c

Pistlar:

4. september 2019 kl. 21:06

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Stórveldi í heimsókn

Sjö klukkustunda stopp Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, hér á landi minnir okkur á tilvist stórveldisins í vestri. Óhætt er að fullyrða að heimsóknin hafi sett allt á annan enda og flestir landsmenn hafa fylgst með för varaforsetans. Svona eru þá stórveldi gæti einhver sagt. Viðbúnaðurinn er ótrúlegur, hátt í 300 öryggisverðir frá Bandaríkjunum koma til landsins, herskip dóla úti fyrir ströndum landsins, þyrlur fluga um og öryggisbílar keyra um með gesti og öryggisverði. Allt virkar furðu stórt í sniðum og framandi og þetta er bara varaforsetinn!pence1

En Bandaríkin eru dálítið upphaf og endir alls í alþjóðastjórnmálum og alþjóðaviðskiptum. Í raun eina stórveldið í dag á báðum þessum sviðum. Lengi vel hefur það verið einföld reikniregla að þeir eru 1000 sinnum fleiri en við Íslendingar og það er ekki fjarri lagi í dag en þeir eru um 330 milljónir alls, þriðja fjölmennasta ríki heims. En það er ekki mannfjöldinn sem gerir Bandaríkin að stórveldi, það er hinn efnahagslegi slagkraftur og sú staðreynd að Bandaríkjadalurinn er heimsgjaldmiðill. Einnig sú staðreynd að drjúgur hluti stærstu nýsköpunarfyrirtækja eiga uppruna sinn þar og sköpunar- og endurnýjunarkraftur bandaríska hagkerfisins er mikill. Þá er stór hluti allra hlutabréfaviðskipta í bandarískum kauphöllum og meira að segja kínversk stórfyrirtæki sækjast eftir því að fá skráningu þar og komast inn í bandaríska viðskiptakerfið. Bandarískur efnahagur er sá fjölbreyttasti sem finnst og hefur lengst af verið skilvirkastur og frjálsastur. En heimsviðskiptin hafa verið að breytast og það hefur kallað á pólitískar breytingar.

Valdamesti maður heims

Sú staðreynd að Donald Trump situr í embætti forseta Bandaríkjanna, valdamesta embætti heims hefur gert andstæðurnar enn meiri. Trump er ólíkindatól og rekur ekki sína pólitík eins og hefðbundnir stjórnmálamenn. Auðvitað markast það af persónuleikanum en ekki síður þeirri staðreynd að hann er aðkomumaður á hinu pólitíska sviði, ekki atvinnustjórnmálamaður. Sú staðreynd er sérlega óþægileg fyrir embættismenn og aðra hefðbundnari stjórnmálamenn. Trump er óútreiknanlegur og margt sem hann segir og gerir er með ólíkindum. Það er í senn styrkur hans og veikleiki. Engum blöðum er um það að fletta að hann var beinlínis kosinn sem slíkur. Bandaríkjamenn höfðu fengið sig fullsadda af atvinnupólitíkusum og tók honum opnum örmum. Það er ekki hægt að segja annað þar sem hann ruddi til hliðar allri mótspyrnu innan repúblikanaflokksins og sigraði svo Hillary Clinton, nánast öllum á óvörum. Það er svo sem ekki í fyrsta sinn sem óvænt úrslit verða í forsetakosningum í Bandaríkjunum eins og bent var á hér.

Trump háði markvissa, ósvífna og árangursríka kosningabaráttu. Hann storkaði fjölmiðlum og hefðbundnum viðmiðum og þegar á reyndi voru kjósendur í Bandaríkjunum tilbúnir að veðja á þennan heldur vafasama viðskiptajöfur og sjónvarpsmann, miklu frekar en alla þá atvinnustjórnmálamenn sem stóðu til boða. Umræða um að hann hafi verið óverðugur og ekki unnið meirihluta atkvæða er skiljanleg en skiptir í raun engu. Hann leysti þá þraut að vinna kosningarnar. Ekki þeir sem höfðu alla ævi verið að undirbúa sig undir það.pence2

Verður Trump kosinn aftur?

Óhætt er að segja að Donald Trump hafi haldið áfram að strjúka fólki öfugt og hér var í minningarpistli um George H.W. Bush (1924-2018) bent á að Trump er ekki hluti af valdakerfi Washington. Það er í raun með ólíkindum hvað margir endast til þess að hneykslast á honum og satt best að segja veigra maður sér ræða Trump, svo heitir eru margir í umræðunni.

Bandaríska samfélagið er margslungið og andstæðurnar miklar. Það er gott að átta sig á margbreytileika þess þegar við Íslendingar köllum eftir slíku. Fyrir stuttu var hér í pistli bent á hve ólík skattastefna getur verið á milli einstakra ríkja. Áður hefur verið bent á hve mikilir fjárhagslegir erfiðleikar hafa steðjað að ýmsum borgum og ríkjum Bandaríkjanna. Bandaríkjamenn eru í fylkingarbrjósti á mörgum sviðum þó þeir hafi einnig gefið á ýmsum sviðum. Í landinu má finna miklar andstæður, einangrunarhyggju og alþjóðahyggju, baráttu fyrir mannréttindum og svæsna afturhaldshyggju.

Hvað sem þessu líður þá skipta Bandaríkin okkur Íslendinga miklu og því mikilvægt að varðveita góð samskipti við bandaríska ráðamenn. Það er vonandi að áframhald verði á því eftir heimsókn dagsins.