c

Pistlar:

13. apríl 2019 kl. 9:35

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ómetanleg mynd Caravaggio í Sýrakusu

Það er hægt að deila út af ýmsu og ómetanlegt verk eftir Caravaggio er ekki verra tilefni en annað. Hér í Sýrakusu, nánar tiltekið í kirkju heilagrar Lúsíu, má finna eitt af meistaraverkum þessa óstýrláta málara sem oftar en ekki þurfti að flýja frá einni borg til annarrar eftir að hafa lent í slagsmálum eða jafnvel enn verri uppákomum.Burial_of_Saint_Lucy-Caravaggio_(1608)

En hér við enda höfuðtorgs þeirra Sýrakusu-manna má finna litla kirkju sem ekki lætur mikið fyrir sér fara en er þó miðja aðdráttarafls borgarinnar. Talið er að um þrjú þúsund manns leggi leið sína í kirkjuna daglega og allir eru mættir til að berja augum málverk Caravaggio af greftrun heilagrar Lúsíu (The Burial of Saint Lucy), tímalaust meistaraverk sem hann málaði tveimur árum fyrir dauða sinn en mynd er af því hér til hliðar. Verkið sýnir vel listfengi Caravaggio sem nánast fann upp eigin stíl, sem má víst allt eins kalla chiaroscuro, til þess að geta skapað einstakt andrúmsloft í verkum sínum, andrúmsloft sem oftar en ekki tók til átakanlega atburða, umvafðir harmrænu fólki þar sem skuggi og birta leika aðalhlutverkið. Þannig gaf hann staðlaðri túlkun natúralismans nýja merkingu og dró dramatíkina inn í málverkið. Sannarlega tímamót í málaralistinni. Í þessu verki hér í Sýrakusu er sérkennilegt að sjá að það er ekki nema neðsti hluti verksins - sem er þrír sinnum fjórir metrar á stærð - sem hefur einhverja myndræna spennu í sér. Stærstu hluti verksins er þannig til þess eins fallinn, að skapa þá umgjörð sem málverkinu er nauðsynlegt til að geta sagt sögu greftrunar Lúsíu. Fórnarlamb á jörðu en engill í annarri tilveru, nú tilbeðin og dáð.cara

Gleymdist um tíma

Michelangelo Merisi da Caravaggio eins og hann hét fullu nafni var fæddur árið 1571, og málaði verkið hér í Sýrakusu árið 1608, þá nýkomin frá Möltu þar sem hann hafði lent í vandræðum en skyldi þó eftir sig merk verk. Eins og áður sagði þá var hann hálfgerður flóttamaður, stöðugt að flýja gerðir síns stóra skaps en hvar sem hann kom duldist mönnum ekki listfengi hans. Caravaggio var því fljótur að finna velgjörðarmenn sem kostuðu listframleiðsluna. Þetta voru að mörgu leyti erfiðir tímar í sögu Sýrakúsu, mitt á milli stórra jarðskjálfta, árin 1542 og 1693 en sá síðari lagði borgina nánast í rúst. Plágan kom svo í heimsókn 1729 og þjáningin var öðru sterkari, rétt eins og finna má í verki Caravaggio. Sjálfur gleymdist hann í glysi barokksins, var talin heldur lítilsigldur framan af og ekki í hópi hinna stóru endurreisnarmálara Ítalíu þó vissulega hafi hann alltaf átt sína fylgjendur. Svo mjög reyndar að listmálarar eins og Peter Paul Rubens, Jusepe de Ribera, Gian Lorenzo Bernini, og sjálfur Rembrandt voru taldir undir miklum áhrifum frá honum og jafnvel merktir lýsingaorðinu „Caravaggisti“. Viðurkenningin óx þegar kom fram á 20. öldina og síðan hefur hann stækkað í listasögunni, nánast með hverju árinu. Er nú talið óumdeilt að hann er einn af fremstu snillingum málarlistarinna, maður sem þróaði eigin stíl og sýndi af sér fádæma frumleika og listfengi. Verk hans í dag eru ómetanleg í listasögunni.

Í dag taka menn þjáninguna út í keppni um arfleifð Caravaggio því önnur borg hér á Sikiley telur sig geta gert réttmætt tilkall til verksins. Nokkuð sem Sýrakusu-menn skilja ekkert í. Mikið er í húfi því eins og áður sagði þyrpast gestir inn í kirkjuna til að skoða greftrun Lúsíu. Reyndar er ekki tekin aðgangseyrir og öryggisráðstafanir fólust í einum sofandi verði en stærð málverksins gerir það vitaskuld að verkum að það verður ekki hlaupið með það út. Til verndar verkinu var bannað að mynda. Hver sem niðurstaðan verður í þessu listakapphlaupi þá er einnar messu virði að kíkja á þetta meistaraverk mannsandans hér í Sýrakusu.