c

Pistlar:

19. september 2019 kl. 21:46

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Borgarlínan - nýju Vaðlaheiðargöngin?

Eftir að hafa fylgst með hverri uppákomunni á fætur annarri í tengslum við framkvæmdir hér í Reykjavík er ekki nema von að menn hafi varann á sér gagnvart borgarlínuframkvæmdinni. Augljóslega er verið er að reyna að draga sveitastjórnarmenn annars staðar að af höfuðborgarsvæðinu með inn í framkvæmdina. Um leið er knúið á um að ríkisvaldið komi að málum til að tryggja fjármagn. Það er greinilegt að hvorki nágranasveitarfélögin né ríkisstjórnin er spennt fyrir málinu eins og það liggur fyrir núna.

En meirihlutinn í Reykjavík hefur haldið þannig á spilunum að nauðsynlegt er að grípa til róttækra aðgerða í umferðamálum borgarinnar. Umferð í Reykjavík er í ólestri nú í byrjun vetrar og menn horfa með skelfingu til þess þegar færð fer að versna og hálka og snjór tefja fyrir. Hvernig verður ástandið þá? Fluttar hafa verið fréttir af því að stjórnendur Strætó séu ráðþrota og það vegna til þess að gera nýrra áfangastaða. Þannig hefur Háskólinn í Reykjavík orðið að vettvangi hryllingssagna og Strætó virðist búin að gefast upp á verkefninu. Á álagstímum tekur það ökumenn klukkutíma að komast frá HR að Valsheimilinu en þar á milli er varla meira en 10 til 15 mínútna gangur. Hafa má í huga að það var gert ráð fyrir því í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024 að farið yrði í Öskjuhlíðargöng á skipulagstímabilinu og ráðist í að reisa HR á Öskjuhlíðarsvæðinu í ljósi þess. Þá blasir við að útilokað er að ráðast í framkvæmd eins og að leggja Miklubraut í stokk - eins og meirihlutinn er búinn að lofa - nema með því að búa til alvöru hjáleið eins og Öskjuhlíðargöng sannarlega eru.

En stjórnvöld í Reykjavík ákváðu að selja frá sér allar umferðabætur sem gætu gagnast bílum og nota þær í staðinn til þess að styrkja aðra samgöngukosti. Ekki er verið að amast við því hér að styrkja almenningssamgöngur og reiðhjólastíga en eitt og sér dugar það ekki. Bílum hefur haldið áfram að fjölga og aðsókn í strætó lítið aukist. Nýtingahlutfallið er dapurt og ljóst að illa gengur að fá fólk til að nota þennan samgöngumáta. Felast ekki í því varnaðarorð fyrir þá sem ætla að treysta á borgarlínuna til að leysa úr öllum málum?borgarlína

Hvað kostar borgarlína í raun og veru?

Hvort borgarlínan dugar til við að leysa úr þessum vanda getur í raun engin sagt til um en um leið og farið er af stað er búið að festa gríðarlega fjármuni í framkvæmdinni enda rætt um að fyrsti áfangi borgarlínunnar kosti um 70 milljarða króna. Í ljósi þess hvernig til hefur tekist með kostnaðaráætlanir í Reykjavík undanfarin misseri er ekki nema von að það setji hroll að væntanlegum samstarfsmönnum Reykjavíkurborgar í borgarlínuframkvæmdinni. Því má spyrja hvort hún verði hin „nýju“ Vaðlaheiðargöng? Rétt eins og átti við um Vaðlaheiðargöngin þá virðist hópur manna telja sig hafa hag af því að selja öðrum framkvæmdina og þannig allir óvissuþættir málsins metnir framkvæmdinni í hag. En í ljósi þess hvernig fór með Vaðlaheiðarframkvæmdina þá hljóta skattgreiðendur að geta farið fram á að vandaðar áætlanir og fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir áður en farið er af stað.

Nú þegar hafa komið fram sterk rök um að nær væri að tala um 100 milljarða kostnað við fyrsta áfanga borgarlínu. Þegar hugað er að umfang verksins og reynsluleysi af slíkum verkum hér á landi ættu menn að stíga varlega til jarðar. Á Alþingi í dag var umræða um nýjar gjaldtökur á höfuðborgarsvæðinu til að fjármagna nýjar framkvæmdir. Áður var borgarstjórnarmeirihlutinn búinn að gefa út að hann ætlaði að innheimta „innviðagjald“ til að fjármagna borgarlínu sem auðvitað mun leiða til hækkunar byggingarkostnaðar. Er nema von að menn hafi vara á sér þegar borgarlína er nefnd á nafn.