c

Pistlar:

17. mars 2019 kl. 20:13

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Voru Kínverjar sigurvegarar Kalda stríðsins?

Nýlega velti sagnfræðinginn Odd Arne Westad því fyrir sér í fyrirlestri við LSE háskólann hvort Kínverjar hefðu verið hinir raunverulegu sigurvegarar Kalda stríðsins? Westad er prófessor við Harvard og sérhæfir sig í samskiptum Bandaríkjanna og Asíu en hann hefur nýlega gefið út bókina The Cold War: A World History. Westad hefur komið með nýja sýn á Kalda stríðið sem felur í sér að í stað þess að líta á það sem baráttu tveggja heimsvelda þá verði að líta á það sem miklu víðtækari hugmyndabaráttu sem nái allt aftur til iðnbyltingarinnar.Kína (1)

Þannig koma Kínverjar inn í dæmið en eftir að Kalda stríðið rann sitt skeið á enda hefur verið samfeldur uppgangur í Kína síðan þá eins og tæpt var á hér í síðasta pistli. Er nú svo komið að horfa verður sérstaklega til áhrifa og afls Kínverja þegar reynt er að rýna í heimsmálin. Við Íslendingar höfum orðið varir við aðferðarfræði Kínverja þó við séum eins fjarri þeim og hægt er að vera. Kínverjar sækjast til áhrifa um allan heim og það er stundum spaugilegt að fylgjast með þeim í nærmynd. Hingað til Íslands koma stundum ráðamenn úr neðri lögum kínverska valdapýramídans en eigi að síður kemur gjarnan með mikill fjöldi aðstoðarmanna. Og oftast nær eru þeir með sitt eigið fréttafólk sem oftar en ekki fer sínu fram en virðast um leið vera hluti af kínversku sendinefndinni. Þannig gerist það stundum að á móti þriggja manna íslenskri móttökunefnd sitja allt upp í 20 Kínverjar og síðan tíu til víðbótar að mynda og skrásetja. Kínverjarnir eru oft ansi ýtnir og allt að því ósvífnir þegar þeir láta reyna á diplómatíska inneign sína. Kínverjar hafa sótt fast að eiga rétt til setu í þeim stofnunum og ráðum sem taka ákvarðanir varðandi norðurheimsskautið. Um leið hafa þeir sýnt vilja til að fjárfesta hér á landi í ýmsum verkefnum, sumum illa skilgreindum. Það er eðlilegt fyrir okkur Íslendingar að hafa varann á okkur með slíkt. Í skýrslu utanríkisráðuneytisins (Utanríkisþjónusta til framtíðar - Hagsmunagæsla í síbreytilegum heimi) frá 1. september 2017 er bent á að hagkerfi Kína eitt og sér mun líklega fara fram úr hagkerfi Bandaríkjanna fyrir árið 2030 og líklegt er að Kína muni treysta á einkaneyslu til að örva hagvöxt í framtíðinni í stað fjárfestinga og útflutnings. Hvernig til tekst getur haft mikil áhrif á efnahagsmál í heiminum og ljóst er að íslenskt atvinnulíf og íslensk stjórnvöld þurfa að gera ráð fyrir þeim umbreytingum segir í skýrslunni.

 

Heimsviðskipti án frjálslyndis

Annar sagnfræðingur, Yuval Noah Harari, hefur í bók sinni 21 Lessons for the 21st Century (2018) bent á hina hugmyndafræðilegu þróun heimsins sem birtist meðal annars í því að í aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar hafi þrjár stefnur barist um áhrif; fasismi, kommúnismi og frjálslyndi. Eftir styrjöldina hafi síðan kommúnisminn og frjálslyndið tekist á í Kalda stríðinu sem hafi í raun lokið með sigri frjálslyndisins í kringum 1990 þegar Sovétríkin féllu og sumir sagnfæðingar fóru að tala um endalok sögunnar. Lok Kalda stríðsins hafi eflt alþjóðahyggju og heimsviðskipti hafi blómstrað sem aldrei fyrr. Það hafi nýst Kínverjum sérstaklega vel en nú má segja að brestir hafi komið í frjálslyndið, meðal annars í kjölfar fjármálakreppunnar og þeirrar vantrúar sem hún hefur skapað gagnvart alþjóðaviðskiptum (e. globalism). Víða um heim tóku stjórnvöld upp frjálslyndara stjórnarfar á þessum tíma og Harare telur að forsetatíð þeirra, Bill Clinton, George W. Bush og Barak Obama hafi í raun gengið út á það að aukið frjálslyndi í heimsviðskiptum myndi að lokum leiða til friðar og hagsældar. Hann virðist telja að einstök uppgjör við öfgahópa og öfgastjórnir hafi ekki breytt svo miklu. Clinton benti hins vegar á það strax árið 1997 að Kínverjar virtust ætla vera röngu megin í þessari frjálslyndisbreytingu heimsins. Á stjórnmálasviðinu væru þeir röngu megin, svona sögulega séð. Harare segir að það geti verið umdeilanlegt í dag og spurning hvort hægt sé að afgreiða stefnu Kínverska kommúnistaflokksins þannig. Ljóst er þó að það stefnir í uppgjör milli frjálslyndis Bandaríkjanna og stjórnlyndis Kínverja þegar kemur að viðskiptum.Chinese-Military

Vinna friðinn

Sumir segja að Kínverjar vilji alls ekki stríð og einbeiti sér að því að vinna friðinn. Það styður kannski þá fullyrðingu sem varpað er hér fram í fyrirsögn. Aðrir sjá ýtni og ágengni í utanríkisstefnu þeirra sem byggist á því að engin virkisveggur sé svo hár að asni klyfjaður gulli komist ekki yfir. Sumum gæti virst sem þeir vilji innlima stóra hluta nágranalanda sinni í gegnum svokallað „Belti og braut“ (e. Belt and Road) verkefni. Margvíslegar efasemdir eru um verkefnið og skynsemi að baki mörgum þeim fjárfestingum sem þeir hafa ráðist í.

Hvað Kína ætlar sér nákvæmlega í alþjóðamálum er erfitt að segja en ítök þeirra hafa aukist jafnt og þétt. Í áðurnefndri skýrslu utanríkisráðuneytisins er bent á að spenna á milli Kína og ýmissa nágrannaríkja þess hefur aukist vegna deilna um lögsögu á nærliggjandi hafsvæðum, en þar að baki liggja miklir kínverskir hagsmunir og rík þjóðernishyggja. Kínverjar hafa verið að auka hervæðingu sína og meðal annars komið sér upp flugmóðurskipum. Rekstur þeirra er gríðardýr og engin ræðst í slíkt nema til þess að auka áhrif sín á nýjum svæðum. Hvað langt Kínverjar eru tilbúnir til að ganga til að auka áhrif sín er erfitt að segja en á það mun reyna næstu áratugi.