c

Pistlar:

26. febrúar 2019 kl. 22:31

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Brestir í stjórnsýslunni

Seðlabanki Íslands hefur farið þess á leit við rík­is­sjóð að þær sekt­ir og sátta­greiðslur sem lagðar voru á ein­stak­linga og lögaðila á ár­un­um 2009 til 2011 vegna meintra brota gegn lög­um og regl­um um gjald­eyr­is­höft, verði end­ur­greidd­ar. Það gerir Seðlabankinn núna þegar ljóst er að skort hafi á heim­ild­ir í lög­um til að knýja á um slík­ar sátta- og sekt­ar­greiðslur. Um leið hefur bankaráð bankans neyðst til þess að setja alvarlega ofaní við starfsmenn Seðlabankans. Óvíst er hvað afleiðingar það mun hafa.sedla

Hér er um að ræða sérstaka niðurstöðu svo ekki sé meira sagt en í Morg­un­blaðinu síðastliðinn laug­ar­dag var greint frá því, að af þeim sekt­um og sátta­greiðslum sem Seðlabank­inn lagði á ein­stak­linga og lögaðila á ára­bil­inu 2012-2018, hefur hann þurft að end­ur­greiða um 114 millj­ón­ir króna. Þá af þeim ríf­lega 204 millj­ón­um sem bank­inn hafði inn­heimt. Innheimturnar framkvæmdi bankinn á grund­velli sekta og sátta­greiðslna vegna meintra brota gegn lög­um um gjald­eyr­is­mál á því tíma­bili sem um ræðir en nú hefur Hæstiréttur ónýtt þessi mál.

Þessu til viðbótar hef­ur Seðlabank­inn óskað eft­ir því að fallið verði frá ákvörðunum sem tekn­ar voru á grund­velli lag­anna sem giltu á ára­bil­inu 2008 til 2011, eða þar til að ný lög­gjöf gekk í gildi und­ir lok síðar­nefnda árs­ins. Snýr end­ur­skoðunin að 18 mál­um og nema fjár­hæðirn­ar í þeim alls um 40 millj­ón­um króna, sam­kvæmt svari Seðlabank­ans við fyr­ir­spurn Morg­un­blaðsins.

Skorti refsiheimildir

Með öðrum orðum; rannsóknir og sektir gjaldeyriseftirlits Seðlabankans höfðu ekki þá lagastoð sem þurfti. Þetta er auðvitað þungur áfellisdómur yfir bankanum og stjórnsýslu hans en er um leið lýsandi fyrir það ástand sem var magnað upp hér í samfélaginu á árunum eftir hrun. Í bókinni Gjaldeyriseftirlitið - Vald án eftirlits?, sem kom út árið 2016, er einmitt fjallað um þetta ástand og var án efa þungbært fyrir marga að lesa um það hvernig eftirlitið beitti sér. Hefur verið upplýst að gjaldeyriseftirlitið lagði í miklar aðgerðir eftir að það var búið að fá viðvaranir um að lagastoðir skortir. Svo virðist sem starfsmenn hafi talið sig yfir lög hafna.

Niðurstaða Seðlabankans nú er tilkominn vegna ­máls sem Umboðsmaður Alþing­is tók til um­fjöll­un­ar vegna kvört­un­ar sem Þor­steinn Már Bald­vins­son, for­stjóri Sam­herja, hafði lagt fram vegna af­greiðslu Seðlabank­ans á kröfu hans. Hún fólst í því að bank­inn aft­ur­kallaði, að eig­in frum­kvæði, stjórn­valdsákvörðun vegna brota gegn regl­um um gjald­eyr­is­mál. Það gerði bankinn ekki. Í niður­stöðu Umboðsmanns kem­ur fram að við meðferð máls­ins hafi Seðlabank­inn ekki tekið af­stöðu til gildi laga og reglna um gjald­eyr­is­mál sem refsi­heim­ilda. Hann hafi í raun tekið sér vald sem hann hafði ekki.

Reyndu að afvegaleiða eigið bankaráð

Þá er ekki síður alvarlegt að lesa bókun bankaráðsmannanna Sigurðar Kára Kristjánssonar og Þórunnar Guðmundsdóttur um afskipti starfsmanna Seðlabankans af störfum bankaráðs! Þar segir: „Það hlýtur að teljast einsdæmi að opinber stofnun gangi jafn langt í því að reyna að koma í veg fyrir að yfirstjórn hennar, í þessu tilviki bankaráðið, svari fyrirspurnum þess ráðherra sem stofnunin heyrir undir í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar íslands um lögmæti stjórnvaldsákvarðana hennar.“

En um leið og þessi niðurstaða er fengin blasir við að á öðrum stað þurfi einnig að fara fram uppgjör af svipuðum toga. Ljóst er að embætti Sérstaks saksóknara hefur farið offari í hlerunum gagnvart fyrrverandi bankamönnum og framkvæmt þær ólöglega. Virðist embættið ekki sjá sér annan kost en að hefja endurgreiðslur þar líka. Er nema von að menn undrist hvað gekk á?