c

Pistlar:

7. ágúst 2019 kl. 15:11

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Velgengnissögur: Trefjar og Hampiðjan


Á þessum vettvangi hafa stundum verið raktar velgengnissögur úr íslensku atvinnulífi. Sem betur fer finnast þær og sjálfsagt eru þær fleiri en menn halda. Fyrir ekki löngu síðan voru þrjár slíkar sögur raktar og tímabært að koma með fleiri. Rétt eins og átti við um þær sögur þá eiga þau félög sem hér er sagt frá það sameiginlegt að án íslensks sjávarútvegs hefðu þau ekki orðið til. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa þannig lagt lóð sín á vogarskálarnar með samstarfi við íslensk tæknifyrirtæki. Með slíku samstarfi við þróun aukast líkur á að hugvit verði að söluvöru eins og þessi öflugu fyrirtæki hafa svo sannarlega sýnt fram á með því að vinna markaði um allan heim.trefjar

Bátasmíðastöðin Trefjar

Auðunn Óskarsson, stofnaði bátasmíðastöðina Trefjar árið 1978, og er aðaleigandi þess í dag en fyrirtækið er að mestu leyti í smíði fiskibáta. Þó hafa Trefjar einnig tekið að sér smíði heitra potta fyrir landsmenn og hafa gert það í um 30 ár. Starfsemi Trefja hefur vaxið mikið undanfarin ár og nýtt húsnæði Trefja rís um nú um þessar mundir við hlið núverandi húsnæðis fyrirtækisins við Óseyrarbraut í Hafnarfirði eins og fjallað var um í Morgunblaðinu fyrir stuttu. Húsið er engin smásmíði eða um 2.000 fermetrar að stærð og er gert ráð fyrir að flytja í það um næstu áramót en Trefjar smíða allt innanhús.

Trefjar fluttu í húsnæðið á Óseyrarbraut fyrir 10 árum en fljótlega hafi komið í ljós að það hafi verið of lítið. Nóg er um að vera hjá Trefjum um þessar mundir að því er kemur fram í grein Morgunblaðsins en fyrirtækið hefur 15 virka bátasmíðasamninga. Þeir eru mislangt komnir og af öllum stærðum og gerðum. Allt frá því að vera frekar litlir 32-33 feta bátar upp í 50 feta, miklu stærri skip, með vinnsludekki og stórri lest ásamt flóknari búnaði. Bátarnir eru vitanlega misdýrir. Söluandvirði smærri báta er í kringum 40-50 milljónir en þeir allra stærstu geta selst á um 300-350 milljónir.

Í dag er Noregur langsterkasti markað Trefja en fyrirtækið hefur undanfarin ár verið að velta á bilinu 1-1,5 milljörðum króna á ári. Af þeim samningum sem eru í gangi eru 9-10
í Noregi og restin skiptist á milli Íslands, Frakklands og Bretlands. Ísland skiptir nú minna máli en Noregur en þar er mikið um línubáta sem veiða þorsk og ýsu og fleira. Þá framleiða Trefjar mikið af gildrubátum fyrir breskan markað þar sem verið er að veiða krabba og humar í gildru. Að jafnaði smíðar fyrirtækið 8-12 báta á ári en sum verkefni eru margfalt stærri en önnur. Um 50-60 manns vinna hjá Trefjum og nýlega tók fyrirtækið í notkun færanlega bátalyftu sem var algjör bylting í að þjónusta báta allt upp í
75 tonn að þyngd.hamp

Hampiðjan í fremstu röð

Iðnfyrirtækið Hampiðjan er í fremstu röð í heiminum þegar kemur að bæði umfangi og tæknilegri þróun veiðarfæra og er með starfsemi í 14 löndum um allan heim. Eftir jafnan en hægan vöxt á fyrri hluta 20. aldarinnar óx veiðarfæraiðnaði fiskur um hrygg hér á landi í kjölfar Þorskastríðanna og miklum uppgangi fylgt mikil eftirspurn eftir fullkomnari veiðarfærum sagði Hjörtur Erlendsson, forstjóri félagsins, í fróðlegu viðtali við Viðskiptablaðið fyrir skömmu. Við skupum aðeins tæpa á sumu því sem kom þar fram um þróun þessa áhugaverða fyrirtækis.

Hjörtur bendir á merkileg tengsl við landhelgisbaráttuna. „Ástæðan fyrir því að við höfum náð lengra en aðrir er þessi mikla tæknivæðing sem varð hér á Íslandi og hvað markaðurinn stækkaði skyndilega þegar landhelgin var færð út. Þetta byrjaði náttúrlega mjög smátt. Í byrjun síðustu aldar voru bátarnir smáir og náðu mjög skammt út fyrir landsteinana. Landhelgin var þrjár mílur og fór síðan í tólf. Þetta byrjar síðan að breytast gríðarlega þegar landhelgin færist í 50 og loks 200 mílur. Með því ýtum við í raun Bretum, Spánverjum og Portúgölum í burtu, en áður höfðu þeir verið að koma hingað og veiða fyrir utan landhelgina,“ sagði Hjörtur.

Erlendu skipin höfðu fengið sín veiðarfæri frá þeim bæjum sem gert var út frá erlendis, en þegar Íslendingar tóku yfir allar veiðar við Íslandsstrendur keyptu þeir sín veiðarfæri hér á landi. Á þessum árum stóð Hampiðjan mjög framarlega tæknilega séð miðað við önnur fyrirtæki í Evrópu því fjárfest hafði verið í nýjum og fullkomnum framleiðslutækjum í kring um 1970. Umbreytingin var því mun hraðari hér.

Annar stór áhrifaþáttur að sögn Hjartar var sóknarmarkskerfið svokallaða, sem fól í sér að aðeins mátti veiða vissa daga á ári. Það leiddi til þess að allt kapp var lagt á að veiða eins mikið og hægt var, á eins stuttum tíma og hægt var, og því fylgdi gríðarleg offjárfesting. „Það var bara einn allsherjarkvóti og síðan bara kepptust allir við að veiða og ná í eins stóran skerf af leyfilegum afla og hægt var. Menn þurftu því að hafa það besta af öllu: gott skip, besta tækjabúnaðinn, mjög góð veiðarfæri, og góða skipstjórnarmenn, til að geta hámarkað aflann,“ sagði Hjörtur, og bætir við að Íslendingar hafi þar að auki alltaf verið frekar tæknisinnaðir, og menntunarstig hér sé hátt. Sem dæmi sé Ísland eina landið með formlegt nám í netagerð. Allt þetta hefur lagt grunninn að því arðbæra og öfluga fyrirtæki sem Hampiðjan er.