c

Pistlar:

24. september 2019 kl. 18:33

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ísland - ekki svo slæmt

Ísland er í sjötta sæti af 149 þjóðum þegar kemur að lífsgæðum og styrk félagslegra framfara samkvæmt Social Progress Imperative (SIP) listanum sem birtur var fyrir stuttu. Noregur trónir á toppnum, annað árið í röð en listinn er kunnuglegur þar sem öll Norðurlöndin eru í sex efstu sætunum. Einu undantekningarnar felast í því að Sviss skýst upp í þriðja sætið og Nýja Sjáland í það sjöunda.fáni

SIP-vísitalan segir til um hæfni samfélaga til að mæta grunnþörfum borgaranna, stuðla að og viðhalda lífsgæðum þeirra og veita einstaklingnum tækifæri til betra lífs. Social Progress Imperative er nú að gefa út í sjötta sinn niðurstöður á mælingum lífsgæða og styrk félagslegra framfara. Margoft hefur verið fjallað um þessa mælikvarða hér þar sem þeir byggjast á áhugaverðum kvörðum sem meðal annars víkja til hliðar hagvaxtarvísitölum og þeim sem byggja á landsframleiðslu. Ekki af því að það séu vond viðmið en þau eru takmörkuð. Áherslur á félagslegar umbætur og framfarir, sem taka til fleiri þátta en efnahagslegra verðmæta einna, hafa aukist verulega á síðustu árum og hafa aldrei verið mikilvægari.

Hin seinni ár hefur SIP samofið sig Heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna. Úttektin í ár tekur nokkuð mið af því hvar þjóðir heims standa þegar kemur að þeim. Með hliðsjón af þessum niðurstöðum má draga þá ályktun að sjálfbærnimarkmiðunum verði ekki náð fyrr en árið 2073.

Ísland - best í heimi!

Hugsanlega hafa Íslendingar vanist því að vera ofarlega á slíkum listum og eyða því meira púðri í að tala niður niðurstöðurnar en beinlínis gleðjast yfir þeim. Þess vegna hefur pistlahöfundur gjarnan skrifað hér undir formerkum þess að Ísland sé best í heimi. Auðvitað er það ofsagt en það er líka alrangt að tala um að ástandið sé slæmt hér þó auðvitað megi alltaf gera betur.

Við getum til dæmis glaðst yfir að Ísland er í öðru sæti meðal landa heims með lægstan ungbarnadauða. Næst eftir Japan sem stendur sig best. Þetta getum við meðal annars þakkað ljósmæðrum og læknum sem sérhæfa sig í fæðingarhjálp og nýburalækningum. Höfum í huga að mest alla 19. öldina var Ísland Evrópumethafi í háum ungbarnadauða.

Þá hefur verið upplýst að Ísland njóti þess heiðurs að skipa efsta sæti á heimslista yfir lífeyrisþega (GRI) 2019 sem samin hafi verið af Natixis Investment Managers og CoreData. Sviss fellur í annað sæti á eftir Íslandi en er ofar á listanum en Noregur, Írland og Nýja-Sjáland. Athygli vekur að Frakkland er í 22. sæti og Bandaríkin í því 18.

Svona í lokin má rifja upp að Ísland er friðsælasta land heims enn eitt árið samkvæmt friðarvísi Stofnunar um hagsæld og frið (Institue of Economics and Peace’s Global Peace Index) sem gefinn var út á dögunum. Ísland ber höfuð og herðar yfir aðrar þjóðir en fleiri stigum munar á Íslandi og Nýja-Sjálandi, sem er í öðru sæti, en nokkrum öðrum aðliggjandi þjóðum.