c

Pistlar:

26. júlí 2019 kl. 14:21

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bítlarnir, skattmann og skattaskjól

Fyrir aðdáendur Bítlanna er lagið Taxman ekki talið stórvirki. En gott lag og markaði að sumu leyti upphafið að ferli George Harrisons sem lagahöfundar. John Lennon aðstoðaði Harrison við lagasmíðina og aðdáendur Bítlanna sögðu gjarnan að lagið væri til marks um það að ofurskattar væru þá ekki alslæmir! Lagið birtist á Revolver-plötunni sem kom út árið 1966 en þá ríkti vinstri stjórn í Bretlandi undir stjórn Harold Wilsons, þáverandi formanns Verkamannaflokksins. Stjórn Wilsons fær ekki háa einkunn í sögunni en fann það helst til ráða til að bjarga fjárhag ríkisins að hækka skatta upp úr öllu valdi. Þannig fundu Bítlarnir vel fyrir þessari skattlagningu, sem sumir kölluðu ofurskatt (e.supertax), og kveinkuðu sér mjög.georg

Georg lýsti því þannig síðar að það hefði verið undarlegt að uppgötva að þegar loksins peningarnir fóru að streyma inn að þá fóru þeir allir í að greiða skatta sem í sumum tilvikum voru upp á 95%. „Þetta var undarlegt að sjá. Þú ert ánægður að sjá að þú ert farinn að hafa góðar tekjur en um leið fara allir fjármunirnir í að greiða skatt. Okkur fannst þetta undarlegt og ósanngjarnt. Þetta var í raun áfall fyrir okkur sem trúðu á Bretland og fleiri og fleiri gripu til þess ráðs að flytja til Bandaríkjanna,” sagði Georg síðar en hann var ófeiminn við að ræða þessi skattamál opinberlega. Enda var það svo að margir af stórpoppurum Englands frá þessum tíma gripu til svipaðra ráða.

Ofurskattar hrekja listamenn á brott

Aftur og aftur hafa slíkir ofurskattar hrakið hátekjufólk á brott, ekki síður í listaheiminum eins og annars staðar eins og rakið var hér þegar sagt var frá því að í mars 1976 skrifaði sænski rithöfundurinn Astrid Lindgren grein í götublaðið Expressen sem bar hið torkennilega heiti „Pomperipossa in Monismania". Um var að ræða háðsádeilu (e. satirical allegory) um barnabókahöfund í fjarlægu land. Engum duldist hvað við var átt; greinin fjallaði um Astrid (Pomperipossa) og landið var Svíþjóð (Monismania). Greinin var skrifuð í tilefni þess að Lindgren hafði uppgötvað að hún greiddi hvorki meira né minna en 102% skatt af skáldskap sínum.

Bítlarnir sem og aðrir í þeirra stöðu undu þessu illa. Að lokum brugðu þeir á það ráð að færa peninga sína í skattaskjól, nánar tiltekið til Bahama-eyja. Það sagði Georg að hefði einnig verið misráðið. Þeir hefðu þurft að borga manni sérstaklega fyrir að sjá um fjármunina þar og hefðu átt erfitt með aðgengi að þeim. Að lokum hefðu þeir flutt peningana heim og tapað á þessu öllu saman. Og haldið áfram að borga háa skatta.

Í hvað fóru skattarnir-umræðan!

En þessar vangaveltur Bítlanna töluðu með ákveðnum hætti inn í umræðu sem var að mótast og átti eftir að hafa sterk áhrif í stjórnmálum. Eftir seinni heimsstyrjöldina ríkti um skeið ákveðin sátt um samfélagsgerðina í Bretlandi og reyndar víðar á vesturlöndum. Menn trúðu á markaðskerfi, lýðræði en líka einhverskonar endurdreifingu gæða innan félagslega kerfisins. Til þess að það væri unnt vildu menn gjarnan greiða skatta. En smám saman upplifðu fleiri og fleiri að hinum gríðarháu skattgreiðslum var ekki vel varið. Kerfið stækkaði og stækkaði og varða óskilvirkara og þjónustaði íbúanna sífellt verr.

Gagnrýni á þetta fyrirkomulag birtist í ýmsum myndum. Eins og Bretum er tamt þá hæddust þeir að óskilvirkni embættismannakerfisins eins og birtist í þáttunum vinsælu Já, ráðherra (og síðar Já, forsæisráðherra) og sumt í gamanmáli Monty Python-hópsins var af sama meiði og sama á við um marga þá er voru að skemmta í Bretlandi á þessum tíma. Síðar efldist gagnrýnin og tók yfir hina pólitísku umræðu, að hluta í gegnum það sem menn kölluð nýfrjálshyggju en var í raun endurvakning á efasemdum um að ríkið væri heppilegur rekstraraðili samfélagsins. Þetta náði líklega hámarki í sigurgöngu Margrétar Thatchers sem var forsætisráðherra Bretlands á árunum 1979-1990 og leiðtogi breska Íhaldsflokksins 1975-1990. Hún varð fyrst kvenna til að gegna þessum tveimur stöðum og sat einnig lengst allra samfellt sem forsætisráðherra Bretlands á 20. öld. Engum blöðum var um það að fletta að enskt hagkerfi læknaðist af mörgum þeim innanmeinum sem voru að hrjá það áður og efldist á nýjan leik.

Taxman eftir George Harrison

Let me tell you how it will be
There's one for you, nineteen for me
'Cause I'm the taxman, yeah, I'm the taxman
Should five per cent appear too small
Be thankful I don't take it all
'Cause I'm the taxman, yeah I'm the taxman
If you drive a car, I'll tax the street,
If you try to sit, I'll tax your seat.
If you get too cold I'll tax the heat,
If you take a walk, I'll tax your feet.
Don't ask me what I want it for
If you…

Sagan segir að þegar Harrison hafi sungið lagið á tónleikum hafi hann gjarnan bætt við þessari laglínu: If you're overweight, I'll tax your fat! Annars söng hann þetta nokkuð oft á sólóferli sínum og það gladdi marga þegar hann söng lagið með Eric Clapton en Clapton var meðal þeirra fjölmörgu ensku listamanna sem flúðu skattaheimtuna heima fyrir. Gítarleikarinn Stevie Ray Vaughan hafði líka dálæti á laginu og útsetti það með eftirminnilegum hætti.