c

Pistlar:

28. desember 2018 kl. 18:28

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hin pólitíska síld

Hér var fyrir stuttu vikið að sögu Jóns Gunn­ars­sonar sem var á sinni tíð áhrifa- og um­svifa­mik­ill í ís­lensku viðskipta­lífi, stýrði Síld­ar­verk­smiðju rík­is­ins og byggði síðan upp fisk­sölu­fyr­ir­tæki vest­an hafs sem varð stærsta fyr­ir­tæki Íslend­inga í út­lönd­um. Bók­in um Jón er því öðrum þræði mik­il at­vinnu­saga, þótt fókus­inn sé vita­skuld á Jóni og hans mikla fram­fara­hug og elju­semi. Það er Jakob F. Ásgeirs­son, rit­höf­und­ur og út­gef­andi, sem ritað hefur sögu Jóns og gefið út. Bók­in um Jón Gunn­ars­son er fjórða stóra ævi­sag­an sem Jakob skrifar. Áður hefur hann skrifað um Al­freð Elías­son, flug­stjóra og for­stjóra Loft­leiða, Pét­ur Bene­dikts­son, sendi­herra og banka­stjóra, og Valtý Stef­áns­son, rit­stjóra Morg­un­blaðsins og skóg­ræktar­frömuð. Af þessu sést að Jakob hefur helgað sig atvinnu- og stjórnmálasögu landsins og er þekktur af vandvirknislegri umgengni um heimildir og stórfróðleg rit. Næst­ur í röðinni hjá Jakobi er dr. Bjarni Bene­dikts­son, pró­fess­or, borg­ar­stjóri og for­sæt­is­ráðherra, en ævi­saga hans er óskrifuð. Er ekki að efa að það verður áhugaverð lesning.síld

Það er sérlega fróðlegt að lesa umfjöllun Jakobs um það þegar Jón var fram­kvæmda­stjóri Síld­ar­verk­smiðja rík­is­ins en á þeim tíma var síld­ar­vinnsla und­ir­staða þjóðarbús­ins. Það var á kreppu­ár­un­um og í heims­styrj­öld­inni síðari, en þá höfðu salt­fisks­markaðir lokast og hraðfryst­ing­in var á frum­stigi.

Hin pólitíska síld

Jón var kapp­sam­ur og atorku­semi hans gerði það vissu­lega að verk­um að hann eignaðist óvild­ar­menn eins og Jakob rekur samviskusamlega. Vel­gengni hans kallaði líka á öf­und. Þá var hat­römm stjórn­mála­bar­átta altumlykj­andi á þess­um árum. Jón stóð jafn­an fast gegn af­skipt­um af­skipta­samra stjórn­mála­manna af rík­is­fyr­ir­tæk­inu SR og það aflaði hon­um ekki vin­sælda. Sjálf­ur var hann lítt póli­tísk­ur segir ævisöguritari hans. Jakob telur einnig að það hafi unnið gegn Jóni að hann var frá­hverf­ur öll­um und­ir­mál­um og hann hafi ekki nennt að smjaðra fyr­ir fólki til að vinna það á sitt band. Hann hafi fyrst fyrst og fremst verið maður at­hafna og stór­huga fram­kvæmda og bjó yfir þeim ein­staka hæfi­leika að geta leitt hjá sér per­sónu­leg árás­ar­skrif. Hann hafi þannig litið svo á að flest af því væri til­hæfu­laust eða byggt á vanþekk­ingu og því ekki svara­vert.

Það er merkilegt að lesa sögu síldveiða í gegnum starfsævisögu Jóns. Þessi undirstöðuatvinnugrein landsmanna byggðist á því að síldin gæfist í þá tvo mánuði yfir sumarið sem hún var að ganga hér við land. Í raun er með ólíkindum að hugsa til þess að menn hafi reynt að byggja upp atvinnugrein við þessar kringumstæður. Allt var undir og eins gott að hafa síldarverksmiðjurnar klárar en fjárfestingin varð að standa undir sér á þessum tveimur mánuðum. En á því gat orðið misbrestur. Þannig þurfti til dæmis að útvega viðhaldsvörur og nýfjárfestingar í miðju stríðinu. Það var sem gefur að skilja vandasamt en Jón virðist í senn hafa verið útsjónarsamur og djarfur og tókst að halda öllu gangandi.

Eins og gefur að skilja er mikið undir og taugar allra þandar til hins ýtrasta. Framleiðslugeta verksmiðjanna þurfti að vera mikil til að geta tekið á móti síldinni á réttum tíma en samt verður stundum löndunarbið. Og þá verður allt vitlaust. Sem gefur að skilja veltur verðmætið á því hvort tekst að vinna hráefnið áður en það skemmist. Í raun er stórfurðulegt að lesa um hvernig síldin var hanteruð en ýmist var hún þurrkuð eða brædd ef hún dugði ekki í söltun. Hráefnið er gríðarlega viðkvæmt og engin virðist hafa yfirsýn. Stundum veiðist allt of mikið og þá skemmist hráefnið. Það getur varla hafa verið skemmtilegt að vera með fullan bát af síld og þurfa að bíða eftir því að komast að. Biðin gat farið upp í nokkra daga og þá var allt á suðupunkti. Og allir þurftu að kvarta við forstjóra SR.jon-gunnarsson-708x1024

Skammsýni í uppbyggingu

Eins og áður sagði skipti pólitíkin miklu, jafnvel öllu. Ríkið átti verksmiðjurnar og það var ekki einfalt fyrir Jón að koma sínu fram með pólitíkina á bakinu, hvað þá að styðja við stefnumótun og uppbyggingu. Því miður var skammsýnin mikil. Jakob dregur fram gögn sem sýna að verksmiðjan á Siglufirði var langarðbærust og það vissi Jón mæta vel. Samt var krafa um að byggja upp verksmiðjur annarsstaðar og beina viðskiptum þangað. Oft varð að hlýða því, pólitíkin krafðist þess.

Og svo voru það sölumálin. Mest af afurðum SR var selt til útlanda, aðallega Þýskalands og Danmerkur. En salan utanlands var háð leyfum frá stjórnvöldum (Bls. 174). Þannig gat Jón lent í því að fá hagstætt verð en höfnun frá yfirvöldum og því verður ekkert af sölunni. Það hefur án efa verið gremjulegt fyrir Jón og Jakob rekur mörg dæmi um það í bókinni. Þá fór mikill tími í markaðsleit og síðan kom heimsstyrjöldin og þá varð að skipuleggja allt upp á nýtt. Allt er þetta stórmerkilegt aflestrar og óhætt að segja að þessi ævisaga Jóns Gunnarssonar gefi okkur áhugaverða sýn á þessa mikilvægu atvinnugrein.

Þegar þessi saga er skoðuð getur maður stundum undrast að yfirhöfuð hafi nokkuð gengið í íslensku atvinnulífi. Þrátt fyrir gegndarlaust puð varð afraksturinn oft lítill og skammsýni og fyrirhyggjuleysi allsráðandi. Þess betur getum við glaðst yfir því hvernig staðið er að málum í sjávarútvegi í dag, þar sem gæði hráefnis og markaðssetning skiptir öllu. Frásögn Jakobs dregur líka skýrt fram hve mikilvægt er að fjárfesta af skynsemi í sjávarútvegi.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.