c

Pistlar:

29. september 2019 kl. 13:48

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Björgun og Sundabraut

Fyrirtækið Björgun hefur hætt starfsemi í Sævarhöfða í Reykjavík og undirbýr flutning að Álfsnesvík á Álfsnesi, gegnt Þerney innst í Kollafirði eins og kom fram í frétt Morgunblaðsins í vikunni. Björgun og Reykjavíkurborg undirrituðu 3. júní síðastliðin samkomulag um að Björgun fengi þessa lóð en miklar og kostnaðarsamar framkvæmdir fylgja því að fyrirtækið haslar sér völl á nýjum stað. Um er að ræða framkvæmdir á landi og umfangsmiklar landfyllingar enda Björgun ekkert venjulegt fyrirtæki. Það aflar meðal annars hráefnis fyrir steypustöðvar höfuðborgarsvæðisins. Þess vegna hefur verið talið heppilegt að fyrirtækið sé sem næst steypustöðvunum enda fylgja miklir efnisflutningar starfseminni. Þá erum við komin að kjarna málsins, tengingu félagsins við Sundabraut og skipulag flutninga innan borgarmarkanna.björgun1

Eins og kom fram í frétt Morgunblaðsins þá mun fyrirtækið Björgun verða staðsett nálægt áætlaðri legu Sundabrautar en engin vissa er fyrir hvenær hún kemur í gagnið. Ljóst er þó að framundan eru ný vandamál. Fyrirtækið mun setja upp efnisöflunarstöð sína á Álfsnesi og aka síðan með hráefnið út á Vesturlandsveg, í gegnum Mosfellsbæ og niður á Ártúnshöfða þar sem tvær steypustöðvar eru. Flutningaleiðir munu þannig lengjast verulega. Öllum má vera ljóst að það er heppilegast að steypustöðvar séu sem næst efnisnámum og efnisvinnslu því ella þarf að flytja efnið langar vegalengdi. Svona verður ástandið þar til Sundabraut verður að veruleika.

Greint hefur verið frá miklum áformum við samgönguframkvæmdir hér á höfuðborgarasvæðinu. Heildarkostnaður við samgönguframkvæmdirnar er um 120 milljarðar króna. Af því mun ríkið leggja fram 45 milljarða en hlutur sveitarfélaganna verður um 15 milljarðar. Þetta gerir 60 milljarða, sem er sama upphæð og vegatollar sem vegfarendur greiða fyrir not af nýjum samgöngumannvirkjum eiga að skila. Með þessu á að stytta umferðatíma um 30 til 60 mínútur ´ahöfuðborgarsvæðinu.

Hvar er Sundabraut?

Nú blasir við að Sundabraut er ekki á listanum yfir fyrirhuguð verkefni, hins vegar verður við útfærslu framkvæmda sérstaklega hugað að greiðri tengingu hennar inn á stofnbrautir. Augljóslega er eftir að taka ákvörðun um þann þátt sem aldrei hefur náðst sátt um, nefnilega legu hennar yfir sundin út í Gufunes. Hætt er við að það taki langan tíma að fá niðurstöðu í því máli. Hér hefur margoft verið vikið að mikilvægi Sundabrautar en rétt er að benda á nokkra þætti til viðbótar en dæmið sem var rakið hér að framan minnir okkur á mikilvægi framkvæmdarinnar.

Dæmi um kosti Sundabrautar eru ótalmargir en mestu skiptir að hún styttir vegalengdina frá miðbæ Reykjavíkur upp á Kjalarnes um sjö til níu kílómetra. Fer það eftir því hvaða valmöguleiki yrði fyrir valinu. Nokkra ára gamlar áætlanir gerðu ráð fyrir því að umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu minnki um 9 til 10% á ári. Sömuleiðis var áætlað að tími vegna umferðartafa á háannatíma á höfuðborgarsvæðinu minnki töluvert meira en þessar tölur segja til um.björgun2

Sundabraut bætir samgöngur á milli Reykjavíkur og Grafarvogs og Reykjavíkur og Kjalarness. Þá bætir hún tengingu við Vestur– og Norðurland og dregur úr umferð í gegnum Mosfellsbæ en hún virðist einmitt ætla að aukast nú fyrst um sinn. Þá blasir við að hún myndi draga úr umferðartöfum á mörgum stöðum í Reykjavík, minnka mengun og auka umferðarrýmd til muna. Að ógleymdu því öryggi sem fellst í lagningu annarrar stofnbrautar út úr Reykjavík.