c

Pistlar:

27. júní 2019 kl. 14:26

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Seljum Íslandspóst


Íslandspóstur tapaði tæpum þrjú hundruð milljónum króna á síðasta ári og í desember fékk ríkissjóður heimild frá Alþingi til að veita fyrirtækinu lán upp á einn og hálfan milljarð króna. Þungamiðjan í gagnrýni nýrrar skýrslu Ríkisendurskoðunar er sú furðulega staðreynd að engin eigendastefna hafi verið mótuð fyrir fyrirtækið og að ytra eftirliti með starfsemi þess hafi verið ábótavant. Þetta eitt og sér mælir með því að Íslandspóstur verði seldur sem fyrst á meðan einhver verðmæti eru í starfseminni um leið og samkeppni verði gefin frjáls á sviði póstflutninga. Um leið hefur skýrslan vakið athygli á samkeppnisbrotum félagsins í fortíðinni eins og Félag atvinnurekenda hefur vakið athygli á.

Það er ekkert sem mælir lengur með eignarhaldi ríkisins á þeirri starfsemi sem Íslandspóstur stendur fyrir og hefur reyndar ekki gert í mörg ár. Á meðan hafa skattgreiðendur greitt fyrir óskynsamar fjárfestingar, óskýra stefnumótun og þannig horft upp á fyrirtækið verða að nátttrölli í því samkeppnisumhverfi sem það starfar í. Íslandspóstur hefur reynst ófær um að bregðast við samkeppni, misst getuna til að þjónusta viðskiptavini sína og tapað miklum fjármunum fyrir skattgreiðendum. Starfsemi félagsins er dæmigerð fyrir það þegar ríkisvaldið er að skipta sér af starfsemi sem aðrir geta sinnt betur. Þegar athyglin beinist að fyrirtækinu er eina svar stjórnmálamanna að segja að þetta sé flókin starfsemi! Flókin - að dreifa pósti!postur

Fjármálaráðherra afgerandi

Það var því ánægjulegt að sjá ummæli Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, í Fréttablaðinu í dag. Þar sagði Bjarni: „Það hefur lengi verið mín skoðun að þegar búið er að koma lagaumgjörð um þessa starfsemi í betra horf, eins og við höfum verið að gera núna, og gera nauðsynlegar breytingar á rekstrinum þá sé ekkert því til fyrirstöðu að ríkið selji þennan rekstur.“

Hér á mbl.is hefur mátt lesa viðbrögð forsætisráðherra sem virðist í sjálfu sér ekki sjá þessari hugmynd neitt til foráttu en þar sem flokkur hennar hefur ekki beinlínis haft minnkandi ríkisumsvif á dagskrá þá er augljóst að ætlunin er að draga lappirnar.

En vonandi kemur það ekki í veg fyrir að ráðist verði í einkavæðingu á starfsemi Íslandspósts. Augljóslega hefur rekstur félagsins, skýrsla Ríkisendurskoðunar og breytt samkeppnisumhverfi tekið í burtu alla réttlætingu fyrir því að félagið sé í ríkiseigu og rekið á kostnað skattgreiðenda.


Gjaldskráin hækkar, starfsemi minnkar en starfsmönnum fjölgar

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að til að bregðast við rekstrarvanda Íslandspósts á árinu 2018 var gjaldskrá í einkarétti hækkuð og samþykkt heimild til að leggja á viðbótargjald á erlendar sendingar. „Útlit er fyrir að þessar aðgerðir, sem komu til framkvæmda á árinu 2019, muni bæta fjárhagsstöðu félagsins í bráð en undirliggjandi rekstrarvandi er enn þá til staðar og óvissa ríkir um áhrif boðaðs afnáms einkaréttar á rekstur félagsins,“ segir í skýrslunni. Með öðrum orðum, rekstrarvandi félagsins er ekkert að fara.

Árið 2018 voru 743 stöðugildi hjá Íslandspósti ohf. og var starfsmannavelta um 37%. Ríkisendurskoðun segir að félagið þurfi að tryggja að fjöldi og samsetning mannauðs hjá félaginu haldist í hendur við breytingar á starfseminni. Fjöldi stöðugilda hjá Íslandspósti ohf. hefur almennt ekki þróast í takt við síminnkandi umsvif í kjarnastarfsemi félagsins ef litið er til síðustu 10 ára segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Með öðrum orðum, á meðan eigandinn veit ekkert hvað á að gera við félagið fjölgar það starfsmönnum.

En nauðsynlegt er að hafa í huga að alþjóðasamningar eru einn helsti áhrifaþáttur á starfsemi póstþjónustu. Frumvarp til nýrra heildarlaga um póstþjónustu tekur mið af breytingum á reglum Evrópusambandsins um starfsemina. Þær lúta meðal annars að afnámi einkaréttar ríkja á þessu sviði og verður einkaréttur félagsins þannig afnuminn verði frumvarpið samþykkt eins og vakið er á í skýrslunni. Því í ósköpum þarf þá félagið að vera í eigu ríkisins?