c

Pistlar:

11. september 2018 kl. 23:10

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Varúðarmerki í nýrri orkuspá

Íslendingar ganga nokkurn veginn út frá því að hér sé ávallt til staðar nægjanleg orka, hún sé framleidd með umhverfisvænum hætti, afhendingaröryggi sé nánast fullkomið og umfram allt; hún sé ódýr. Flest þetta á við í dag en er ekki eins sjálfgefið og margir halda. Umræða um nýja orkutilskipun Evrópusambandsins og hugsanlega innleiðingu hennar hefur orðið fyrirferðamikil undanfarið en umræða um okkar eigin stefnu í orkumálum hefur legið í láginni lengi. Þar getur ný spá orkuspárnefndar, sem hefur nú verið kynnt, skipt máli, kjósi menn að kynna sér hana.

Samkvæmt spánni er gert ráð fyrir að það vanti talsverða orku næstu áratugi, svo nemur þremur Blönduvirkjunum eins og kom fram í Fréttablaðinu í gær. Á sama tíma blasir við að Íslendingar eru ekkert sérstaklega áhugasamir um nýjar virkjanir. Reyndar virðist stór hluti landsmanna vera á móti þeim þó sami hópur geti tæpast með skýrum hætti útskýrt hvernig eigi að svara orkuþörf landsmanna. Vatnsaflsvirkjanir virðast ekki vera vinsælar núna en Landsvirkjun á nú þrjár fullhannaða virkjanakosti í neðri hluta Þjórsár sem gætu líklega fullnægt þeirri orkuþörf sem orkuspárnefnd telur að sé framundan. Talsverð andstaða er við þessar virkjanir sem eru þó langt komnar í umhverfismati og nánast aðeins eftir að gefa út framkvæmdaleyfi en höfundur greinarinnar hefur í gegnum tíðina nokkrum sinnum fjallað um þær en hér fylgir með mynd úr Morgunblaðinu sem sýnir afstöðu þeirra. Algerlega óvíst er að það verði af þessum virkjunum. Hugsanlega er málamiðlun að ráðast í eina þeirra og sjá svo til. Kosturinn hins vegar við virkjanirnar í Þjórsá er sá að þær nýta þá miðlun sem þegar er fyrir hendi og eru því afskaplega hagkvæmar.virkja

Um Hvalárvirkjun á Vestfjörðum þarf ekki að hafa mörg orð en hér hefur verið fjallað um hana áður og þann umsnúning sem orðið hefur á málinu. Virkjanir í Skaftafellssýslu og Skagafirði virðast ekki á dagskrá enda að mati undirritaðs en síður ástæða til að virkja á óröskuðum svæðum. En ef sú röksemd á að ganga upp verður að virkja í neðri hluta Þjórsár.

Hvar á að virkja?

En hvar á þá að virkja? Menn eru almennt sammála um að fara sér einnig hægt við jarðvarmavirkjanir þó margt bendi til þess að framkvæmdir á Þeistareykjum hafi verið farsælar og bjóði upp á stækkun. Virkjanir á Reykjanesinu hafa mætt mikilli andstöðu og óvissa ríkir um framleiðslugetu Hellisheiðarsvæðisins.

Þá virðast vindaflsstöðvar ekki fá mikinn hljómgrunn. Í Þykkvabænum virðast heimamenn ætla að leggjast gegn áformum um stækkun og endurnýjun og þá líklega sjálfhætt. Hugmyndir Landsvirkjunar um 200 MW vindorkugarð á Hafinu fyrir ofan Búrfell virðist ekki ætla að fá brautargengi. Þá fer nú að fækka kostunum.

Orkuskipti í samgöngum ganga hraðar

Í skýrslu orkuspárnefndar kemur fram að orkuskipti í samgöngum hafa gengið hraðar en gert var ráð fyrir og það kallar á meiri orku. Þá er ótalið aukin notkun gagnavera en notkun þeirra frá flutningskerfinu var um 200 GWh meiri en spáin frá 2015 gerði ráð fyrir. Á móti kemur að stórnotendur hafa notað minna vegna þess að ýmis orkufrek verkefni hafa ekki gengið sem skyldi og ýmist lagt upp laupana (United Silicon) eða tafist (PCC).

Áætluð notkun til lengri tíma litið er heldur meiri nú en spánni frá 2015, sérstaklega notkun orkufreks iðnaðar (úttekt frá flutningskerfinu) enda er eins og í fyrri spám einungis tekið tillit til samninga sem gerðir hafa verið um slíka orkusölu þegar spáin er gerð. Samkvæmt þessari spá mun afhending frá dreifikerfinu aukast um 8% fram til 2020 og um 80% alls til 2050 og eru dreifitöp meðtalin. Árleg aukning þessarar notkunar er 1,8% að meðaltali næstu 33 árin og eykst notkun um 2.815 GWh í orku og 464 MW í afli yfir spátímabilið, frá árinu 2017 til ársins 2050. Þá kallar fólksfjölgun á meiri orku umfram spár.

Að öllu þessu sögðu, er ljóst að stjórnvöld verða að svara, hvar eigi að fá þá orku sem Íslendingar þurfa á næstu árum og áratugum ef landsmenn ætla að halda þeim lífsgæðum sem þeir þekkja í dag.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.