c

Pistlar:

5. mars 2019 kl. 21:22

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Heilbrigði og hamingja á Íslandi

Mitt í kjarasamningaumræðunni kýs Morgunblaðið að kasta olíu á eldinn með því að rifja upp tvær nýlegar úttektir sem sýna að Íslendingar eru í efstu sætum þegar kemur að heilbrigði og hamingju! Hver trúir því? Tvær mínútur í kommentakerfi sósíalistaflokksins duga til að afsanna þetta rækilega.

En í grein Morgunblaðsins er bent á að tiltölulega fámennar þjóðir eru að verða heilbrigðastar allra þjóða, samkvæmt grein sem Bloombergfréttastofan birti nýverið. Þegar þjóðum er raðað eftir tölum um heilbrigði, efnahag og hamingju eru fjölmennustu þjóðir heimsins og með öflug hagkerfi að færast aftar í röðina en litlu þjóðirnar að sækja á með Ísland í fararbroddi, þar sem það skorar hátt bæði á listum yfir heilbrigði og hamingju.

Hér hefur svo sem oft áður verið bent á að Íslendingar skora yfirleitt mjög hátt á listum sem mæla lífsgæði með einum og öðrum hætti. Má sem dæmi taka nýlegar úttekt Global Peace Index (GPI) sem sýnir að Ísland er friðsælasta ríki heims fyrir árið 2018. Ísland hefur setið í efsta sæti frá árinu 2008 og í næstu sætum á eftir koma Nýja-Sjáland, Austurríki, Portúgal og Danmörk.heilbr

Spánverjar taka stökk

Samkvæmt heilbrigðisvísitölu Bloomberg eru Spánverjar nú heilbrigðasta þjóð í heimi með 92,8 stig, Ítalir í öðru sæti með 91,6 stig og Íslendingar í því þriðja með 91,4 stig.
Útreikningur vísitölunnar byggist á greiningu á tölum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Bloomberg reiknar vísitöluna út fyrir 169 hagkerfi um allan heim. Við útreikningana eru teknir til greina þeir þættir sem stuðla að auknu heilbrigði. Spánverjar voru í sjötta sæti þegar vísitalan var reiknuð út árið 2017 og tóku því stórt stökk í ár eins og Morgunblaðið bendir á í frétt sinni.

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að auk Spánverja, Ítala og Íslendinga voru þrjár aðar Evrópuþjóðir í tíu efstu sætum listans. Þær voru Svisslendingar í 5. sæti, Svíar í 6. sæti og Norðmenn í 9. sæti. Japanir töldust vera heilbrigðastir Asíuþjóða samkvæmt vísitölunni og 4. heilbrigðasta þjóð í heimi en þeir hafa löngum státað af langlífi. Ástralía og Ísrael komust einnig inn á topp tíu listann.

Lífslíkur eru eitt þeirra atriða sem koma þjóðum til góða við útreikning vísitölunnar en tóbaksnotkun og offita draga þjóðir niður. Einnig eru teknir til greina umhverfisþættir
eins og aðgangur að hreinu vatni og hreinlætismál og fleira.

Miðjarðarhafsmataræðið blívur!

Það skal játast að það kom aðeins á óvart hve hátt Spánverjar skora á þessum lista. Tilfellið mun vera að spænskir nýburar eiga mestar lífslíkur nýbura í Evrópusambandinu og fylgja nýburum í Japan og Sviss fast eftir á heimsvísu, samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna. Í frétt Morgunblaðsins er bent á að árið 2040 er því spáð að Spánverjar lifi lengst allra þjóða og nái nærri 86 ára aldri að meðaltali, samkvæmt niðurstöðum stofnunar um heilbrigðistölfræði við Washington-háskóla.

Samkvæmt skýrslu evrópskrar stofnunar um heilbrigðismál og stefnu í heilbrigðismálum á Spáni 2018 veittu opinberar stofnanir þar í landi, sérfróðir heilsugæslulæknar og hjúkrunarfræðingar, megnið af frumheilbrigðisþjónustu við börn, konur og aldraða sjúklinga auk bráðaþjónustu og langtímaþjónustu.

Vísindamenn segja að matarvenjur geti skýrt góða útkomu Spánverja og Ítala. Miðjarðarhafsmataræðið sé ekki aðeins gott heldur eigi einnig þátt í heilbrigðinu þar sem neysla á jómfrúar ólífuolíu eða hnetum dragi meira úr hættu á hjarta- og æðasjúkdómum en neysla fituskerts fæðis, samkvæmt rannsókn sem gerð var við læknadeild Navarra-háskóla á Spáni. Um þetta verður ekki deilt!

En svo má spyrja sig hvaða vísindi eru að baki. Hafa má í huga orð sem eignuð eru Albert Einstein sem, lauslega þýdd, voru á þá leið að „ekki er allt það sem máli skiptir mælanlegt, né er allt það sem er mælanlegt eitthvað sem máli skiptir“ (e. „Not everything that counts can be counted, not everything that can be counted counts“).