c

Pistlar:

30. desember 2018 kl. 18:48

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

2018 - ár framfara?

Það er vandasamt að nota orðið framfarir. Í flestu sjáum við einhverskonar framþróun en það þýðir ekki endilega framfarir. Við getum sett upp ótal mælikvarða til að hjálpa okkur að meta hvernig málum miðar, ýmist í okkar eigin lífi eða í því þjóðfélagi sem við lifum í. Nú, aðrir vilja skoða þetta heildrænt og meta þannig ástandið á heimsvísu. Yfir hátíðarnar er stækkun mittismálsins ekki endilega dæmi um framþróun og eftir áramót verður það einmitt eitt af markmiðum fólks að færa það aftur til fyrra horfs, nú jafnvel betra horfs ef því er að skipta. Þannig geta forsendur markmiða tekið stöðugum breytingum.

Að taka þátt í þjóðfélagsumræðu snýst öðrum þræði um að finna mælikvarða og viðmið sem hjálpa okkur að skilja samfélagið og á hvaða braut þar er. Það er misjafnt hve háan sjónarhól menn velja og nálgunin getur verið ansi ólík en flest erum við þó í leit að einhverjum algildum sannindum þó líklega verði að segjast að þau séu vandfundin. Sjónarhornið ræður miklu og óhætt er að fullyrða að samfélagsmiðlar nútímans geri sitt besta til að endurvarpa þessari ólíku sýn mismunandi sjónarhorna sem finna má um allt samfélagið. Nú, sem endranær eru skoðanir margar og ólíkar. Í pistlum ársins sem er að líða hef ég reynt að benda á mælikvarða sem má nota til að meta ástandið og ýmsa þá sem horfa með bjartsýni til framtíðar. Einhverjir hafa vonandi áhuga á slíkri nálgun.framþ

Barátta við fátækt

En hvernig eigum við að meta framþróun og hugsanlegar framfarir í samfélaginu. Við getum tekið hugtak eins og fátækt og velt fyrir okkur hvort hún er að aukast eða minnka í okkar samfélagi. Vandinn við það er sá, að í okkar samfélagi finnst ekki algild eða alger fátækt heldur sú fátækt sem tekur mið af því hvað aðrir hafa. Semsagt hlutfallsleg fátækt. Þannig getur hlutfallsleg fátækt aukist þó að efnahagur landsmanna sé almennt að batna. Hlutverk stjórnvalda er auðvitað að fylgjast með breytingum á þessari samsetningu og styðja við þá sem það þurfa. Hvernig það er gert er hins vegar umdeilanlegt. Freistandi gæti verið til skamms tíma að hækka bætur og auka þannig kostnað hinna sameiginlegu sjóða landsmanna. Öðrum gæti þótt betri langtímalausn að styðja við atvinnulífið þannig að atvinnutækifærum fjölgi og fólki sé gert auðveldara að bæta sjálft kjör sín. Hvernig vægi er þarna á milli og hvernig sameiginlegum sjóðum og skattlagningavaldi er beitt til að jafna út kjör og aðstæður mun alltaf kalla á mismunandi afstöðu. Það gefur hins vegar auga leið að hlutfallslegri fátækt verður aldrei útrýmt, og þess mikilvægara er að hjálpa fólki að bæta stöðu sína.

Stéttaskipting

Af líkum meiði var umræða um stéttskiptingu hér á landi í tilefni þess að í útvarpsþættinum Vikulokum um helgina sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, að einn af helstu kostum íslensks samfélags hefði verið stéttleysið. Svo virðist sem þessi ummæli hafi komið illa við marga og formaður Eflingar sagðist vera orðlaus. Sem hún var auðvitað ekki en hún taldi fullyrðinguna ósanna. Vitaskuld má velta fyrir sér hvað stéttaskipting sé yfir höfuð? Öfugt við nágrana okkar á Norðurlöndunum þá er ekki aðal hér og fólk ber ekki slíka titla. Vissulega höfum við dæmi um að auður erfist og nokkrir ættliðir stýri tilteknum fyrirtækjum. Þegar grannt er skoðað sést þó að það nær ekki langt aftur, yfirleitt tvo til þrjá ættliði. En birtist þá stéttaskipting hér á landi í því að fólk sinni mismunandi störfum og þiggi mismunandi kjör? Eða þurfum við að horfa til hreyfanleika milli stétta? Hver séu tækifæri fólks til að bæta kjör sín. Við höfum byggt upp margvíslegt stuðningskerfi, til dæmis með opinberum námslánasjóðum. Þeim er ætlað að stuðla að því að börn verkamannsins hafi tækifæri til að verða læknir, bankastjóri eða jafnvel forsætisráðherra? Kannanir sýna að fólk upplifir það svo að hér séu tækifæri til að bæta stöðu sína milli kynslóða. Segir það ekki eitthvað, ef hvergi rennur hærri hluti verðmætasköpunar samfélagsins til launamanna en hér á landi? Hlutfallið er nú 63% en var 56,6% árið 2011. Er það ekki sterk vísbending um að launamenn búi þrátt fyrir allt við sterka stöðu hér á landi?

Tækifæri í baráttunni gegn gegn fátækt og stéttaskiptingu

Þegar ævisögur Íslendingar eru lesnar sést að margir sem hafa komist í álnir hafa alist upp við mikla fátækt. Auðvitað er það svo að fólk er misfyrirhyggjusamt og misduglegt og vinnur þar af leiðandi misvel úr aðstæðum sínum. Þekkt er að hæsti skattgreiðandi landsins um árabil, Þorvaldur Guðmundsson í Síld & fisk, var alinn upp við mikla fátækt. Hann leit reyndar aldrei á sig sem fátækan og nálgaðist lífið eins og það væri fullt af tækifærum. Auðvitað geta ekki allir fetað braut Þorvaldar en við sjáum þetta viðhorf víða. Ég hef undanfarið skrifað tvær greinar um ævisögu Jóns Gunnarssonar sem fæddist árið 1900 og ólst upp við mikla fátækt en varð stórforstjóri hér og erlendis. Á síðasta ári fjallaði ég um sögu Gunnars Birgissonar, fyrrverandi bæjarstjóra og alþingismanns, sem einnig þurfti að berjast við erfiðar aðstæður í æsku. Eftirminnilegt var sömuleiðis að lesa sögu Óskars Jóhannssonar kaupmanns en hann var það sem í Bandaríkjunum er talað um sem „self-made man". Hann kom úr sárri fátækt að vestan eins og var rakið í bernskuminningabók hans, Bernskudagar, og nær með ótrúlegum dugnaði og elju að koma undir sig fótunum. Vafasamt var að tala um hann sem ríkan mann þó hann komist í þokkalegar álnir. Maður eins og Óskar hefði sjálfsagt orðið efnaður í Bandaríkjunum, þar sem hann hefði ekki þurft að glíma við höft, verðstýringu og endalaust stjórnlyndi. Óskar er sjálfstæðismaður, trúir á sjálfsbjargarviðleitni einstaklingsins og frelsi til athafna. Þegar starfsumhverfi hans er skoðað er eðlilegt að hann hafi mikla ótrú á þeim höftum sem sett eru á athafnamennsku og frumkvæði hér á landi. Það má Óskar hins vegar eiga að hann missir aldrei trúna á sjálfan sig og að hægt sé að geta hlutina betur, til hagsbóta fyrir sig og aðra. Það er til eftirbreytni.

Það er kannski fátækleg leið til að meta framfarir að taka fyrir þau hugtök sem hér hafa verið notuð og sjálfsagt duga þau skammt til að leggja raunverulegt mat á hvert þjóðfélagið stefnir. Við getum þó vonað að í þessu felist einhverjar vísbendingar um að hlutirnir geti batnað og að það verði okkur hvatning til að tryggja að svo verði áfram. Mikilvægast er að fólk hafi trú á eigin framtíð og þá um leið framtíð landsins.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.