c

Pistlar:

18. febrúar 2019 kl. 22:47

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Óhófleg skattlagning á stofnun félaga


Stundum fer ekki mikið fyrir fréttum sem skipta okkur miklu. Ein slík var í laugardagsblaði Morgunblaðsins. Þar var gerður stuttur samanburður milli landa á kostnaði við stofn­un einka­hluta­fé­laga. Þar kom í ljós að sá kostnaður er meira en tíu sinn­um meiri á Íslandi en í Dan­mörku. Þetta eru í raun ótrúlegar tölur en við Íslendingar höfum löngum stært okkur af frumkvöðlaanda. Má hann sín einhvers ef stjórnvöld setja þunga krumlu sína ofan á stofnkostnað? Kemur þetta heim og saman? Og hafa stjórnvöld metið afleiðingar þessa? Ástæða er til að benda á nýlega skýrslu Viðskiptaráðs um nýsköpun hér á landi sem dregur upp heldur dökka mynd. 

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að það kost­ar 670 danskar krónur að stofna Akties­elska­ber, þ.e. einka­hluta­fé­lag, sem nem­ur tæp­lega 13 þúsund krón­um á gengi gær­dags­ins. Á sama tíma er kostnaður við stofn­un einka­hluta­fé­lags á Íslandi 131 þúsund krón­ur hjá rík­is­skatt­stjóra. Stofn­un einka­hluta­fé­lags í Nor­egi, þ.e. Ak­sj­es­el­skap, með ra­f­ræn­um hætti kost­ar 5.570 norskar krónur, eða 76.899 ís­lensk­ar krón­ur á gengi laugardagsins. Það eru rétt tæp­lega 59 pró­sent þess kostnaðar sem fell­ur til við stofn­un einka­hluta­fé­lags hér á landi.ljosapera

Frumkvöðlafélag fyrir krónu!

Þá upplýsir Morgunblaðið að danskir frum­kvöðlar geti stofnað frum­kvöðlafé­lag (it­værk­sætter­s­elskab) fyr­ir aðeins eina krónu danska! Það er þá bundið því skil­yrði að fjórðung­ur hagnaðar sé lagður fyr­ir í vara­sjóð þar til vara­sjóður­inn nær 50 þúsund krón­um dönsk­um. Það segir sig sjálft að þetta aðstoðar danska frumkvöðla verulega.

Þegar Morgunblaðið grennslaðist fyrir um skýringar á þessu fengust þau svör hjá rík­is­skatt­stjóra að ákvæði um gjald­tök­una sé að finna í lög­um um auka­tekj­ur rík­is­sjóðs og því ákveðin af Alþingi. „Gjald­tak­an er þannig eitt form skatt­heimtu og þannig óháð kostnaði við skrán­ingu,“ seg­ir í skrif­legu svari starfsmanns ríkisskattstjóra við fyr­ir­spurn Morg­un­blaðsins.

Kostnaður við stofn­un hluta­fé­lags í Dan­mörku og Nor­egi er sá sami og við stofn­un einka­hluta­fé­lags, en hér á landi er kostnaður­inn 256.500 krón­ur að því er fram kem­ur á vef rík­is­skatt­stjóra. Er gjaldið við stofn­un hluta­fé­lags þannig rúm­lega tutt­ugufalt hærra á Íslandi en í Dan­mörku og rúm­lega þre­falt hærra á Íslandi en í Nor­egi eins og rakið er í frétt Morgunblaðsins. Krafa er gerð um að hluta­fé við stofn­un einka­hluta­fé­lags í Dan­mörku sé 50 þúsund krón­ur dansk­ar og 30 þúsund krón­ur norsk­ar í Nor­egi. Við stofn­un hluta­fé­laga í lönd­un­um tveim­ur virðist hins vegar vera hærri krafa um stofnframlag en hluta­fé skal nema 500 þúsund dönsk­um krón­um í Dan­mörku eða 9 milljónum og einni millj­ón norskra við stofn­un norskra hluta­fé­laga eða 13 milljónum íslenskra. Á Íslandi skal hluta­fé nema 500 þúsund krón­um hjá einka­hluta­fé­lög­um og fjór­um millj­ón­um í hluta­fé­lög­um.

Ætti að taka mið af kostnaði

Það er því eðlilegt sem Ólaf­ur Stephen­sen, fram­kvæmda­stjóri Fé­lags at­vinnu­rek­enda, bendir á í fréttinni að gjald­taka rík­is­ins ætti að miðast við raun­kostnað þannig að stofn­gjöld séu ekki form skatt­lagn­ing­ar á fyr­ir­tæki. Þetta er eitt dæmi þess að ríkisvaldið sést ekki fyrir í gjald­töku sinni fyr­ir alls kon­ar eft­ir­lit, leyfi, vott­orð og hvað annað sem þarf að greiða fyrir vegna atvinnustarfsemi.

Margir hafa brugðið á það ráð að stofna sameignarfélög til að lækka kostnað en það form getur illa hentað ef starfsemin sækir í sig veðrið. Sameignarfélög eru í grundvallaratriðum ólík hlutafélögum. Um er að ræða félagsform þar sem samstarfið byggist almennt á persónulegum forsendum og gjarnan nánu sambandi milli félagsmanna enda bera þeir almennt beina, ótakmarkaða og óskipta ábyrgð á öllum skuldbindingum félagsins.

Inni á vefnum island.is segir að það sé einfalt að stofna fyrirtæki hér á landi. Um það má deila en ljóst er að þarna er sett upp hindrun sem þarf að taka tillit til. Undanfarið hafa stjórnvöld verið að takmarka möguleika til stofnunar félaga undir þeim formerkjum að verið sé að koma í veg fyrir kennitöluflakk. Stundum geta góð fyrirheit haft þveröfug áhrif þegar stjórnvöld byrja að þrengja að og draga úr tækifærum einstaklinga. Það er varasöm þróun.