c

Pistlar:

15. janúar 2019 kl. 21:30

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Einstök breyting á viðskiptajöfnuði


Viðskiptajöfnuður hefur aldrei á lýðveldistímanum verið hagstæðari en undanfarin ár. Yfirstandandi áratugur sker sig algerlega úr hvað varðar viðvarandi viðskiptaafgang á sama tíma og hagvöxtur hefur verið myndarlegur og raungengi krónu farið hækkandi. Góðar líkur eru á að samspil þessara stærða verði áfram hagfelldara en raunin var undanfarna áratugi. Þetta kemur fram í nýrri frétt frá Greiningu Íslandsbanka.

Á árum áður var mikill og þrálátur halli á viðskiptum Íslendinga við útlönd og um þennan viðskiptahalla var gjarnan mikil opinber umræða. Frá stríðslokum hefur halli verið reglan og afgangur undantekningin í viðskiptajöfnuði Íslands við útlönd. Á þessu 72 ára tímabili hefur þannig verið viðskiptahalli á 55 árum en afgangur aðeins 17 ár. Af þeim 17 árum sem hefur mælst einhver afgangur af utanríkisviðskiptum eru 6 á yfirstandandi áratug sem sker sig algerlega úr. Afgangurinn hefur þar að auki verið mun myndarlegri að jafnaði undanfarin 5 ár (5,7% af VLF) en hann var nokkru sinni fyrr á tímabilinu. En hvað hefur breyst?halli

Ferðaþjónustan að breyta reglunum?

Viðskiptajöfnuður samanstendur af vöruskiptajöfnuði og þjónustujöfnuði. Þjónustujöfnuðurinn hefur undanfarin ár gerbreytt stöðunni en þar gætir áhrifa ferðaþjónustunnar. Þannig virðist ferðaþjónustan ætla að rétta af viðskiptajöfnuðinn og þar að auki tryggja að hann verði hagstæður um ókomin ár ef heldur sem horfir. Það er ótrúleg umbylting í íslenska hagkerfinu.

Undanfarin ár hefur hagvöxtur einnig verið myndarlegur og er það sömuleiðis undantekning frá þeirri reglu íslenskrar hagsögu að vaxtarskeiðum hefur oftast fylgt talsverður viðskiptahalli. Hefur það bæði komið til af miklum innflutningsvexti vegna fjárfestingar, en ekki síður hefur innflutt neysla gjarnan vaxið hratt á uppgangstímum. Þetta tvennt hefur vissulega einnig gerst undanfarin ár en góðu heilli hefur útflutningsvöxtur náð að halda viðskiptajöfnuðinum í horfinu á tímabilinu.

Afgangur í hækkandi raungengi

Þriðji þátturinn þar sem yfirstandandi áratugur hefur algera sérstöðu í nútíma hagsögu Íslands er að viðskiptaafgangurinn hefur enn sem komið er staðið af sér hækkandi raungengi segir Greining Íslandsbanka. Þótt Ísland hafi undanfarin ár jafnt og þétt orðið dýrara í samanburði við umheiminn, bæði á kvarða verðlags og launakostnaðar, hefur hækkandi raungengi ekki haldist í hendur við vaxandi viðskiptahalla.

Raungengi var orðið býsna lágt í sögulegu ljósi rétt eftir banka- og gengishrunið 2008, auk þess sem dregið hefur úr viðskiptaafgangi síðustu ár á sama tíma og raungengið hefur farið yfir langtímameðaltal sitt. Eftir sem áður sker þetta tímabil sig úr hvað að því leyti að saman hefur farið talsverður hagvöxtur, hækkandi raungengi og myndarlegur viðskiptaafgangur.

Betri tíð með blóm í haga?

En ánægjulegast er að það er ekki útlit fyrir að verði breyting á að sögn Greiningar Íslandsbanka. Þvert á móti sé útlit fyrir áframhaldandi viðskiptaafgang næstu misserin. Í þjóðhagsspá Greiningar sem birt var í lok september síðastliðins var því spáð að afgangurinn myndi nema 2,8% af VLF á þessu ári og 1,7% af VLF árið 2020. Þróunin síðan hefur styrkt þá í þessari skoðun. Þótt horfur séu á fremur hægum hagvexti í ár telur Greining Íslandsbanka að vöxturinn taki við sér að nýju áður en langt um líður. Því bendi margt til þess að framundan sé hagfelldara samspil ytra jafnvægis og batnandi lífskjara hér á landi en Íslendingar hafa átt að venjast frá lýðveldisstofnun. Er það ekki eitthvað sem ber að horfa til og varðveita?

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.