c

Pistlar:

6. júlí 2019 kl. 12:50

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sósíalísk vargöld í Venesúela

Ný skýrsla mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna tekur af allan vafa um framferði sósíalistastjórnarinnar í Venesúela. Skýrslan byggir á 558 viðtölum við vitni að mannréttindabrotum en skýrslur voru teknar af þeim frá desember síðastliðnum fram í maí. Skýrslan er þungur áfellisdómur yfir sósíalistastjórn Nocolas Maduro en stjórnvöld eru þar sökuð um pyntingar, kerfisbundnar nauðganir, skefjalaust ofbeldi og ólögmæt manndráp í tilraunum sínum til að halda völdum í landinu.

Það hlýtur að vera þungt áfall fyrir þá mörgu sósíalista víða um heim, sem reynt hafa að bera blak af sósíalistastjórn Maduro, að lesa skýrsluna. Þar kemur fram að sérstakar drápssveitir stjórnarinnar (Special Action Forces (FAES)) eru taldar hafa drepið 5.287 manns fram til síðustu áramóta og aðra 1.569 fram til 19. maí á þessu ári. Voru drápin framkvæmd undir formerkjum sérstakra aðgerða (Operations for the Liberation of the People) sem þessar drápssveitir stóðu fyrir að skipan stjórnvalda. Þetta staðfestir grun margra en eru auðvitað sláandi upplýsingar. Getur nokkur varið þetta? Er enn unnt að kenna Trump og Bandaríkjamönnum um ástandið í Venesúela eins og margir sósíalistar hér á landi hafa gripið til? Um ástandið í venesúela hefur verið fjallað margoft hér.vene

Drápssveitir leika lausum hala

Ljóst er að alþjóðasamfélagið verður að bregðast við þegar skýrslan kemur til umræðu í allsherjarþingi Sameinu þjóðanna. Samkvæmt skýrslunni eru fórnarlömb hers og lögreglu gjarnan handtekin og þau skotin en um leið átt við vettvanginn þannig að útlit er fyrir að þau hafi veitt mótstöðu við handtöku. Gjarnan sé fíkniefnum og vopnum komið fyrir á vettvangi og drápin þannig færð undir átök við fíkniefnasala. Lýsingar eru á því að ómerktir svartir bílar keyri um, út úr þeim komi menn með svartar skíðagrímur, stilli ungum mönnum upp og skjóti þá. Það sem kom þó rannsakendum mest á óvart var hve háar þessar tölur eru. Um leið eru grunsemdir um að drápin séu enn fleiri, jafnvel að allt upp í 9.000 til 10.000 þúsund manns hafi verið drepin á þennan hátt.

Um langt skeið hafa verið ásakanir í garð sósíalistastjórnarinnar um að þær leyfi slíkum drápssveitum að leika lausum hala til að fást við pólitíska andstæðinga. Enn er til rannsóknar dráp á Rafael Acosta, kafteini í sjóher Venesúela en varnarmálaráðuneyti Venesúela staðfesti fyrir stuttu að hann væri látinn. Ekkja hins látna fullyrðir að Acosta hefði sætt pyntingum í varðhaldi vegna meintrar aðkomu hans að valdaráni sem Nicolas Maduro, forseti Venesúela, hafði fullyrt að hafi verið í uppsiglingu. Skýrsla SÞ fjallar um dauða hans og virðist staðfesta að hann hafi borið að með grunsamlegum hætti.

Hersveitir frá Kúbu og Rússlandi

Nú síðustu misseri hafa hersveitir frá Kúbu og Rússlandi verið í landinu undir formerkjum hernaðarráðgjafar. Ekki liggur fyrir hvort þær hafa einhverja aðkomu að drápunum en ljóst er að sósíalistastjórnin telur sig ekki geta haldið völdum án þeirra. Sameinuðu þjóðirnar hafa hvatt stjórnvöld í Venesúela til þess að láta af alvarlegum brotum gegn réttindum íbúa, en ríkisstjórn landsins segir skýrsluna brenglaða og hlutdræga.

Ófremdarástand hefur ríkt í Venesúela síðan þingforsetinn Juan Guaidó lýsti sig starfandi forseta landsins í janúar, en yfir fimmtíu ríki hafa lýst yfir stuðningi sínum við stjórn hans. Nicolas Maduro forseti nýtur hins vegar enn stuðnings hersins, sem og mikilvægra bandamanna á borð við Kína og Rússland.

Um fjórar milljónir íbúa hafa flúið Venesúela síðan 2015 vegna efnahagskreppunnar sem ríkt hefur í landinu en hún hefur leitt af sér mikið atvinnuleysi og viðvarandi skort á matvælum og lyfjum.