c

Pistlar:

4. október 2018 kl. 10:38

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Útsvarsgreiðendur blæða á barnum

Það er hægt að undrast margt þegar kemur að opinberum framkvæmdum. En grundvallarspurningin hlýtur alltaf að lúta að því hvort framkvæmdin hafi yfir höfuð verið nauðsynleg? Sú spurning á sérstaklega vel við um end­ur­bæt­ur á göml­um bragga við Naut­hóls­vík í Reykja­vík sem hef­ur farið langt fram úr kostnaðaráætl­un. Fram­kvæmd­irn­ar hafa til þessa kostað 415 millj­ón­ir króna en áttu í upphafi að kosta 158 millj­ónir króna. Það er framúrkeyrsla upp á hvorki meira né minna en 257 millj­ón­ir króna. Eðlilega undrast fólk þetta, sérstaklega þegar horft er til þess að það er engin skortur á börum í Reykjavík. Hvernig í ósköpunum varð það að niðurstöðu að útsvarsgreiðendur tækju að sér að greiða slíka fjárfestingu?braggi

Einhvern veginn finnst manni eins og kosningabaráttan í vor hafi ekki snúist um slíka hluti. Vitaskuld væri verðugar að reyna að verja þessum fjármunum í að aðstoða þá sem eru í neyð eða þörf fyrir bráðaaðstoð. Það á varla við um viðskiptavini barsins sem þarna er risinn. Og sér ekki fyrir endann á framkvæmdunum, allt eins víst er að það þurfi að setja umtalsvert meiri fjármuni í verkið þó engar upplýsingar fáist um það eða endanlegan kostnað. Smiðirnir eru bara með opinn reikning á barnum! Komið hefur fram að endurbætur standa yfir á náðhúsi og skála við barinn. Mat­sölustaður hef­ur opnað í bragg­an­um og þá verður náðhúsið brátt tekið í notk­un sem fyr­ir­lestr­ar­sal­ur fyr­ir Há­skól­ann í Reykja­vík og frum­kvöðlaset­ur mun opna í skál­an­um. Framkvæmdir sem Háskólinn gæti væntanlega sjálfur staðið fyrir.

Pistlaskrifari lagði leið sína á staðinn og satt best að segja eru mannvirkin ekki tilkomumikil. Það má hafa skilning á verndarsjónarmiðum en mátti ekki finna ódýrari leið til að sinna þeim? Til dæmis með samningi við Minjavernd sem hefði getað sparað útsvarsgreiðendum umtalsverðar fjárhæðir. Það þarf ekki að taka fram að útsvar í Reykjavík er í hámarki, væntanlega með vísan til þess að Reykjavíkurborg þurfi meira á peningunum að halda en útsvarsgreiðendur.

Útsvarsgreiðendur reisa veitingastaði á Hlemmi

En þetta er ekki eina fjárfestingin sem hægt er að undrast. Flestir þekkja söguna af framkvæmdum við Mat­höll­ina á Hlemmi. Heild­ar­kostnaður við þá fram­kvæmd varð þre­fallt meiri en gert var ráð fyr­ir í upp­hafi. Frum­kostnaður hljóðaði upp á 107 millj­ón­ir króna en heild­ar­kostnaður við Mat­höll­ina reyndist 308 millj­ón­ir króna, að því er fram kom í svari skrif­stofu eigna- og at­vinnuþró­un­ar Reykja­vík­ur­borg­ar við fyr­ir­spurn borg­ar­ráðsfull­trúa Sjálf­stæðis­flokks­ins sem lagt var fyr­ir borg­ar­ráð í júlí. Hugsanlega eiga eftir að koma frekari bakreikningar þar. Með sama hætti má spyrja; er það hlutverk útsvarsgreiðenda að byggja yfir matsölustaði í Reykjavík? Mátti ekki bara selja eða afhenda einhverjum þess staði og spara útsvarsgreiðendum kostnaðinn? Nei, líklega ekki. Þá er nefnilega hugsanlegt að einhver gæti hagnast! Að sumra dómi er órásía upp á hundruð milljónir króna skiljanleg en arðgreiðslur upp á nokkra tugi milljóna óafsakanleg. Þannig er nú hugsunin í dag.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.