c

Pistlar:

7. febrúar 2019 kl. 17:43

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Trump og Bezos - forsetinn og auðmaðurinn

Átök stjórnmála og viðskiptalífs eru þekkt um allan heim en sumum kann að koma á óvart að núverandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, skuli standa í orðaskaki og kýtingum við auðugasta mann heims. Eða hvað! Kannski kemur það ekki svo á óvart að Trump sé í kýtingum en vissulega má velta fyrir sér ýmsum þáttum þessa máls, svo sem því að engin hefur auðgast meira undir forsetatíð Donalds Trump en einmitt Jeff Bezos stofnandi og stærsti eigandi Amazons sem nú telst verðmætasta fyrirtæki heims. Á þessum vettvangi hefur áður verið fjallað um uppgang Bezos og Amazons sem er auðvitað einstakur. En Trump hefur átt ýmislegt vantalað við Bezos og hefur leynt og ljóst hótað honum með skattahækkunum, samkeppnisyfirvöldum og hækkun á flutningskostnaði. Augljóslega er þarna ýmislegt sem truflar Trump þó menn eigi almennt erfitt með að átta sig á hvað veldur. Trump er reyndar ekki einn um að gagnrýna Amazon en hann virðist ekki fá mikið hrós fyrir framlag sitt frá öðrum þeim sem gagnrýna fyrirtækið.why_does_donald_trump_hate_jeff_bezos

Washington Post gleður ekki Trump

Hugsanlega er það eignarhald Bezos á Washington Post en blaðið hefur verið óvenju hatramt í gagnrýni sinni á forsetann. Óhætt er að segja að það sjái ekkert jákvætt við stjórn Trump og lesendur blaðsins fá daglega marga skammta af mjög neikvæðri umfjöllun um forsetann. Þetta virðist ganga ágætlega í lesendur blaðsins en síðustu tvö ár hefur rekstur þess verið réttu megin við núllið eftir áralanga erfiðleika í rekstri. Bezos hefur látið sig rekstur blaðsins talsverðu varða síðan hann eignaðist blaðið 2013 þó hann fullyrði að hann komi ekkert að ritstjórn þess. Hann er nú að láta reisa mikið glæsihýsi í Washington DC, á heimavelli blaðsins, og hyggst greinilega verja meiri tíma þar.

Bezos sjálfur hefur átt einstöku ári að fagna en auður hans er nú metin á um 133 milljarða dala, þriðjungi meira en Bill Gates státar af og helmingi meira en sá er auðgast næst hraðast en það mun vera franski tískuvörumógúllinn Bernard Arnault að því er kemur fram á Bloomberg Billionaires Index. Talið er að auður Bezos hafi aukist um 65 milljarða dala síðan Trump tók við embætti en hækkun Amazon hefur verið gríðarleg undanfarin misseri. Aðeins fjórir einstaklingar eiga meiri auð en það sem Bezos hefur eignast undanfarin tvö ár en það eru þeir Bill Gates, Warren Buffett, Arnault og Mark Zuckerberg. Það er reyndar rétt að minna á fallvaltleika bandaríska fyrirtækjaheimsins eins og var rekið hér í pistli um General Electric síðast. GE státaði af því að vera verðmætasta fyrirtæki heims árið 2010 en nú óttast menn helst gjaldþrot þess.

Táknmynd kapítalismans

Trump hefur ekkert sparað sig í umfjöllun um Bezos og ekki vandur að meðulum frekar en fyrri daginn eins og kom fram í nýlegri umfjöllun viðskiptatímaritsins Fortune. Sérstakt verður að teljast að hann skuli hafa fyrir því að skattyrðast út í Bezos vegna hjónabandserfiðleika en hann mun nú vera að skilja við MacKenzie, konu sína, sem mun væntanlega gera hana að auðugustu konu heims. Líklegt er talið að þau hjónin skipti með sér auðæfunum enda margkomið fram að hún hafi stutt við bakið á honum í rekstrinum þau 25 ár sem þau hafa verið gift. Einhver sagði að það færi ekki Trump vel að vera að gera skilnaðarmál annarra að umtalsefni, eftir að hafa gengið í gegnum marga slíka sjálfur. En svona er Trump.

Vissulega má segja að rekstur Bezos sé umdeildur og að honum er sótt víða. En þar sem Trump er nú táknmynd kapítalismans þá héldu menn að hann léti aðra slíka vera, nema hrein og klár öfund stýri för. Í það minnsta er erfitt að sjá hvað vakir fyrir honum en þessi gagnrýni hans á Bezos og Amazon nær allmörg ár aftur í tímann, meira að segja áður en hann varð forseti var hann farin að senda þeim pillur.

Bezos hefur ekki svarað miklu en einu sinni bauð hann Trump ókeypis sæti í eldflaug sem fyrirtæki á vegum Bezos var að fara að skjóta út í geiminn. Það virkaði sem endanleg lausn!