c

Pistlar:

17. september 2019 kl. 21:44

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Álþjónustufyrirtæki í útrás

Álver á Íslandi sköpuðu um 228 milljarða króna í gjaldeyristekjur árið 2018, þar af námu innlend útgjöld alls 86 milljörðum króna. Á ársfundi Samáls í maí 2019, sem hér var fjallað um, kom fram að álverin höfðu keypt vörur og þjónustu hér á landi fyrir um 23 milljarða króna og var áætlað að raforkukaup næmu um 40 milljörðum króna. Þegar þessar tölur eru skoðaðar skilst vel af hverju áliðnaðurinn er talin vera þriðja stoðin undir efahag landsins ein þessu hefur alloft verið getið hér í pistlum. En þessar tölur einar og sér segja ekki alla söguna.

Sérhæfð fyrirtæki hafa sprottið upp hér á landi sem þjónusta álverin og hafa sum þeirra haslað sér völl utan landsteinanna. Í nýrri skýrslu sem unnin var af Íslandsstofu og Samál (Álklasinn á Íslandi - Útflutningstækifæri) kemur fram að fyrirtækin í geiranum eru af fjölbreyttum toga. Í skýrslunni er gerð heiðarleg tilraun til að kortleggja útflutningstækifæri fyrirtækja sem tengjast áliðnaðinum. Um leið er horft inn á við og greint hvar tækifærin liggja í þjónustu við þessi alþjóðlegu fyrirtæki hér á landi.

Helmingur með starfsemi á erlendum mörkuðum

Í skýrslunni er rætt við fulltrúa 33 fyrirtækja og stofnana sem tengjast áliðnaði. Á meðal þess sem fram kemur er að um helmingur viðmælenda er með starfsemi á erlendum mörkuðum, þar af sjö fyrirtæki sem þjónusta álver utan landsteinanna. Oftast eru það tímabundin verkefni á alþjóðlegum samkeppnismarkaði þar sem helsta samkeppnisforskot íslenskra fyrirtækja felst í því að hafa átt í viðskiptum við alþjóðleg fyrirtæki hér á landi.

Það er niðurstaða skýrsluhöfunda að þau fyrirtæki sem þjónusta áliðnað á Íslandi starfa í raun í alþjóðlegu starfsumhverfi. Reynslan hér skapar viðskiptasambönd, tengslanet og tækifæri erlendis og reynslan þar skapar aftur ný tækifæri innanlands og meira traust í garð álfyrirtækjanna hérlendis. Þekking og reynsla í áliðnaði á innanlandsmarkaði og alþjóðamarkaði vinnur því saman og virkar í báðar áttir.álkall

Fleiri vilja spreyta sig á erlendum markaði

Í skýrslunni kemur fram að um 25% þeirra fyrirtækja sem ekki stunda þegar útflutning hafa áhuga á að spreyta sig á erlendum markaði síðar. Flestir viðmælendanna segjast eiga samstarf við fyrirtæki í áliðnaði og telja að hægt sé að auka samstarf og samvinnu í geiranum. Í því felst sameiginleg þátttaka í sýningum, að hittast og deila reynslu og þekkingarsetur fyrir áliðnaðinn.

Skýrsluhöfundar benda á að það er áberandi hvað hvert fyrirtæki heldur vel utan um sambönd sín og reynslan sýnir að þau sækja einkum út á eigin vegum. Oft sé um klæðskerasniðnar lausnir að ræða þó að einnig gæti þess að fyrirtæki selji afurðir og búnað sem þau hafa þróað fyrir áliðnaðinn. Rætt er um mikilvægi þess að aukið samstarf og samvinna jafnt erlendis sem innanlands þurfi að þróast á réttum forsendum.

Flestir þeir sem rætt var við við gerð skýrslunnar nefna að sú þjónusta sem helst vanti í áliðnaði sé starfsfólk með sérþekkingu í framleiðsluferlum og rekstri iðnvera. Þróun í framleiðsluferli álvera, t.d. bætt nýting raforku, sjálfvirknivæðing og umbætur í umhverfismálum, krefst sérhæfðs starfsfólks með góða þekkingu á framleiðsluferli þeirra. Þessi þekking er mestu leyti fengin utan frá segir í skýrslunni.