c

Pistlar:

24. júní 2019 kl. 20:51

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Kínverjarnir halda áfram að koma

Margir í ferðaþjónustunni eru klofnir í afstöðu sinni til kínverskra ferðamanna. Flestir átta sig á að fjöldi þeirra gerir þá að einstökum markhóp um leið og kaupgeta þeirra eykst hröðum skerfum. Um leið eiga þjónustuaðilar í vandræðum vegna umgengni þeirra og ólíkrar menningar á mörgum sviðum. En staðreyndin er sú að flestir vilja fá sneið af kökunni, nú þegar talið er að um 150 milljónir Kínverjar séu á faraldsfæti (áætlun 2018) og flestir þeirra með ríflega kaupgetu.

Íslendingar vilja líka sneið af þessari köku og virðast hafa haft árangur sem erfiði. Á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs hefur kínverskum ferðamönnum fjölgað mest þrátt fyrir að ferðamönnum hafi almennt fækkað. Kínverjar voru á síðastliðnu ári um 4% af heildarfjölda þeirra sem sóttu okkur heim en voru rétt rúmlega 1% árið 2010. Kínverskir ferðalangar eru vissulega fáir en sem komið er fjölgar einna hraðast ferðamanna. Þetta skiptir ferðaþjónustuna miklu enda má segja að kínverskir ferðamenn séu verðmætir. Um leið þarf að hafa sérstaklega mikið fyrir því að þjónusta þá, bæði þegar kemur að greiðslukerfi og almennri þjónustu og því mikilvægt að Íslendingar nái tökum á markaðssetningu gagnvart þeim. Ljóst er að vaxandi hlutfall kínverskra ferðamann ætti að öðru óbreyttu að auka verðmæti sem hver ferðamaður skilur eftir sig miðað við dvalartíma.kinv

Færri ferðamenn - meiri velta

Verðmætaaukning ferðaþjónustunnar hefur fram til þessa verið drifin áfram af fjölgun ferðamanna mun frekar en aukinni neyslu þeirra meðan á dvöl stendur eins og Einar Örn Hreinsson sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka benti á í grein í síðasta Viðskiptablaði. Þar benti hann ennfremur á að frá árinu 2013 og fram á mitt ár 2017 jókst kortavelta á hvern ferðamann í erlendum gjaldmiðlum að meðaltali um 4,4% á ársfjórðungsgrundvelli en þá snerist vöxturinn hins vegar í lítillegan samdrátt eða um 0,1% á ársfjórðungsgrundvelli og varð umræðan um hátt verðlag á Íslandi á sama tíma sífellt háværari. Það hefur breyst og krónan gefið eftir. Í því eru vonandi tækifæri.

Undanfarið hefur hægt verulega á fjölgun ferðamanna og er útlit fyrir að þeim muni fækka á þessu ári. Því er ljóst að fram undan er verðug áskorun að viðhalda verðmætaaukningu greinarinnar. Ekki verður lengur hægt að stóla á fjölgun ferðamanna til að drífa hana áfram. Þannig hlýtur að færast aukin áhersla á að auka verðmæti á hvern ferðamann. Þá kviknar spurningin: Hvernig á að gera það? Jú meðal annars með því að efla markaðsstarf og þjónustu gagnvart kínverskum ferðamönnum. Ljóst er að efla þarf skilning á hvaða hópar koma þaðan en ljóst er að Kínverjar ferðast nú yngri en áður og hafa þar af leiðandi aðrar þarfir. Með þessu þarf íslensk ferðaþjónusta að fylgjast með.