upp fullveldissýninguna sem nú má sjá í Listasafni Íslands. Þegar að er komið blasir við ljósmynd tekin úr Búsáhaldabyltingunni eins og hér má sjá. Einhverskonar upphaf og endir sýningarinnar. Erfitt er að skilja það val. Búsáhaldabylting og innri átök hafa ekki mikið með fullveldi að gera, þau eru miklu frekar hluti af innri átakasögu þjóðarinnar. Í fullveldinu fólst að íslenska ríkið hefði óskoraðan rétt til að ráða sínum innri málefnum, setja réttarreglur og framfylgja þeim á yfirráðasvæði sínu og það þyrfti ekki að sækja slíkt vald til neinnar æðri stofnunar. Þó landsmenn greini á um það frá einum tíma til annars hvernig þessar reglur séu eða þeim sé beitt þá er erfitt að segja að það tengist fullveldinu sjálfu. Nær væri að vigta fullveldi í ytri átökum og það mat sem þau færa landsmönnum, svo sem átökum um landhelgi landsins sem mótaði sjálfsmynd Íslendinga verulega. Einnig má segja að umræða í kringum alþjóðlega samninga; svo sem Nató-aðild og EES-samninginn séu vörður á þeirri leið. Og þá ekki síður átökin í kringum Icesave-samningana þar sem innlendum kotbændum var ætlað að standa undir vöxtum til handa erlendum fjármagnseigendum. Er til skýrara dæmi um átök um fullveldi þjóðarinnar? Þessa er að engu getið í sýningunni.

Í sýningaskránni er tiplað á nokkrum ártölum sem eiga væntanlega að tengjast fullveldinu. Ekki verður gerð athugasemd við það hér hvernig þeir atburðir eru valdir þó eftirtekt veki að ekkert er tengist verslunarfrelsi nái þar inn. Það er einnig umhugsunarvert að síðan 2008 hafa að dómi þeirra sem setja sýningaskránna saman aðeins Búsáhaldabyltingin og stofnun Stjórnlagaráðs talist til mikilsverðra tímamóta. Á þeim tíma hefur þjóðin þó tvisvar gengið til kosninga um Icesave-samninga með fullveldið á vörunum. Það var hins vegar vel til fundið að setja upp listaverk Birgis Andréssonar heitins en mynd af því fylgir hér með. Þar eru ytri mörk fullveldisins afmörkuð í fánum sem kannski hafa mestu skipt þó líklega hefði sá danski mátt fylgja með.fanar

Hleypið að fleiri sjónarhornum!

Sjónarhornshyggjan lifir góðu lífi innan sagnfræðinnar - og enn betra lífi í fjölmiðlum! Samkvæmt henni eru ekki til neinar staðreyndir, einungis túlkanir. Það mun stafa af því að við komumst aldrei út fyrir eigin sjónarhorn og að veruleikanum sem slíkum. Ein leið til að glíma við sjónarhornshyggju er að viðurkenna að ólík sjónarhorn eru til. Því er það svo að þó að það sjónarhorn sem ríkir við uppsetningu á sýningunni um fullveldi Íslands sé viðurkennt þá þýðir það ekki að önnur séu ekki gild. Vandinn er að sýningin virðist gerð af því sem virðist eiga að vera ríkjandi sjónarhorn og er að verða að einu helsta vandamáli íslenskrar akademíu sem virðist eiga í vandræðum með að sætta sig við ólík sjónarhorn. Eins og til dæmis því að Rannsóknarskýrsla Alþingis er ekki hafin yfir gagnrýni, Búsáhaldabyltingin var ofbeldisfyllri og flokkspólitískari en margir vilja vera láta og Icesave-samningarnir snérust um fullveldi þjóðarinnar en ekki pólitísk leiðindi. Á þetta mætti líka horfa þegar opinberir aðilar rétta okkur sitt sjónarhorn á fullveldið.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.