c

Pistlar:

15. október 2018 kl. 18:06

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Landbúnaður á tímamótum

Það var áhugavert að heimsækja landbúnaðarsýninguna sem var í Laugardalshöllinni um helgina. Vel var að sýningunni staðið og hún sýndi ágætlega þá fjölbreyttu starfsemi sem tengist landbúnaði í landinu en stundum finnst manni örla á því að fólk taki matvælaframleiðslu hér við heimskautsbaug sem sjálfsögðum hlut. Matvælaframleiðsla er sem gefur að skilja ein af grunnþáttum samfélagsins. Vert er að hafa í huga að fullveldisárið 1918 fór stærstur hluti útgjalda íslenskra heimila í matvæli eða um helmingur. Tæpum hundrað árum síðar var hlutfall matvöru af útgjöldum heimilanna komið niður í 13%. Á fullveldistímanum hefur hlutfallsleg hækkun á hrísgrjónum, haframjöli og kartöflum verið mikil á meðan sykur og smjör hafa lækkað um ríflega 55% miðað við fast verðlag ársins 2016 eins og lesa má um inni á heimasíðu Hagstofu Íslands.rolla

Hentar ekki fyrir magnframleiðslu

Í dag er matvælaframleiðsla hluti af heimsviðskiptum og matur ein mikilvægasta vara þeirra. Landfræðilegar ástæður gera það að verkum að mjög misjafnt er hvaða landbúnaðarvörur henta til framleiðslu á hverjum stað og Ísland verður seint talið heppilegt til magnframleiðslu matvæla. Sú matvara sem hér er framleidd verður að innihalda gæði sem meðal annars felst í hollustu og hreinleika. En það er vitaskuld dýrari matvara en sú sem framleidd er í risabúum heimsins. Sú framleiðsla er ekki alltaf til þess fallin að efla trú á hollustu vörunnar og margir hafa orðið til að vara við því ef slegið verður af innflutningskröfum hér á landi. Nú eru einmitt horfur á að svo verði. Hæstiréttur staðfesti í síðustu viku dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Ferskra kjötvara, þess efnis að bann við innflutningi á fersku kjöti frá ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins brjóti í bága við EES-samninginn og sé ólöglegt. Dómur Héraðsdóms féll í nóvember 2016. Í nóvember í fyrra féll dómur EFTA-dómstólsins, þar sem komist var að skýrri niðurstöðu um að bæði bannið við innflutningi á fersku, ófrosnu kjöti og bann við innflutningi á ferskum eggjum og vörum úr ógerilsneyddri mjólk frá ríkjum EES gengi gegn samningnum.

Veik rök

Félag atvinnurekenda (FA, áður Félag stórkaupmanna) fagnar þessari niðurstöðu sem vonlegt er. Á heimasíðu félagsins segir að samkvæmt skýrslu, sem fyrirtækið Food Control Consultants vann fyrir FA, séu ekki haldbær rök fyrir því að innflutningur á ferskum eggjum, vörum úr ógerilsneyddri mjólk og fersku kjöti muni hafa neikvæð áhrif á lýðheilsu fólks og heilsufar dýra. „Ekki virðist heldur hægt að fullyrða að innflutningur á þessum vörum muni hafa áhrif á útbreiðslu lyfjaþolinna baktería, þótt slíku sé oft haldið fram.“

Þetta eru í sjálfu sér ekki sterk rök en við blasir að af innflutningi á ófrosnu kjöti verður. Margir hafa orðið til að vara við slíku í gegnum tíðina og eru eftirminnileg varnaðarorð Margrétar Guðnadóttur, prófessors í ónæmisfræðum, en á meðan hún var á lífi varaði hún sterklega við slíkum hugmyndum. Margir læknar hafa gert hið sama eins og greina af eftirfarandi ummælum Vilhjálms Arasonar læknis: „Raunveruleg ný hættuvá er komin upp gagnvart lýðheilsunni á Íslandi og mögulega nýjum dýrasmitsjúkdómum sem berast munu til landsins með fersku innflutti kjöti frá Evrópu.“ Ætla má að þessi umræða sé rétt að hefjast.

Margt í matvælaframleiðslu heimsins sætir nú harðri gagnrýni. Gríðarleg mengun fylgir risabúum sem eru fyrirferðamest í matvælaframleiðslu margra landa. Sjúkdómar og tilheyrandi lyfjagjöf valda mörgum áhyggjum. Hvað sem verður er ljóst að landbúnaður á Íslandi stendur á tímamótum og erfitt að sjá hvernig honum mun reiða af í óheftri samkeppni. Þrátt fyrir að unnið sé að hagræðingu á mörgum sviðum er óvíst að landbúnaðurinn nái að keppa við óheftan innflutning. Það er staðreynd sem taka verður tillit til.


Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.