c

Pistlar:

8. janúar 2019 kl. 14:00

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Horfðu jákvæður um öxl

Áramótin eru tilefni til að staldra við og horfa til fortíðar og einnig fram á veg. Þó það sé komið fram yfir Þrettándann þá er enn hægt að velta upp þeim hlutum sem geta varpað ljósi á stöðu okkar á þessum tímamótum, þá í senn sem einstaklingar, Íslendingar, en þó kannski ekki síst sem íbúar á Móðir jörð en ég leyfi mér hér að láta fljóta með mynd af samnefndri styttu Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara sem leynist í Grasagarðinum í Laugardalnum og ég hef óteljandi sinnum gengið framhjá.

Augljóslega táknar konan jörðina og barnið mannfólkið. Hér er því um að ræða hina frjósömu og gjöfulu jörð sem elur mannkynið. Um verk sitt sagði listamaðurinn í samtali við Matthías Johannessen í Bókinni um Ásmund en hann gerði Móður jörð í Danmörku. „Ég gerði hana fyrir föður minn, sem trúði á mold og jörð. Þetta er einasta framlag mitt til landbúnaðarins.“ Nóg um það, skoðum hvað nokkrir áramótaspekingar hafa tekið saman.modir

Var þetta besta ár í sögu mannkyns?

Nicholas Kristof, pistlahöfundur hjá New York Times, lítur yfir farinn veg nú í byrjun árs og kemur með þá frumlegu nálgun að líklega hafi 2018 verið það besta í sögu mannkyns! Fyrir því færir hann margvíslegar sönnur, svo sem að á hverjum degi hafi 295.000 manns fengið aðgang að rafmagni í fyrsta sinn. Um leið hafi 305.000 manns fengið aðgang að hreinu drykkjarvatni og til viðbótar hafi 620.000 manns komist í netsamband í fyrsta sinn. Mestu skiptir þó að aldrei í sögu mannkyns hafi jafn margir verið læsir og skrifandi, notið þæginda millistéttalífsins eða lifað jafn lengi. Um leið hafi aldrei jafn stór hópur fólks geta gert raunverulegar áætlanir með fjölskyldur sínar og verið nokkuð vissir um velferð barna sinna. Kristof telur því tímabært að við vesturlandabúar lítum aðeins út fyrir þægindakrísur okkar og líklega mætti beina þeim orðum til Íslendinga. Hann vitnar reyndar til Hans Roslings - sem oft hefur verið vitnað til í pistlum hér um það að upplifun fólks getur verið ákaflega mismunandi. Þannig afhjúpaði hann augljósa neikvæða upplifun vesturlandabúa af ástandi mála og kenndi fréttamati vestrænna miðla um það.framf

Nokkrar jákvæðar vísbendingar

Sænski sagnfræðingurinn Johan Norberg hefur löngum verið í uppáhaldi hjá þeim er þetta skrifar en bók hans kom út hér á landi fyrir nokkrum árum og var fjallað um hana hér. Norberg skrifaði á Twitter á gamlársdag um 10 jákvæðar vísbendingar um að heimurinn hafi batnað á árinu 2018. Hér að neðan er lausleg upprakning á því og er að hluta til stuðst við ágæta þýðingu Bjarna Theódórs Bjarnasonar sem hann hefði fyrir að setja út á Facebook í byrjun árs. Ég von að hann fyrirgefi mér þó ég styðjist við hana með einni alsherjartilvísun.

En Norberg tínir til 10 atriði (hann er dálítið mikið fyrir það!) þegar hann metur síðasta ár, með fylgir gjarnan tilvísun í heimildir:

1. Fyrsta skilvirka meðferðin gegn Alzheimer-sjúkdómum virðist hafa fundist, (VX-765, Lady Davis Institute).
2. Alþjóðleg sjálfsvígstíðni fer lækkandi og er nú 38% af því sem hún var árið 1994, (Institute for Health Metrics and Evaluation: Heilsufræðistofnun á vegum stofnunar Bill og Melindu Gates).
3. Lífslíkur í heiminum jukust aftur, í 72,2 ár, frá 65 árum árið 1990, (UN: Sameinuðu þjóðirnar).
4. Ungbarnadauði heldur áfram að lækka og er nú 3,9% í heiminum í samanburði við 8,2% árið 1998 og er miðað við börn undir 5 ára aldri. Á Íslandi er sambærilegt gildi komið í 0,21% en var um 2% árið 1964 á Íslandi, tilgreinir Bjarni Theódór, en það var árið sem hann fæddist, (World Bank: Alþjóðabankinn).
5. Lífsgæðavísitala heimsins (á skalanum 0-1) hækkaði í 0,73 frá 0,6 árið 1990. Þessi vísitala er reiknuð út frá lífslíkum, menntunarstigi og þjóðarframleiðslu, PPP. Frá 2010 hefur Ísland hækkað frá 0,869 í 0,963 í nýjustu skýrslu SÞ og fer úr 17. sæti 2010 í 6. sæti í ár, (UNDP: Þróunaráætlun SÞ).
6. Fjöldi fallinna í stríðum lækkaði aftur og er nú helmingur af því sem var fyrir 4 árum, (UCDP: Uppsala Conflict Data Program)
7. Á heimsvísu eru nú 99,7 stúlkur í grunn- og framhaldsskólum fyrir hverja 100 drengi, (UNESCO: Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna).
8. Tæknilegur kostnaður til að draga CO2 (koltvísýring) úr andrúmsloftinu hefur lækkað í 94 til 235 USD/tonn, (Carbon Engineering: www.carbonengineering.com)
9. Dauðsföllum vegna hryðjuverka fækkaði um 27% og eru nú 44% af því sem mest hefur verið, (Global Terrorism Index 2018).
10. Fjöldi mjög fátækra (e. extremely poor) fækkaði um 127 þúsund á dag, (World Bank).

Þetta er svo sem engin stóri sannleikur, bara tölur sem geta þó gefið okkur einhverjar vísbendingar um það hvernig mál þróast. Til gamans má geta þess að höfundur gerði árið 2013 að umtalsefni fyrir nokkru, undir formerkjum þess að það væri hugsanlega besta ár allra tíma!

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.