c

Pistlar:

22. apríl 2019 kl. 11:39

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Viðskiptablað í 25 ár

Innan bókmenntafræðinnar má finna þá skoðun að þriðji áratugur síðustu aldar hafi haft í för með sér gagngera breytingu í menningarlífi Íslendinga. Þannig hafi Reykjavík þróast smásaman í áttina til borgaralegs þjóðfélags og höfuðborgin orðið að þeirri menningarlegu miðju sem síðar skapaði forsendu fyrir sístækkandi millistétt sem leysti af hólmi þá fámennu borgara- og embættismannastétt sem hafði haldið utan um valdataumana hér á landi. Um leið hafi skáldskapur landsmanna tekið breytingum og nútíminn haldið innreið sína, meðal annars í módernískum verkum eins og Vefaranum mikla frá Kasmír sem markaði á vissan hátt upphaf skáldskapar Halldórs Kiljans Laxness sem tæplega 30 árum síðar fékk Nóbelsverðlaunin. Þó að bókmenntafræðinga geti greint á um mikilvægi Vefarans þá var íslenskt samfélag óumdeilanlega að breytast. Vert er að hafa í huga á þeim tíma þegar Vefarinn kemur út var prentsmiðjan Gutenberg stærsta iðnfyrirtæki landsins.viðsk

Nú er þetta bara ein af mörgum kenningum um það hvernig íslenskt þjóðfélag hefur þróast en helstu áhrifaþættir eru sem fyrr stjórnmál, menning og efnahagslífið. Atburðir eins og heimstyrjaldir, náttúruhamfarir eða breytingar á fiskgengd hafa einnig haft tilhneigingu til að vera áhrifavaldar í sögu þjóðarinnar. Nú síðast líklega bankahrun. Það er auðveldara að rýna í þróun liðinna atburða en sjá hana fyrir. Það er þó það sem upplýsingamiðlun í kringum viðskiptalífið gengur að stórum hluta út á; að rýna í og setja fram spár um allt mögulegt er efnahagslífið varðar og reyna að sjá fyrir um þróun atburða. Það gengur auðvitað misjafnlega. Á þetta er bent í tilefni þess að nú 20. apríl síðastliðin fagnaði Viðskiptablaðið 25 ára afmæli sínu. Sá er þetta skrifar starfaði þar í ríflega 15 ár, líklega lengst þeirra blaðamanna sem þar hafa unnið, síðast sem ritstjóri. Ég hef því fylgst með vexti og viðgangi blaðsins frá byrjun og notið þeirrar ánægju að starfa með mörgu góðu fólki þar. Á engan er hallað þó Óla Björns Kárasonar sé getið sérstaklega, hann var frumkvöðull að stofnun blaðsins og kom því í gegnum erfiðleika upphafsáranna. Í sérstöku afmælisblaði Viðskiptablaðsins rekur Óli Björn þessa sögu.

Málsvari frjálsra viðskipta

Í upphafi var blaðið gefið út af Útgáfufélaginu Þekkingu hf. en í árslok 1994 tók Framtíðarsýn hf. við útgáfunni við sameiningu félaganna en Framtíðarsýn hafði þá einbeitt sér að útgáfu bóka er nýst gátu viðskiptalífinu. Þegar blaðið hóf að koma út var þetta sagt um tilgang blaðsins í leiðara þess: „Ritstjórnarstefna Viðskiptablaðsins markast af tilganginum með útgáfu þess, það er að þjóna atvinnulífinu í sívaxandi þörf fyrir ítarlegar og traustar upplýsingar um viðskipti og efnahagsmál. Meginefni blaðsins verður því um viðskipti og efnahagsmál, auk þess sem áhersla verður lögð á umfjöllun um nýjungar og strauma í rekstri fyrirtækja. Í ritstjórnargreinum verður blaðið málsvari frjálsra viðskipta og á samleið með þeim einstaklingum, fyrirtækjum og samtökum sem aðhyllast svipaðar skoðanir, en fylgja engum stjórnmálaflokki eða hagsmunasamtökum.“

Þegar ég hugsa til baka finnst mér að vel hafi gengið að framfylgja þessu en vissulega hefur blaðið ekki farið varhluta af ýmsum breytingum í íslensku viðskipta- og fjölmiðlaumhverfi. Eftir erfið upphafsár tókst að koma félaginu í jákvæðan rekstur sem var forsenda til að tryggja sjálfstæði ritstjórnarinnar. Fjölmiðlar sem stöðugt eru á hnjánum gagnvart eigendum sínum eru eðli málsins samkvæmt í þrengri stöðu. Blaðið hefur lengst af komið út einu sinni í viku auk fjölbreytilegrar aukablaðaútgáfu. Árið 2007 komu öflugir fjárfestar að blaðinu og vildu breyta því í viðskiptadagblað. Um eins og hálfs árs skeið kom blaðið út fjórum sinnum í viku og fjölgaði þá mjög á ritstjórninni. Útgáfufélagið naut styrks Exista-hópsins, sem átti þá blaðið, en var aldrei fjármagnað að fullu. Því varð það nánast samstundis gjaldþrota við bankahrunið 2008 enda drógust auglýsingatekjur verulega saman og sömuleiðis fækkaði hratt í hópi áskrifenda. Þetta voru sársaukafullir tímar en útgáfan féll þó aldrei niður en Haraldur Johannessen, núverandi ritstjóri Morgunblaðsins, stýrði blaðinu í gegnum þessa erfiðu tíma. Nýtt félag kom að rekstrinum og gaf það út einu sinni í viku og hefur það fyrirkomulag gengið vel eftir að íslenskt atvinnulíf tók að hjara við.

Breytt viðskiptalíf

Tilkoma Viðskiptablaðsins var að hluta til staðfesting þess að íslenskt viðskiptalíf var að breytast, fjölbreytni þess að aukast og um leið varð til þörf fyrir upplýsingar sem því tengdust. Á þeim tíma sem Viðskiptablaðið hefur göngu sína eru flokksblöðin að líða undir lok og ákveðin riðlun að verða á þeim viðskiptablokkum sem öllu réðu hér á landi á þeim árum. Nöfn eins og Kolkrabbinn og Smokkfiskurinn eru framandi ungu fólki í dag en voru það sannarlega ekki þá.

Um leið var frelsi að aukast í viðskiptum, slakað á ýmsum reglum og höftum, EES-samningurinn handan við hornið og vísir að kauphöll að sjást. Á sama tíma jukust kröfur um auknar og aðgengilegri upplýsingar um fyrirtæki og hlutafélög þeim tengd og vaxandi þörf var fyrir gagnsæi í viðskiptalífinu. Atvinnulífið var á sama tíma að taka stakkaskiptum, eldri valdablokkir að riðlast eins og áður sagði og nýjar að taka við. Nokkrum árum áður en blaðið hóf göngu sína var aðalfundur Sambands íslenskra samvinnufélaga (SÍS) en stærsti árlegi viðburður íslensks viðskiptalífs. En breytingar voru í farvatninu og fram til aldamótanna var mikill uppgangur þar sem ný fyrirtæki og nýir menn hösluðu sér völl. Netbólan sprakk reyndar með hvelli og margir þeir sem byggðu á skuldsetningu eða óraunhæfum væntingum lögðu upp laupanna. Atvinnulífið var hins vegar fljótt að jafna sig og árið 2003 var komin blússandi hagvöxtur sem entist fram að bankahruni. Það vakti athygli mína að ungur og efnilegur hagfræðingur sem ég talaði við fyrir ekki svo löngu síðan hafði litla sem enga hugmynd um þá niðursveiflu sem hér varð í viðskiptalífinu 2001! Í Bandaríkjunum er gerður greinarmunur á niðursveiflu eftir því hvort hún nær til Main Street eða Wall Street. Sú fyrri er eðli málsins samkvæmt erfiðari viðureignar á meðan bankamennirnir á Wall Street geta stundum sprengt sínar eigin bólur án þess að almenningur verði svo mikið var við það.

Fjölmiðlaumhverfið að breytast

Þegar Viðskiptablaðið hefur göngu sína voru Morgunblaðið og DV enn stórveldi á fjölmiðlasviðinu, Ríkisútvarpið til þess að gera fastmótað í starfsemi sinni og Stöð 2 vaxandi veldi en þar sáu fjárfestar tekjustreymi sem ekki hafði áður sést í íslenskum fjölmiðlum. Nú 25 árum seinna er þessi mynd gjörbreytt, samfélagsmiðlar hafa sogið kraftinn úr fjárstreymi fjölmiðla auk þess sem efnisveitur hafa raskað tekjumódeli áskriftarsjónvarpsins. Lesendur virðast leita á ný mið í leit að upplýsingum og afþreyingu. Ríkisútvarpið hefur styrkt stöðu sína á umræðusviðinu og er nú hornsteinn þess pólitísk rétttrúnaðar sem sameinar helst vinstri menn í dag. Handan við hornið er tilraun ríkisvaldsins til að styrkja fjölmiðla með fjármunum frá skattgreiðendum. Þegar horft er til mikilvægis þeirra fyrir menningarlíf landsmanna er ekki óeðlilegt að einhver stuðningur komi til en fáir fjölmiðlamenn fagna því að svo er komið. Viðskiptablaðið er reyndar í þeirri stöðu að vera rekið með jákvæðri afkomu sem er kannski ekki svo lítið afrek þegar litið er yfir stöðu fjölmiðla á Íslandi í dag.

Ég óska starfsmönnum og eigendum Viðskiptablaðsins til hamingju með afmælið.