c

Pistlar:

28. september 2018 kl. 16:02

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Þvættingur um peningaþvætting

Engir bankar í heiminum hafa verið rannsakaðir jafn mikið og ítarlega eins og íslensku bankarnir sem féllu haustið 2008. Fjármálaeftirlitið, sérstakur saksóknari og erlend rannsóknarfyrirtæki hafa farið rækilega í gegnum bækur íslensku bankanna. Svo virðist sem ekkert í þessum rannsóknum hafi sýnt fram á þátttöku þeirra í alþjóðlegu peningaþvætti eða að fjármunum hafi verið stungið undan. Þetta er þvert á fullyrðingar innlendra og erlendra „sérfræðinga“ sem fjölluðu um íslensku bankana fyrir og eftir hrun þeirra. Eftir því sem best er vitað réðu allar skilanefndir bankanna erlenda sérfræðinga til þess að skoða vandlega möguleg undanskot og óeðlilegar færslur fjármagns. Ekkert hefur komið fram um að þessar rannsóknir hafi leitt eitthvað óeðlilegt í ljós og heldur ekki að skjöl hafi vantað sem gætu innihaldið mikilvægar upplýsingar í aðra veru. Ítarleg rannsókn breskra yfirvalda á íslensku bönkunum í Bretlandi hefur heldur ekki leitt neitt ólöglegt framferði í ljós eins og dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson bendir á í nýrri skýrslu sinni um bankahrunið.

Þegar horft er til alls þessa er freistandi að álykta að íslensku bankarnir hafi ekki verið þátttakendur í peningaþvætti, þvert á ítrekaðan fréttaflutning um annað. Og augljóslega síður en til dæmis Danske Bank sem gerði sitt ýtrasta til að veðja gegn íslenskum bönkum og styðja við orðróm um að eitthvað misjafnt mætti finna í bókum þeirra. En fréttaflutningur á sínum tíma gaf ástæðu til að ætla annað. Ekki er á neinn hallað þegar minnst er á fréttaflutning Sigrúnar Davíðsdóttur í fréttaskýringaþættinum Speglinum á Ríkisútvarpinu. Hvað eftir annað fjallaði hún um þessi mál án þess að geta vísað í nokkrar áþreifanlegar heimildir. Í einum þættinum afrekaði hún að vísa til „orðróms“ tíu sinnum í fyrstu málsgreinunum. Því miður finn ég ekki dagsetningu þáttarins á vef RÚV.banka

Orðrómur um orðróm…

Í þættinum kemur eftirfarandi málsgrein: Orðrómurinn um íslensku bankana komst fljótt á kreik eftir að þeir fóru að vekja eftirtekt erlendis, strax um og uppúr 2005 eftir því sem Spegillinn heyrði. Og þessi orðrómur lifir enn þann dag í dag. Hann kom, og kemur, úr ýmsum áttum og miklu víðar en bara frá öðrum bankamönnum - alls ekki hægt að afgreiða orðróminn sem eitthvert öfundartaut, eins og Íslendingum er tamt að afgreiða gagnrýna umfjöllun. Spegillinn hefur heyrt orðróminn frá til dæmis erlendum endurskoðendum og lögfræðingum. Í sumum tilfellum hefur orðrómurinn átt við starfsemi íslenskra fyrirtækja en það er önnur saga.“

Óhætt er að segja að þetta sé harla sérstök fréttamennska og það hjá Ríkisútvarpinu sem hefur auðvitað uppi hátimbruð hlutlægnissjónarmið. Önnur málsgrein í þessari frétt hlýtur einnig að vekja furðu: „Spegillinn hefur spurst víða fyrir um þessi efni undanfarin ár. Einn erlendur starfsmaður eins íslenska bankans sagði Speglinum frá undarlegum lánum frá erlendri starfsstöð til félaga í þriðja landi, ekki Íslandi en hafði engin nöfn á takteinunum. Hrundagana í október 2008 hitti Spegillinn hagfræðing sem hafði áður starfað hjá alþjóðastofnun. Sá var eindregið á því að orðrómurinn um peningaþvætti ætti við rök að styðjast, því hann hefði séð þetta rakið í alþjóðlegri peningaþvættisskýrslu. Þetta væri leyniskýrsla og nei, hann hafði ekki eintak.“

Hér er semsagt vitnað til manns sem hafði séð leyniskýrslu sem staðfesti orðróminn en átti ekki eintak af henni og því hafði fréttamaðurinn enga möguleika á að staðreyna eitt né neitt. Vitaskuld geta fréttamenn metið heimildir sjálfstætt og hætt trúverðugleika sínum með því að treysta þeim án þess að veita lesendum neina staðfestingu. En það er áhættusamt og nú þegar aldrei hefur heyrst meira um þessa leyniskýrslu er spurning hvar trúverðugleikinn er geymdur? Eru svona vinnubrögð án nokkurrar ábyrgðar?

Sigrún tók að sér ýmis störf fyrir hrun. Vann meðal annars að skrifum fyrir Íslandsbanka (Glitni), auk þess sem hún skrifaði skýrsluna Útrás íslenskra fyrirtækja til Lundúna fyrir Viðskiptaráð, en skýrslan var gerð eftir hugmynd Sigrúnar sjálfrar eftir því sem komist verður næst. Tók hún þar meðal annars viðtöl við íslenska yfirmenn sex útrásarfyrirtækja. Þar skrifaði hún:

„Að sama skapi er mikilvægt að kveða í kútinn sögusagnir um vafasaman uppruna íslensks fjármagns og aðrar ranghugmyndir af svipuðum toga. Slíkar gróusögur verða ekki kveðnar niður í einu vetfangi, en hins vegar árétta þær mikilvægi þess að frásagnir af íslensku viðskiptalífi berist mönnum milliliðalaust eins og leitast er við að gera í skýrslunni.“

Þessi ummæli virðast hafa orðið að áhrínisorðum gagnvart höfundinum sjálfum.

Íslensku bankarnir og blóðdemantar

Af líkum toga voru vangaveltur Sigrúnar um að íslensku bankamennirnir hafi tengst viðskiptum með blóðdemanta en þeir hafa um árabil tengst vopnakaupum í vestanverðri Afríku. „Voru tengsl milli Íslands og blóðdemanta?” - Þannig spurði Sigrún í útvarpspistli sínum um miðjan janúar 2011. Greinin sjálf hefur yfirskriftina; Kaupþing, Kongó og Tchenguiz, og er furðuleg samsuða þar sem hlaupið er um víðan völl með endalausar vangaveltur að vopni. Ekkert í pistlinum rennir þó stoðum undir fyrirsögnina. Greinin sjálf finnst ekki lengur á vef Ríkisútvarpsins.

Á þetta er minnst vegna þess að Sigrún var helsti sérfræðingur Ríkisútvarpsins í hruninu og eftirköstum þess. Hér hafa verið nefnd nokkur dæmi um vinnubrögðin en segja má að lokum hafi skáldskapurinn tekið yfir þar sem Sigrún gaf út árið 2011 skáldsöguna, Samhengi hlutanna, með útrásina í bakgrunni. Sagan gengur meðal annars út á að íslenskir útrásarvíkingar láta drepa blaðakonu sem hefur fjallað á gagnrýninn hátt um umsvif íslenskra auðmanna á erlendri grund og var langt komin með bók um bankahrunið þegar hún finnst látin. Er nema vona að menn undrist þennan skáldsagnaheim?

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.