c

Pistlar:

29. júlí 2019 kl. 11:41

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Peningaheimur íþróttanna

Keppnistímbil sófaspekinganna í íþróttum er langt en nú undanfarið hefur færst fjör í leikinn. Eftir mikla uppbyggingu undanfarin ár og tilheyrandi kynningastarf hirti Síminn ensku knattspyrnuna af Stöð 2/Vodafone. Í framhaldinu hefur baráttan harðnað og nú eru kynnt til sögunar ný tilboð og tvö félög berjast um athygli sófaspekinganna sem þurfa að ákveða hve miklum tíma og peningum þeir verja í íþróttagláp. Sá er þetta skrifar játar þann veikleika að horfa mikið á íþróttir og hafa furðu mikinn áhuga á mörgum greinum enda starfaði ég sem íþróttafréttamaður um skeið á DV í gamla daga. Fór úr því beint yfir í þingfréttir sem skapaði auðvitað áhugaverðan samanburð en það er önnur saga.

En undirbúningstímabil íþróttanna virðist að miklu leyti snúast um peninga eins og var rakið ágætlega í fréttaskýringum, bæði í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu um helgina. Fréttablaðið rakti helstu kennitölur stærstu vörumerkja íþróttanna og kemur ekki á óvart að verðmætustu fyrirtækin er að finna í Bandaríkjunum, að viðbættum nokkrum fótboltaklúbbum í Evrópu, sem sumir hverjir eru einnig í eigu bandarískra auðjöfra. Íþróttir eru „business“ sem er fjármagnaður að talsverðu leyti af bjórdrekkandi sófaspekingum, oftast karlmönnum. Þannig gerast nú kaupinn á þeirri eyri.boltabar

Sykurpabbar íþróttanna

Allar tölur í þessum ofurheimi íþróttanna eru gríðarlega háar, stundum nánast óskiljanlegar og erfitt að skilja að allt byggist þetta á því að almenningur og fylgismenn liðanna séu tilbúnir að borga brúsann. Að mestu, því mörg stórlið hafa núna hálfgerða „sykurpabba“. Velgjörðarmenn er kannski of hátíðlegt en þessir einstaklingar virðast oft tilbúnir til að kosta til gríðarlegum fjármunum, svo mjög að verðbólga verður í öllu er varðar íþróttina. Leikvangar verða sífellt stærri og glæsilegri, kaupverð leikmanna hækkar og laun líka. Um leið þarf að finna nýjar og öflugar tekjuleiðir til að setja styrkari stoðir undir reksturinn.

Endurreisnarmenn og borgarlið


Það er svo sem ekkert nýtt að auðmenn kosti íþróttafélög. Á síðasta velgengnistíma AC Milanó var félagið kostað af Silvio Berlusconi, þá ríkasta manni Ítalíu. Fíat-fjölskyldan studdi við Juventus og fleiri ítölsk lið höfðu stuðning þessarar endurreisnarmanna knattspyrnunnar. Risalið Spánar, Barcelóna og Real Madríd, njóta gríðarlegrar fyrirgreiðslu af hálfu heimaborganna enda virðist stundum að barátta liðanna sé hluti af óopinberu borgarstríði þeirra. Í heimi knattspyrnunnar virðast Real Madríd, Barcelóna og Mnchester City hafa dýpstu vasana þessi misserin. Jú, kannski líka PSG í París sem þar að auki virðist tilbúið að brjóta fleiri reglur en aðrir.enska

Vinsældir ensku knattspyrnunnar

Enska knattspyrnan er sú vinsælasta á heimsvísu og eftir að enska úrvalsdeildin (e. premier league) var sett á laggirnar 1992 hefur hún verið sú arðbærasta. Henni er sjónvarpað til 212 landa og svæða og nær til um 650 milljón heimila segir Wikipedia. En þetta kostaði sitt og erlendir auðmenn hafa læst klónum í flest liðanna, fyrst komu Rússarnir, svo Arabarnir, Bandaríkjamennirnir og Asíubúarnir. Það virðist ekkert lát á áhuga slíkra auðmanna og stuðningsmenn gamalgróinna liða vona það heitast að einn slíkur auðmaður mæti og hefji liðið þeirra aftur til vegs og virðingar. En það verður sífellt dýrara að koma liði í gang og nú er farið að setja reglur sem eiga að setja leikmannakaupum og taprekstur sykurpabbanna takmörk.nbaplayoffs

Breytt valdahlutföll í NBA

Mun það ganga? Það er óvíst en fróðlegt er að fylgjast með þróuninni í bandarísku NBA-deildinni, háborg körfuboltans í heiminum. Þar hefur lengi verið við lýði kerfi sem ætlað er að stuðla að jafnvægi í deildinni þannig að peningaliðin taki ekki allt yfir. Þannig er veikustu liðunum tryggður aðgangur að efnilegustu leikmönnunum með ákveðnum reglum nýliðavalsins (sem reyndar minnir orðið á Emmy-verðlaunaafhendingu, nema hvað verðlaunin eru veitt fyrirfram!) Vitaskuld er þetta allt háð markaðslögmálum þannig að valréttir geta gengið kaupum og sölum.

Þá er launaþaki ætlað að tryggja að ríkustu liðin geti ekki sópað til sín bestu leikmönnunum. Þetta hefur tryggt ákveðið jafnvægi í deildinni sem gerir tímabilið meira spennandi og býður upp á óvænta sigurvegara eins og sigur Toronto Raptors í vor sýnir. En nú hafa bestu leikmennirnir náð að styrkja stöðu sína og þeir virðast þannig vera farnir að stilla saman liðum eftir eigin höfði. Það verður fróðlegt að sjá hvaða áhrif þetta hefur og hvort stjórnendur liðanna sætti sig við þetta til lengri tíma litið. Hætt er við að uppbygging liða verði ekki á forsendum heildarinnar heldur einstaklinganna í framtíðinni en það er svo sem ekkert nýtt að NBA snúist um stjörnur.