c

Pistlar:

3. mars 2019 kl. 23:00

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Kjaraviðræðurnar: Aðgerðir fremur en samninga?

Það er sjálfsagt margt til í því sem kom fram hjá Þorsteini Pálssyni í Silfrinu fyrr í dag að vinnubrögð eða kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar nú eru hvorki ný né frumleg. Þó má greina ný áhersluatrið, meðal annars í því gengdarlausa áróðursstríði sem háð er í kringum kjarasamningana. Einnig er augljóst að vinnubrögð eru önnur og harðskeyttari á ýmsum sviðum og pólitískur og allt að því persónulegur tónn í aðgerðum verkalýðshreyfingarinnar. Þegar þetta fer saman við reynsluleysi þeirra sem eru í forystunni þá er ástæða til að óttast að menn festi sig í ferli og aðgerðum sem þeir komast ekki út úr, þjóðfélaginu til mikils tjóns. Erum við að horfa uppá að stefnan sé fremur á aðgerðir en samninga?hnefar

„Þetta eru mjög umfangsmiklar aðgerðir, hannaðar með það fyrir augum að valda hámarkstjóni með sem minnstum tilkostnaði þeirra sem að þeim standa,“ sagðir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í Morgunblaðinu í á laugardaginn. Í pistli á heimasíðu sinni segir Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, að þarna sér of vægt að orði komist, aðgerðirnar vega að framtíðaröryggi ferðaþjónustunnar og stuðli að atvinnumissi þeirra sem til þeirra ganga. Undir þetta tók Þorsteinn sem benti réttilega á að aðgerðirnar geti orðið til þess að þeir sem þær beinast að, ferðamennirnir, kjósi að fara annað. Í því ofurviðkvæma ástandi sem nú umlykur flugfélagið WOW er augljóst að ferðaþjónustan getur fengið verulegt högg og þá um leið hagkerfið allt. Þetta virðist verkalýðshreyfingin horfa framhjá og beitir aðgerðum sínum að því að skemma sem mest.

Stöðugleikanum fórnað?

En er það svo að engum finnist neitt hald í því að ganga til samninga með það að markmiði að tryggja þann stöðugleika sem fyrir er í landinu? Mun til dæmis erlent starfsfólk, sem virðist hafa kosið með verkfalli, átta sig á að gengislækkun krónunnar rýrir kjör þeirra í heimalandinu en margt þetta fólk vinnur hér í vertíðarstemmningu. Já, vinnur mikið en er kannski með margföld þau laun sem það gæti fengið í heimalandinu. Hvar nákvæmlega eru hagsmunir þessa fólks? Þeir eru örugglega ekki fólgnir í því að stöðva atvinnurekstur hér á Íslandi.

Hér hefur áður verið bent á að fáir eiga meira undir því að hér ríki verðstöðugleiki en einmitt verkafólk, fólkið á lægstu laununum er eðlilega viðkvæmast fyrir verðbólgu og vaxtahækkunum. Í grein sem Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri sjóða hjá Gamma, skrifaði í Markaði Fréttablaðsins í vikunni er bent á að nú sé sögulegt tækifæri til að ná vöxtum niður á Íslandi. Nú ætti að vera rými til að létta verulega undir með heimilum og fyrirtækjum með lækkun vaxta á sama tíma og hagkerfið hægir á sér. Vandinn er þó sá að að kröfur um launahækkanir langt umfram svigrúm atvinnulífsins munu koma í veg fyrir lækkandi vaxtastig segir Agnar. Enn má spyrja; hver eru hagsmunir þeirra sem nú er verið að hrekja út í átök?

Millistéttin stóra

Hin raunverulega undirstaða kaupmáttar er aukin framleiðni – það hvað hver vinnustund skilar miklu verðmæti eins og kemur fram í grein Ásgeirs Jónssonar hagfræðings í síðasta hefti Þjóðmála. Að baki framleiðninni eru síðan tæknibreytingar sem meðal annars byggjast á fjárfestingum. Þegar litið er til lengri tíma er hægt að búast við 1-3% framleiðniaukningu á ári og það er sú prósenta sem kaupmáttur getur vaxið um að meðaltali.

Í flestum löndum þykir 1% kaupmáttaraukning á ári meira en ásættanleg en það eru lönd þar sem raunverulega er borin virðing fyrir stöðugleika. Miðað við fulla vinnu voru regluleg laun 80% landsmanna árið 2017 á fremur þröngu bili eða 339-895 þúsund krónur. Þarna er fjöldinn, þeir sem reka þetta þjóðfélag, einhverskonar millistétt sem skiptir mestu að kaupmáttur aukist og verbólga rýri ekki eignir þeirra. Hvernig er tekið á þeim 10% sem eru til sitthvorra handar á ekki að vera það sem allt snýst um, það er væntanlega í höndum skatt- og bótakerfisins að tryggja tilflutning þannig að þokkaleg sátt og jafnvægi skapist.

Í áðurnefndi grein Ásgeirs segir hann að með góðum rökum sé hægt að halda því fram að jafnlaunastefna þjóðarsáttarinnar vinni gegn hagvexti og framleiðni í landinu þar sem fjárhagslegur ábati af menntun er of lítill. Þar fyrir utan er það eitt helsta markmið skatta- og bótakerfisins að jafna ráðstöfunartekjurnar enn frekar. „Raunar má segja að hin íslenska millistéttin sé föst í launagildru og jafnvel þó fólk reyni að auka tekjur sínar með því að vinna meira veldur samspil bóta og skatta því að raunverulegar ráðstöfunartekjur standa í stað,“ segir Ásgeir. Það er það sem allt snýst um; að ráðstöfunartekjur haldi áfram að aukast, hjá öllum stéttum.