c

Pistlar:

3. apríl 2019 kl. 10:21

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Störf sem eru algjört bull og rugl!

Undanfarin misseri höfum við orðið vör við síaukna umræðu um að störf kynnu að hverfa í vaxandi mæli í framtíðinni og þá helst kennt um einhverskonar sjálfvirknivæðingu eða jafnvel framþróun gervigreindar. Þannig má segja að daglega rigni yfir okkur upplýsingum eða jafnvel kenningum um að þessi eða hin störfin verði óþörf eða hverfi jafnvel með öllu. Þannig sé framtíðin kannski heldur óviss fyrir fjölda fólks og þá helst hjá þeim sem vinna einhæf störf eða störf sem byggja á lítilli menntun. Á þessu hefur meira að segja verið tæpt hér áður í pistlum og sumir hafa gefið út lista um þau störf sem glatast.störf

En nú finnast þeir sem halda því fram að nú þegar sé þessi breyting orðin að veruleika á vinnumarkaði og sífellt fleiri störf séu þannig algert rugl eða jafnvel bull! Störf sem skiptir engu máli hvort eru unnin eða ekki. Um þetta hefur mannfræðingurinn og prófessorinn David Graeber fjallað nokkuð en hann gaf út fyrir nokkrum árum bókina Bullshit Jobs: a Theory. Nokkuð afgerandi titill enda má segja að Graeber hafi nokkuð gaman af því að stuða lesendur og áheyrendur sína eins og glöggt má heyra þegar hlustað er á fyrirlestur hans við LSE háskólann sem má finna á LSE Podkast en hann heitir hvorki meira né minna en: The Bullshitisation of the Economy Has Only Just Begun: pointless labour, digitisation, and the revolt of the caring classes!

Hafa ekki trú á eigin starfi

Eins og áður sagði er Graeber mannfræðingur og hefur rannsakað vinnumarkaðinn með aðferðum mannfræðinnar. Hann segir að furðuoft fái hann þau svör þegar spurt er um störf viðmælenda að þau séu í raun hálfgert bull (e. bullshit). Fólk sé spurt hvort starfið sé nauðsynlegt og ef viðkomandi væri ekki að gegna því, hvort yrði ráðið á ný í starfið. Allt upp undir 40% viðmælenda gáfu eigin störfum falleinkunn. Með öðrum orðum þá taldi 40% vinnuafls að störfin sem þau voru að vinna væru tilgangslítil og í raun algert bull! Þegar nánar var gengið á þá sögðust þeir hugsanlega sinna starfinu af einhverri alvöru í einn til tvo tíma í viku og þá helst með því að svara tölvupóstum. Öðru væri ekki til að dreifa.

Graeber sagir að þessi svör hafi fengið hann til að huga að samsetningu starfa í dag og hvernig þau hafi breyst. Hann taldi að ekki væri hægt að leita skýringa í aukningu óskilgreindra þjónustustarfa, þau væru um 20% eins og þau hefðu verið í áratugi. Þess í stað fann hann hóp sem samanstóð af óskilgreindum skrifstofustörfum, einhverskonar sístækkandi millilagi skrifstofufólks sem hefur enga sérstaka kvöð um að skila verkum frá sér. Ætla má að þar sé að finna ýmsa þá starfsmenn sem ætlað er að sinna lögbundnum verkefnum, störfum sem oft verða til vegna nýrra kvaða skrifræðisins. Í þessum hópi sagðist hann sjá mikla aukningu eða allt frá því að vera um 25% upp í 75%.

Graeber rifjar upp að í upphafi 20 aldar hafi flestir talið að vinnuvikan myndi styttast allt niður í 15 tíma á næstu 100 árum og álag vinnunnar léttast mikið. Ja, og flestir töldu reyndar að fljúgandi bílar myndu vera orðnir alsráðandi við sama tækifæri. Hvorugt þessa hefur gengið eftir og þvert á móti hefur vinnudagurinn í mörgum tilfellum lengst þó að starfið gangi ekki endilega upp í huga þess sem vinnur það. Getur verið að það hafi eitthvað að gera með vaxandi kulnun í starfi?

Í bullstarfi og á samfélagsmiðlum

En víkjum aftur að bullstörfunum. Hvað fellst í þeim? Jú, þeir viðmælenda Graeber sem lýsa störfum sínum sem óþörfum rekja fyrir honum hvað þeir eru þá að gera allan daginn. Það kemur ekki á óvart að stöðugt vaxandi tími fólks fer í að sinna samfélagsmiðlum. Þetta sjáum við sjálf dags daglega, hvernig má allt þetta fólk vera að því að taka þátt í löngum og stuttum samræðum, um allt og við alla á vinnutíma? Jú, einfaldlega af því að margt af því er ekki að gera mjög mikið. En eins og titill hlaðvarpsins (e. podcast) gefur til kynna þá er þessi bullvæðing hagkerfisins farin að breiða sig út til margar þátta samfélagsins að dómi Graeber.

Á Íslandi getur þannig verið fróðlegt að fylgjast með mörgum í nærmynd á samfélagsmiðlum sem við vitum að eiga að vera að sinna vinnu sinni á sama tíma. Jafnvel sérfræðingar sem rukka 50 þúsund krónur á tímann virðast geta hlaupið til og tekið nokkrar snerrur á Facebook ef rétta umræðuefnið ber á góma. En fyrir utan tímaþjófnað samfélagsmiðla þá má ætla að aðrir fjölmiðlar grípi athyglina því að nettengd manneskja getur stöðugt verið að hlaupa í og úr starfi.


En Graeber tekur skýrt fram að ekki megi rugla saman bullstarfi og venjulegu skítastarfi! Það síðarnefnda er starf sem er erfitt, heilsuspillandi og illa launað, öfugt við bullstarfið sem oftast sé hin þægilegasta innivinna! Já, hann er með hreinskilnari mönnum og við munum kíkja á fleiri þætti kenninga hans síðar.