c

Pistlar:

10. mars 2019 kl. 17:06

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Þjóðhagsspá: Bætt skuldastaða og lægri vextir


Heildarskuldastaða atvinnufyrirtækja hefur haldist í um 84% af vergri landsframleiðslu síðustu þrjú ár, en svo lágt hefur hlutfallið ekki verið frá árinu 1999. Ísland er í svipaðri stöðu og önnur Norðurlönd en þar var hlutfallið fyrir atvinnufyrirtæki að jafnaði um 90% í lok árs 2017 samkvæmt Hagstofu Evrópusambandsins. Þetta kemur fram í nýrri Þjóðhagsspá Hagstofunnar sem heldur lítil umræða varð um. Óhætt er að segja að hún sýnir glögglega þau jákvæðu merki sem má sjá í efnahag landsins sem nú í byrjun árs einkenndist af stöðugleika, verulega bættri skuldastöðu, ásættanlegum hagvexti, góðri atvinnuþátttöku, heilbrigðum ríkisfjármálum og lækkandi vöxtum. Allt þættir sem hægt er að freistast til að halda að skiptu máli þegar reynt er að ná niðurstöðu á vinnumarkaði. Því miður virðist þessi sýn skipta nýja forystumenn verkalýðshreyfingarinnar litlu máli.

En víkum aftur að Þjóðahagsspá Hagstofunnar. Þar kemur fram að eiginfjárhlutfall íslenskra atvinnufyrirtækja hefur verið um 42% frá árslokum 2015, og hefur ekki mælst jafn hátt frá árinu 2002. Samkvæmt nýlegri fundargerð fjármálastöðugleikaráðs, sem skipað er fjármála- og efnahagsráðherra, seðlabankastjóra og forstjóra fjármálaeftirlitsins, telur ráðið möguleg áföll vegna óvissu um innlendan flugrekstur hafa takmörkuð áhrif á fjármálakerfið. Álítur ráðið áhættu í fjármálakerfinu hóflega um þessar mundir og vísar meðal annars til eiginfjárhlutfalla viðskiptabanka sem eru hærri en kröfur Fjármálaeftirlitsins.spá

Jákvæð hrein staða þjóðarbúsins

Dregið hefur úr viðskiptajöfnuði frá árinu 2016 en þrátt fyrir það hefur jákvæð hrein staða þjóðarbúsins aukist og nam liðlega 13% af vergri landsframleiðslu í lok þriðja fjórðungs síðasta árs. Til samanburðar gerir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ráð fyrir að hlutfallið hafi á sama tíma verið 11% fyrir Svíþjóð og -1,5% fyrir Finnland.

Samkvæmt Seðlabanka Íslands stafar bætt staða Íslands af vexti erlendrar fjárfestingar umfram erlent fjármagnsinnflæði. Auk þess hefur veiking krónunnar haft jákvæð áhrif á stöðu þjóðarbúsins. Ástæða þess er að erlendar eignir eru nær einvörðungu í erlendum gjaldmiðlum, en nærri þriðjungur innlendra eigna erlendra aðila í íslenskum krónum. Gjaldeyrisforði Seðlabankans í íslenskum krónum nam 757 milljörðum í janúar síðastliðnum, eða um 26% af vergri landsframleiðslu og hefur hlutfallið haldist stöðugt frá árinu 2017. Fjármagnshöft hafa nú að fullu verið afnumin og ekki að sjá annað en að krónan haldist nokkuð stöðug en Seðlabankinn hefur þó beitt nokkrum inngripum. Gera má ráð fyrir að langtímaleitni krónunnar sé í átt að veikingu, sérstaklega ef verkföll teygjast á langinn og flugrekstur verður fyrir áföllum.

Hóflegar breytingar á eignaverði

Þjóðhagsspá Hagstofunnar segir að hóflegar breytingar hafi orðið á eignaverði árið 2018 og eru það sannarlega orð að sönnu. Síðasta ár gerði ekki mikið fyrir fjárfesta. Hlutabréfavísitala Aðallista Kauphallar Íslands var að jafnaði um 1% lægri en árið 2017 samanborið við 8% hækkun heimsvísitölu MSCI. Að teknu tilliti til arðgreiðslna hækkaði íslenska vísitalan lítillega, en nærri 39% verðlækkun hluta í flugfélaginu Icelandair Group hf. hafði mikil áhrif á niðurstöðu ársins. Markaðsvirði skráðra félaga hækkaði milli ára og var í árslok um 34% af vergri landsframleiðslu, sem er lágt samanborið við önnur Norðurlönd þar sem hlutfallið var að meðaltali um 101% samkvæmt Nasdaq. Þessi samanburður sýnir glögglega það vantraust sem er meðal almennra fjárfesta í garð kauphallarviðskipta. Millistéttin Íslenska hefur greitt niður skuldir fremur en að kaupa hlutabréf. Dregið hefur úr mikilli hækkun vísitölu Hagstofunnar um markaðsverð íbúðarhúsnæðis, en á síðasta ári var hækkunin að jafnaði um 8% samanborið við liðlega 19% árið 2017.

Litlar breytingar hafa orðið á áhættuálagi erlendra skuldbindinga ríkissjóðs sem er nú um 50 punktar ofan á bandarísk ríkisskuldabréf. Síðastliðinn desember staðfesti matsfyrirtækið Fitch óbreytta „A“ lánshæfiseinkunn ríkissjóðs og stöðugar horfur. Í rökstuðningi fyrirtækisins kemur fram að Ísland hafi margt sammerkt með ríkjum með hærri einkunn, en það sem komi í veg fyrir frekari hækkun sé næmi þess fyrir ytri áföllum. S&P Global matsfyrirtækið staðfesti sömuleiðis óbreytta „A/A-1“ einkunn ríkissjóðs og telur það geta hækkað á næstu tveimur árum ef ríkisfjármál og ytri staða batna umfram væntingar. Þessi lokaorð matsfyrirtækisins ættu að vera Íslendingum vísbending um að ef rétt er haldið á málum geta vextir haldið áfram að lækka.