c

Pistlar:

14. febrúar 2019 kl. 22:17

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Evrópa handan við Brexit

Þetta er ekki pistill um Brexit og líklega ekki vænlegt að vísa á nokkurn hátt til þess þó að skilnaðardagurinn, 29. mars, nálgist óþægilega. Það var nokkuð til í því sem Ed Miliband, þingmaður breska Verkamannaflokksins, sagði við Egil Helgason um síðustu helgi að einn höfuðgalli Brexit væri að það yfirtæki alla umræðu, bæði í Bretlandi og víða annars staðar, meira að segja hér á Íslandi sýnist manni.

En Evrópa á einn eða annan hátt gegnir stóru hlutverki í heimsmynd okkar Íslendinga. Fyrir því eru margar ástæður en augljóst er að erfitt er stundum að meta og skilja þróunina innan Evrópu, hvað þá innan þeirra 27 landa sem mynda Evrópusambandið. Ég tek eftir því að nokkrum ESB-sinnuðum félögum mínum finnst þannig nokkuð til koma að hlusta á Guy Verhofstadt, þingmann Evrópuþingsins, skamma Ítali á þeirra eigin móðurmáli í umræðu á Evrópuþinginu. Guy Verhofstadt er engin venjulegur þingmaður, hann sat sem forsætisráðherra Belgíu í nærri tíu ár eða til ársins 2008. Ári seinna var hann kosinn á Evrópuþingið þar sem hann hefur verið fyrirferðamikill en þó kannski einkum fyrir að lesa fulltrúum annarra ríkja, sem þangað slysast inn, pistilinn í mikilli siðferðislegri upphafningu. Það hlýtur að styrkja trú þessara landa á Evrópusamstarfið að fá slíkar yfirhalningar, eða hvað?greece-eu

Hvað er raunverulega að gerast í Grikklandi?

En áhugamenn um Evrópu og samstarfið innan Evrópusambandsins hefðu líklega betur hlustað á fyrirlestur sem Kostis Hatzidakis, lögfræðingur frá Krít, hélt í London School of Economics nú í byrjun febrúar. Kostis Hatzidakis hefur setið á gríska þinginu síðan 2007 og um leið átt sæti á Evrópuþinginu. Hann var ómyrkur í máli þegar hann lýsti þróun mála á Grikklandi, nú þegar fjögur ár eru liðin síðan Alexis Tsipras tók við sem forsætisráðherra landsins. Tsipras gefur sig út fyrir að vera sósíalisti og hefur verið leiðtogi gríska stjórnmálaflokksins Syriza um langt skeið en óhætt er að segja að flokkurinn hafi lofað að berjast gegn skuldaklafanum sem troikuna svokallaða, hinn þríeina þurs sem samanstóð af Evrópusambandinu, Evrópska seðlabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, ætlaði að setja á Grikkland. Um það hefur verið áður fjallað hér. Syriza kom inn með látum og loforðum að bjarga Grikklandi en endaði á að semja um björgunina.

Stærsti björgunarpakkinn

Rifjum aðeins upp söguna en fjárhagsaðstoðin við Grikki var sú stærsta sem framkvæmd hefur verið í sögunni. Síðan í febrúar 2015 hefur Grikkjum verið veitt lán að fjárhæð tæplega 295 milljarðar evra og þeir hafa náð að greiða rúmlega 41 milljarða til baka. Talið er að Grikkir verði allt til ársins 2059 að greiða til baka, að því tilskyldu að þeir taki ekki lán á tímabilinu. Landsframleiðsla Grikkja á síðasta ári nam 178 milljörðum evra en þá var í fyrsta skipti hagvöxtur í átta ár. Landsframleiðsla á mann í Grikklandi er nú tæplega 17 þúsund evrur á meðan hún er ríflega 63 þúsund evrur hér á landi eða 3,7 sinnum meiri. 2009 var þessi munur aðeins 1,4.

Kostis Hatzidakis er þungorður um þessa björgun. Hann benti á að atvinnuleysi á Grikklandi er nálægt 20% núna, þannig að fimmti hver vinnufær maður er án atvinnu. Ekki nóg með það heldur eru fjárfestingar nú einungis þriðjungur af því sem þær voru árið 2007, tveimur árum áður en efnahagshrunið féll á Grikki. Gríska hagkerfið hefur fallið um 12. sæti á alþjóðlegum listum um samkeppni síðan „björgunin” átti sér stað 2015. Landið hefur farið úr 59. sæti í sæti númer 72. Á sama tíma hafa grískir bankar glatað um 90% af markaðsvirði sínu. Þá er Grikkland í neðsta sæti í Evrópu þegar kemur að félagslegum úrræðum til að stemma stigum við fátækt. Velferðarkerfið er með öðrum við það að hrynja. „Eitthvað hefur farið úrskeiðis,“ sagði Kostis Hatzidakis með réttu.

Háir vextir

Grikkland snéri til baka inn á skuldabréfamarkaðinn fyrir nokkrum dögum síðan en það var ekki glæsileg endurkoma. Grikkir þurfa að greiða margfalt hærri vexti en aðrir og tók Kostis Hatzidakis sem dæmi að Grikkir þyrftu að greiða 10 sinnum hærri vexti en Portúgal en þegar allt lék á reiðiskjálfi fyrir fimm árum þá þurftu Grikkir aðeins að greiða tvisvar sinnum hærri vexti en Portúgal. Þetta er nú trú heimsins á björgunarbakka troikunar.

Grikkjum hefur fækkað um sem svarar íslensku þjóðinni síðan efnahagshörmungarnar dundu yfir þjóðina. Hagvaxtaspár eru ekki uppörvandi en spáð er 1,9% hagvexti á yfirstandandi ári. Ljóst er að þjáningum grísku þjóðarinnar er ekki lokið.