c

Pistlar:

18. júlí 2019 kl. 21:48

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ríkisfyrirtæki í fjárfestingaham

Hvað á að gera við Íslandspóst virðist vera framhaldsspurning síðustu vikna eftir að í ljós kom að fyrirtækið hafði verið rekið í þrot. Auðvitað er það sagt með þeim fyrirvara að ríkisfyrirtæki fara aldrei í þrot heldur eru félaginu réttur nýr peningur úr ríkissjóði ef reksturinn gengur ekki upp. Að því leyti má segja að reksturinn hafi flotið frá einni endurreisninni til annarar.Pósturinn-logo

Hér fyrir stuttu birtist sú skoðun að eina ráðið væri að selja reksturinn úr eigu ríkisins. Með öðrum orðum; einkavæða Íslandspóst. Vitaskuld sjá margir tormerki á því en þær upplýsingar sem hafa komið fram undanfarið í fjölmiðlum hljóta að vekja athygli og frekar styðja fullyrðinguna en hitt. Allt fór þetta af stað í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar sem síðar hefur komið í ljós að var margvíslegum takmörkunum háð og má spyrja sig hvort Ríkisendurskoðun hafi viljandi farið mildum höndum um fyrirtækið? Sláandi var að lesa viðtal við Birgi Jónsson, nýjan forstjóra fyrirtækisins, í ViðskiptaMogganum fyrir stuttu. Morgunblaðið hefur fylgt því vel eftir og rakið rekstrarsögu fyrirtækisins sem hlýtur að verða að teljast lexía fyrir þá sem telja að ríkisrekstur taki öðru fram. Hefur meðal annars verið upplýst að eigandi fyrirtækisins, ríkið, hafði í raun enga stefnu um félagið. Því ráku stjórnendur þess það eins og þeim sýndist og skelltu því í samkeppni með uppkaupum á félögum sem virtust vera rekstri þess og lögbundnum verkefnum óviðkomandi.

Keyptu sig inn í samkeppnisrekstur

Í dag má lesa eina fréttaskýringu til viðbótar í Morgunblaðinu eftir Baldur Arnarson blaðamann sem hefur fylgt málinu eftir af einurð. Þar er til umfjöllunar furðuleg uppkaup Íslandspósts á aðskiljanlegustu rekstrarfélögum, sumum er manni finnst vera í óskildum rekstri. Á árunum 2005 til 2014 keypti félagið fimm félög sem Baldur segist skilja sem viðleitni til að bregðast við breytingum og treysta reksturinn andspænis fækkun bréfa. Hann bendir á að þar sem kaupverð þriggja félaga sé trúnaðarmál sé erfitt að meta ávöxtun Póstsins af fjárfestingunni. Hún mun skýrast þegar félögin verða seld og í ljós kemur hversu verðmæt markaðurinn metur þau. Í greininni er farið ágætlega yfir rekstur félaganna og blasir við að þau eru keypt í skjóli þess að Íslandspóstur hafði enga eigendastefnu. Fyrir vikið fengi stjórnendur þess óáreittir að færa vandræðagang sinn út á markaðinn og trufla hann. Þetta er auðvitað ekki boðlegt.

Lokað á lán og ríkið hleypur til bjargar

Eins og upplýst hefur verið þá hefur viðskiptabanki félagsins, Landsbankinn, lokaði á frekari lánveitingar og fékk Íslandspóstur því hálfan milljarð króna í neyðarlán frá ríkinu síðasta haust sem breyta mætti í hlutafé. Síðan var heimilað í fjárlögum 2019 að endurlána félaginu allt að 1,5 milljarða. Ríkið virðist því vera að setja talsverða fjármuni í félagið án þess að séð verði að stefna þess sé skýr. Er ekki eðlilegt að skilgreina hvaða almannahagsmunum þarf að sinna varðandi póstdreifingu, bjóða það út og selja félagið og ljúka þessum ríkisrekstri?