c

Pistlar:

10. júlí 2019 kl. 12:19

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Húsavík: Þar sem hvalirnir synda

Það er forvitnilegt að heimsækja Húsavík en einhverra hluta vegna er það ekki reglubundin viðburður í ferðalögum mínum. Bæjarstæðið er fallegt og að mörgu leyti óvenjulegt með háan sjávarkamb upp af ströndinni. Landrými er nóg og allt iðaði af athafnasemi nú í vikubyrjun enda má segja að ferðaþjónustutíminn sé að ná hápunkti sínum. Það var því forvitnilegt að kíkja við í stutta heimsókn.husavik1

Það fyrsta sem tekið er eftir er vitaskuld umfang ferðaþjónustunnar þarna norður við heimskautsbaug (er í það minnsta ekki óhætt að segja að Húsavík sé ansi norðarlega?). Rútur og bílaleigubílar um allt hafnarsvæðið þar sem hvalaskoðunarfyrirtæki reka starfsemi sína. Ys og þys einkenndi hafnargötuna og hvalaskoðunarbátar að koma eða fara. Það er í raun með ólíkindum hve rækilega Húsvíkingar hafa náð að koma sér á kortið þegar kemur að hvalaskoðun sem er auðvitað skýrt dæmi um hvað hægt er að gera ef einbeitni og framtakssemi fær að ráða. Má vera að Skjálfandaflóin gefi góð tækifæri til hvalaskoðunar en mestu skiptir hve vel svæðið hefur verið markaðssett.

Þessi 3.000 manna bær, sem bjó við nokkra óvissu í kjölfar dvínandi útgerðar og endaloka starfsemi Kaupfélags Þingeyinga, elsta kaupfélags landsins, virðist nú blómstra. Mikil uppbygging hefur átt sér stað í bænum, ný hús risið og önnur endurbyggð. Augljóslega telja menn að þarna sé tækifæri fyrir fjármagn og fólk en ný verksmiðja PCC hefur þar einnig áhrif. Það má vitaskuld hafa skoðun á skipulagsmálum við höfnina sem að sumu leyti virðist einmitt vera dálítið skipulagslaus en allt virðist þetta blessast.

Höfuðstaður hvala

Húsvíkingar hafa ákveðið að gera bæinn að einhverskonar „hvalaskoðunarhöfuðstað heimsins“ og ferðamenn virðast taka þetta alvarlega. Við gistum á litlu gistiheimili þar sem dvöldust erlendir gestir sem höfðu verið búnir að bóka sig í hvalaskoðunarferðir með löngum fyrirvara og höfðu því komið gagngert til bæjarins í þeim tilgangi. Voru spenntir fyrir því sem koma skyldi, allt bókað fyrirfram á netinu. Gistiheimilið var merkt ártalinu 1895 og dugði ágætlega, snyrtilegt og vinalegt en ekki höfðu verið fjárfestar margar krónur í því. En hægt er að gleðjast yfir þeim tækifærum sem margir eigendur íbúðarhúsnæðis á Húsavík hafa núna. Ekki verður séð annað en að talsvert framboð sé af gistingu hverskonar enda eftirspurn talsverð.husavik2

Hvalasafnið var heimsótt og það kom ánægjulega óvart. Vel skipulagt og gaf fróðlegt yfirlit um hvalveiðar hér við land og reyndar víða. Djásn safnsins er hin 25 metra langa beinagrind af steypireið sem þar má finna en einnig eru þar beinagrindur af fleiri hvölum.

Augljóslega dregur ferðaþjónustan á Húsavík að mikið af erlendu vinnuafli. Það heyrði til undantekningar ef við vorum þjónustuð af íslenskumælandi manneskju á Húsavík. Eftir nokkra umhugsun ákváðum við að snæða kvöldverð á veitingastaðnum Naustinu sem sérhæfir sig í ferskum sjávarréttum. Við sáum ekki eftir því, maturinn var góður og þjónustan vinsamlega en dálítið viðvaningsleg eins og maður lendir gjarnan í úti á landi. Hádegisverður á Gamla bauk vakti hins vegar ekki mikla lukku.