c

Pistlar:

22. nóvember 2018 kl. 21:40

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Grikkland, fullveldið og seðlabankinn

Nú þegar allskonar fræðimenn keppast við að rýna í fullveldi landsins gæti praktísku fólki þótt heppilegt að reyna að meta hvernig það hefur reynst okkur. Hvergi birtist það skýrar en þegar við Íslendingar þurfum að semja við erlendar þjóðir eða takast á við vandasamar samningaviðræður. Fullveldi þarf ekki endileg að snúast um sjálfstæðan gjaldmiðil eða sjálfstæða peningastefnu en getur það þrifist án sjálfstæðrar efnahagsstefnu eins og hún meðal annars birtist í fjárlögum. Það er spurning sem Ítalir standa frammi fyrir núna? Og getur sjálfstæð efnahagsstefna þrifist án sjálfstæðrar peningastefnu, studda af eigin seðlabanka? Hangir þetta ekki allt saman, þegar upp er staðið? Fyrir stuttu var bandaríski hagfræðingurinn James Galbraith hér á landi og birtist í eftirminnilegu viðtali í Silfri Egils. Óhætt er að segja að Galbraith hafi verið ómyrkur í máli um ýmis mál, þó sérstaklega stöðu evrunnar og meðferðina á Grikklandi sem hann fordæmdi harðlega. Þetta rifjast upp þegar bók Yanis Varoufakis, hagfræðiprófessors og fyrrverandi fjármálaráðherra Grikkja, Adults in the Room, er lesin en hún kom út á síðasta ári. Til hennar var vitnað hér í síðasta pistli en hér verður vikið að frásögn Varoufakis af „björgun“ Grikklands.Adults in the Room

Björgunaraðgerðin (e.bailout) byggðist á tveimur stoðum; annars vegar risavöxnum lánum sem fóru beint til frönsku bankanna sem höfðu lánað Grikklandi allt of mikla peninga. Hins vegar var ráðist í gríðarlegan niðurskurð, svo mikið að margir óttast að það hafi skaðað grískt samfélag varanlega. Varoufakis bendir á hliðstæðu. Annað evruland, Spán, lenti um svipað leyti í stórfeldum skuldavanda. Spánverjar þurftu að takast á við niðurskurð sem jafngilti 3,5% lækkun ríkisútgjalda og reynist þeim eðlilega erfitt. Á sama tveggja ára tímabili, 2010 til 2012, þurftu Grikkir að takast á við hvorki meira né minna en 15% niðurskurð ríkisútgjalda. Hvaða áhrif hafði það, spyr Varoufakis. Jú, landsframleiðsla á Spáni féll um 6,4% sem flestum þætti nóg um en á sama tíma féll framleiðsla Grikklands um hvorki meira né minna en 16%. Það er erfitt að lýsa slíkum efnahagslegum hamförum.

Seðlabankinn og ríkisstjórnin vinna saman

Um svipað leyti var nýr fjármálaráðherra Breta, George Osborne, að berjast við smávægilegan samdrátt ríkisútgjalda í þeirri von að ná hallalausum fjárlögum árið 2020. Osborne var einn af fyrstu fjármálaráðherrunum sem Varoufakis hitti eftir að sá síðarnefndi tók við embætti í byrjun árs 2015. Fjölmiðlar höfðu átt von á átakafundi en Varoufakis upplýsir að samskipti þeirra hafi frá fyrstu stundu verið góð. Augljóslega höfðu þeir sameiginlega sýn á hvað væri að í fjármálakerfi Evrópu, annar vinstri sinnaður Grikki og hinn erkiíhald frá Bretlandi. Varoufakis hafi bent Osborne á að Bretar væru ekki að takast á við mikinn niðurskurð á meðan Grikkir væru augljóslega ólympíumeistarar í niðurskurði. En staða þeirra í seðlabankamálum var ólík. Grikkir urðu að treysta á Evrópska seðlabankann sem var hluti af troikuna svokölluðu, hinn þríeina þurs sem samanstóð af Evrópusambandinu, Evrópska seðlabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þríeykinu var efst í hug að tryggja stöðugleika innan Evrópusambandsins og stöðu þeirra banka sem höfðu lánað suðrinu eins og var bent á hér í nýlegum pistli. Breski seðlabankinn (Bank of England) var hins vegar að berjast með bresku ríkisstjórninni við að koma þjóðinni í gegnum bankakreppuna, þar var um að ræða sameiginlegt átak seðlabankans og ríkisstjórnarinnar. Mönnum getur þótt nóg um en bresk yfirvöld veittu 45 milljörðum punda inn í bankakerfið í kjölfar bankahrunsins og björguðu meðal annars einum stærsta banka heims The Royal bank of Scotland með því. Engin vafi er á því að hann hefði farið á hausinn ef ekki hefði komið til þessi björgunarpakki enda gleypti RBS stóran hluta hans. Augljóslega er Varoufakis öfundsjúkur út í enskan kollega sinn vegna náins samstarfs enska seðlabankans og ríkisstjórnarinnar. „Þeir voru bak við mig í hverju einasta skrefi,“ hefur Varoufakis eftir Osborne og segir að breski fjármálaráðherrann hafi verið fegin að vera ekki í sömu stöðu og sá gríski sem þurfti að fást við óvinveittan seðlabanka (ECB) sem hagaði sér með allt öðrum hætti.

„Ég öfunda þig Georg,“ segir Varoufakis þegar hann rifjar upp samtal þeirra tveggja. „Ólíkt þér þá þarf ég að eiga við seðlabanka sem stingur mig í bakið í hvert einasta sinn sem eitthvað kemur upp. Getur þú ímyndað þér í hvað aðstöðu þið væruð hér í Bretlandi ef þið væru í svipaðri stöðu.“ (bls. 35)

Til ársins 2059 að borga til baka

Til að gera langa sögu stutta þá er fjárhagsaðstoðin við Grikki sú stærsta sem framkvæmd hefur verið í sögunni. Síðan í febrúar 2015 hefur Grikkjum verið veitt lán að fjárhæð tæplega 295 milljarðar evra og þeir hafa náð að greiða rúmlega 41 milljarða til baka. Talið er að Grikkir verði allt til ársins 2059 að greiða til baka, að því tilskyldu að þeir taki ekki lán á tímabilinu. Landsframleiðsla Grikkja á síðasta ári nam 178 milljörðum evra en þá var í fyrsta skipti hagvöxtur í átta ár. Landsframleiðsla á mann í Grikklandi er nú tæplega 17 þúsund evrur á meðan hún er ríflega 63 þúsund evrur hér á landi eða 3,7 sinnum meiri. 2009 var þessi munur aðeins 1,4. Hvor seðlabankinn skyldi nú hafa reynst betur, sá sem notaðist við evrur eða sá sem notaðist við krónur?

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.