c

Pistlar:

12. mars 2019 kl. 22:45

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Efnahagslegar undirstöður heimilanna áfram traustar

Sá sem skuldar er ekki frjáls og þess ánægjulegra er að sjá að í Þjóðhagsspá Hagstofunnar er talið að efnahagslegar undirstöður heimilanna verði áfram traustar. Staðreyndin er sú að skuldastaða íslenskra heimila er traust og hefur ekki verið betri í áraraðir. Ljóst er að íslenska millistéttin heldur áfram að greiða niður skuldir fremur en að taka áhættu í fjárfestingum. Um leið virðist fólk fara sér varlega þegar kemur að neyslu. Einkaneysla óx um 4,8% á liðnu ári. Var það hægari vöxtur en tvö árin á undan, en engu að síður allmyndarlegur vöxtur.

Eigið fé íslenskra heimila að undanskildum lífeyrisréttindum var um 157% af vergri landsframleiðslu árið 2017 samkvæmt lífskjaratölfræði Hagstofunnar. Hefur hlutfallið ekki verið hærra síðastliðin tuttugu ár, en frá 1997 er miðgildi þess um 118% samkvæmt spá Hagstofunnar. Vöxtur skulda heimilanna árið 2018 var ámóta og vöxtur hagkerfisins, en áætlaður kaupmáttur ráðstöfunartekna óx nokkuð hraðar. Skuldir sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eru nú um 75% og hélst hlutfallið óbreytt milli ára í lægsta gildi frá 2003. Skuldir heimilanna hafa lækkað jafnt og þétt síðustu ár eftir að þær náðu hámarki árið 2009 í um 125% af landsframleiðslu.skuældir

Lægstu skuldir á Norðurlöndum

Skuldastaða íslenskra heimila er því traust en í lok árs 2017 nam meðaltal skulda heimila annarra Norðurlanda um 105% af vergri landsframleiðslu og liðlega 200% af
ráðstöfunartekjum samkvæmt Hagstofu Evrópusambandsins (e. Eurostat). Hér var aftur á móti áætlað að hlutfall skulda heimila, samanborið við ráðstöfunartekjur, hafi lækkað í tæplega 150% og sé undir miðgildi áranna 1997 til 2016. Íslensk heimili eru því með lægstu skuldir sem hlutfall af ráðstöfunartekjum á Norðurlöndunum.

Þá eru verðtryggð lán að lækka. Á nýliðnu ári var meiri aukning í óverðtryggðum útlánum en verðtryggðum til innlendra heimila. Samkvæmt Seðlabanka Íslands var hlutfall verðtryggðra útlána af heildarlánum ríflega 65% í árslok og lækkaði úr 68% árið 2017.