c

Pistlar:

16. júní 2019 kl. 13:38

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fiskeldi: Ný útflutningsstoð?

Sagan segir að Japanir hafi ekki notað lax í sushi eða allt þar til snjöllum norskum markaðsmönnum tókst að sannfæra þá um að lax væri einmitt heppilegur með hrísgrónum. Í dag er lax og sushi nánast eitt og þessi saga er sögð sem dæmi um snjalla markaðssetningu. Norðmenn framleiða í dag um 1,2 milljón tonna af laxi og þessi framleiðsla stendur undir mörgum af blómlegustu fyrirtækjum Noregs, veitir fjölda fólks atvinnu og ein þeirra stoða sem tryggja Norðmönnum lífsgæði eins og þau gerast best í heiminum. Nokkuð sem við Íslendingar stefnum einnig að.

Fiskeldi hefur verið að festa rætur hér á landi eftir brösugar tilraunir í fortíðinni. Á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi kemur fram að á fyrstu fjórum mánuðum ársins er útflutningsverðmæti afurða frá fiskeldi komið í 8,6 milljarða króna. Þetta er mikil aukning frá því sem verið hefur undanfarin ár. Augljóslega er fiskeldi að verða okkur stöðugt mikilvægara og aukningin minnir að sumu leyti á þá miklu aukningu sem varð í ferðamennsku fyrir nokkrum árum.útfl-eldi-4-mán

71% aukning fyrstu fjóra mánuði

Til dæmis er þetta hærri fjárhæð en sem nemur útflutningsverðmæti eldisafurða á öllu árinu 2015 og árin þar á undan. Aukningin á fyrstu fjórum mánuðum ársins í krónum talið, miðað við fyrstu fjóra mánuði fyrra árs, nemur 71%. Á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2018 nam útflutningurinn rétt rúmum 5 milljörðum króna, en er eins og áður segir, nú kominn í 8,6 milljarða. Sem hlutfall af heildar útflutningsverðmæti sjávarafurða frá Íslandi eru þetta ríflega 10% og hlutfallið hefur aldrei mælst hærra. Fari svo fram sem horfir má gera ráð fyrir að verðmæti útfluttra afurða frá fiskeldi verði í kringum 25 milljarðar króna á þessu ári.

137% aukning í apríl

Ef einungis er horft til nýliðins aprílmánaðar þá nam útflutningsverðmæti frá fiskeldi rúmum 2 milljörðum króna. Ef miðað er við apríl í fyrra er þetta aukning um 137%, en þá nam útflutningsverðmætið 872 milljónum króna. Veiking á gengi krónunnar skýrir hluta af hækkuninni. Þegar hún er tekin með í reikninginn, er aukningin um 110%. Rétt er að taka fram að hér er ekki einungis átt við útflutning á laxaafurðum heldur öllum eldisafurðum, hrogn og seiði meðtalin.

Það dylst því engum að fiskeldi er að festa sig í sessi sem mikilvægur útflutningsatvinnuvegur sem dregur mikið af gjaldeyri til landsins, tryggir byggðafestu og skapar aukin tækifæri víðs vegar um landið. Það eru góð tíðindi nú þegar fréttir berast af kólnun hagkerfisins. Taka má undir með SFS um það að verði skynsamlega á málum haldið má gera ráð fyrir því að fiskeldi geti orðið vegleg stoð í íslensku efnahagslífi. Við væntum þess að farið verði hæfilega hratt í aukninguna og aðstæður þannig skoðaðar jafnóðum og greinin þróast.