c

Pistlar:

15. september 2019 kl. 14:43

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sundabraut enn og aftur

Sundabraut kom til umræðu í Silfrinu í Ríkissjónvarpinu í dag. Þar var bent á þá augljósu staðreynd að öryggis vegna er hún nauðsynleg. Það er í raun ótrúlegt að fylgjast með vandræðaganginum í kringum Sundabraut en hún hefur komið æði oft til umræðu í pistlum hér. Bent hefur verið á að það er skammsýni að horfa á framkvæmdina eina og sér og þann kostnað sem henni fylgir. Kostirnir og tækifærin sem henni fylgja eru gríðarlegir eins og margoft hefur verið bent á hér.

Lítum á nokkr kosti: Í fyrsta lagi þá leysir Sundabraut alvarleg samgönguvandamál í Reykjavík. Í öðru lagi skapar hún hagkvæma og nauðsynlega tengingu við Vesturland. Í þriðja lagi styttir leiðina út úr bænum um 15 til 20 mínútur. Í fjórða lagi þá er hún mikilvæg öryggisleið út úr borginni. Það er óásættanleg að eina leiðin sé um Ártúnsbrekkuna þar sem í dag aka rúmlega 100.000 bílar á dag eins og bent var á í Silfrinu í dag. Í fimmta og síðasta lagi þá mun framkvæmdin leysa úr læðingi tækifæri sem eru mikilvæg fyrir framtíðaruppbyggingu höfuðborgarinnar. Samgöngur vestur á land eflast, hafnarsvæði upp á Grundartanga nýtist betur, framkvæmdin styrkir byggðatengsl við Akranes og Vesturland og þá er ljóst að mikið og verðmæt land færist inn á byggðaþróunarsvæði höfuðborgarinnar. Þetta eitt og sér ætti að mæla með framkvæmdinni.sundabraut1

Tregða í borgarmeirihlutanum

Fyrr á árinu kom ný skýrsla frá starfshópi sem samgönguráðherra hafði skipað. Hún dró fram kosti framkvæmdarinnar og yfirlýsingar ráðherra í kjölfarið færðu mönnum vonir um að nú sé mönnum full alvara. Því miður virðist furðuleg tregða innan borgarmeirihlutans á að ráðast í verkið og er eins og sumir þar vilji ekki skilja mikilvægi og gagnsemi Sundabrautar. Að ógleymdum þeim tækifærum sem hún færir, bæði borgarbúum og íbúum vesturlands. Því miður virðast þessar úrtöluraddir ráða miklu.

Eins og áður sagði þá hefur hér í pistlum alloft verið vikið að mikilvægi Sundabrautar og þeim áhrifum sem hún getur haft til góðs. Í skýrslu starfshóp ráðherra er rifjað upp að það var strax árið 1975 sem farið var að huga að Sundabraut og öðru hvoru hefur mátt skilja ráðamenn þannig að málið væri að fara að komast á dagskrá. En menn hafa alltaf guggnað og því miður hefur það haft neikvæð áhrif á þá valkosti sem eru fyrir hendi. Ljóst er að hagkvæmasti kosturinn, landtaka á Gelgjutanga, er út af borðinu. Möguleikinn á að reisa þar 300 íbúðir er tekin fram yfir mikilvæga samgöngubót. Skammsýni Reykjavíkurborgar mun að lokum hafa mikinn aukakostnað í för með sér fyrir vegfarendur og skattgreiðendur.