c

Pistlar:

27. mars 2019 kl. 22:39

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Kína heimsækir Evrópusambandið

Xi Jinping, forseti Kína, hefur haldið heim á leið eftir stutta en áhrifamikla ferð til Evrópu. Að þessu sinni einbeitti hann sér að miðju Evrópusambandsins en í síðustu heimsókn hans til Evrópu tóku Bretar á móti honum í heldur umdeildri heimsókn þar sem mörgum fannst að heimsveldið hefði lagst flatt fyrir kínversku fjárfestunum sem ferðuðust með Xi Jinping. Að þessu sinni heimsótti hann Ítalíu, Mónakó og Frakkland.Xi Jinping

Það er alltaf sérstakt að fylgjast með heimsóknum Kínverja en þegar forsetinn sjálfur leggur land undir fót ættu menn sérstaklega að skoða hvaða áherslur fylgdu heimsókninni en um 200 embættismenn voru með í för. Ferðin hófst á Ítalíu og margt í þeirri heimsókn vekur upp spurningar en Ítalir og Kínverjar gengu þar frá einhverskonar aðgöngumiða Ítala (í formi MoU skjals) að svokölluðu „belti og braut“ (e. Belt and Road) verkefni. Margvíslegar efasemdir eru um verkefnið og skynsemi að baki mörgum þeim fjárfestingum sem þeir hafa ráðist í eins og rakið var hér í pistli fyrir stuttu. Hvað þeim gengur til er erfitt að segja en undanfarið hafa Ítalir verið að senda öxulveldum ESB - Frakklandi og Þýskalandi - tóninn og vilja með þessu án ef sýna sjálfstæði sitt. Á Ítalíu voru 29 tvíhliða samningar við Kína undirritaðir, að verðmæti um 2,5 milljarða evra. Þar meðtalin drjúg sala á sikileyskum appelsínum til Kína! Í gala-kvöldverði forsetanum til heiðurs söng Andrea Bocelli og mikið skálað. Ítalir sýndu á sér allar bestu hliðar sem gestgjafar en ítalskir fjölmiðlar gerðu grín að tilstandinu. Þannig kallaði La Repubblica Xi Jinping guðföður Rómar, líklega í háði og dagblaðið Corriere sagði hann fá konunglegar móttökur en tilstandið var það sama og þegar konungar og páfar koma í heimsókn.

Stefnubreyting í samskiptum við Kína?

Þýska fréttastofan Deutsche Welle sagði í tilefni heimsóknarinnar að ESB-ríkin standi frammi fyrir þeirri áskorun hvernig þau ætli að viðhalda jafnvægi í samskiptunum við Kína sem verðist sífellt öflugra og áhrifameira um heim allan. Á yfirborðinu virtist þetta snúast um viðskipti en í París var undirritaður samningur um kaup á 300 Airbus-þotum, samtals að verðmæti um 35 milljarða Bandaríkjadala. Áfall fyrir Bandaríkin og Boeing en Kínverjar hafa brugðist hart við Max-8 uppákomunni og afpantað í gríð og erg. Athyglisvert var að sjá Jean Claude Junckers, forseta framkvæmdastjóra Evrópusambandsins, með þeim Emmanuel Macron og Angelu Merkel við mótökuna á tröppum hallarinnar í París. Veikburða tilraunir minnihlutahópa frá Kína til að mótmæla urðu ekki til að spilla stemmningunni.

Ræða Xi Jinping við þetta tilefni innihélt ýmislegt sem mátti túlka þannig að Evrópa og Kínverjar ættu að snúa bökum saman og að óvinurinn væri Bandaríkin! Gengur án efa vel í Trump-fóbíuna í Evrópu. Bæði Xi og Macron lögðu áherslu á mikilvægi fjölþjóðlegs samstarfs og rætt var um að nauðsynlegt væri að gera endurbætur á Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO). En það sem kom kannski mest á óvart var að Evrópusambandið sem slíkt virtist taka vel í „belti og braut“ verkefnið og Angela Merkel sagði það mikilvægt verkefni. Virtist meiga skilja orð þeirra þannig að ESB sé að íhuga þátttöku af einhverju tagi sem mun án efa fara illa í Rússa og Bandaríkjamenn en þeir síðarnefndu hafa einmitt gagnrýnt verkefnið og kallað það sýndarmennsku. Að þessu leyti getur fundurinn markað tímamót.

Á fréttasíðu Varðbergs eru ágætar fréttir af heimsókninni. Þar er meðal annars bent á að fundinum hafi verið lýst sem „án fordæmis“ og að hann hafi snúist um þróun og stjórn heimsmála.