c

Pistlar:

7. október 2019 kl. 17:04

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Haglýsing í október

Flest bendir til þess að það verði enginn hagvöxtur á Íslandi á þessu ári. Sé leiðrétt fyrir fólksfjöldaþróun má gera ráð fyrir samdrætti. Færri krónur á hvern landsmann og því talsverðar breytingar að eiga sér stað í íslenska hagkerfinu. Versnandi efnahagsþróun hefur komið niður á bæði heimilum og fyrirtækjum, neysla dregst saman sem síðan hefur aftur áhrif á hagvöxt. Áhrifin birtast meðal annars í auknu atvinnuleysi og samdrætti í tekjum. Hagstjórn næstu missera snýst um að forða því að þetta verði spíral niður á við og samdrátturinn meiri og varanlegri fyrir vikið.

Nú háttar hins vegar þannig til að peningastefnunefnd Seðlabankans getur lækkað stýrivexti bankans og gerir það nokkuð samviskusamlega. Á sama tíma hafa stjórnvöld aðstöðu til að nýta ríkisfjármálin til að vinna á móti niðursveiflunni. Stjórnvöld hafa tækifæri til að haga opinberum framkvæmdum þannig að það skapi eftirspurn á byggingamarkaði sem virðist þurfa á slíku að halda. Framkvæmdir við Landspítalann eru reyndar af þeirri stærðargráðu að þær einar og sér ættu að halda verktakamarkaðinum heitum þar til vegaframkvæmdirnar miklu á höfuðborgarsvæðinu hefjast.fánar

Íslenskir neytendur eru varfærnari nú en áður. Hægst hefur verulega á kortaveltu Íslendinga og benda gögn Seðlabankans til þess að samdráttur milli ára í ágúst sé sá mesti síðan í júní 2013. Fram kemur í tilkynningu Rannsóknaseturs verslunarinnar að innlend verslun hafi staðið í stað að nafnvirði í ágúst. Þegar verðbólga er tekin með í reikninginn er um samdrátt að ræða. Minni ferðalög Íslendinga (14% samdráttur milli ára) hafa þó líklega leitt til meiri verslunar hér heima. Umferð er að dragast saman og sömuleiðis eldsneytiskaup.

Útlán að dragast saman

Það má sjá samdrátt víða. Afkoma fyrirtækja í byggingariðnaði er farin að dragast saman eftir mikinn vöxt frá árinu 2011. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Creditinfo á rekstrarniðurstöðum þeirra byggingarfyrirtækja sem
skilað hafa ársreikningi fyrir árið 2018 eins og kom fram í Morgunblaðinu í síðustu viku. Um leið hafa útlán innlánsstofnana til fyrirtækja minnkað um 52% á fyrstu átta mánuðum ársins. Fyrir vikið er líklegt að fyrirtæki leiti meira á skuldabréfamarkaðinn í von um að fjármagna sig þannig eins og við sáum í nýlegu skuldabréfaútboði Haga. Það verður áskorun fyrir lífeyrissjóði landsins að standast 3,5% ávöxtunarkröfuna í þessu ástandi.

Má ekki ofmeta viðsnúninginn

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, benti á það fyrir stuttu að við þessar aðstæður sé hættulegt að ofmeta væntan viðsnúning hagkerfisins. Hann telur sig sjá merki þess í spám sem undanfarið hafa verið lagðar til grundvallar ákvarðanatöku. Í þessum spám sé gert ráð fyrir að eftir tiltölulega mildan samdrátt í hagkerfinu taki hagvöxtur nokkuð kröftuglega við sér á næsta ári. „Forsendur þessa efnahagsbata sem spárnar gera ráð fyrir eru býsna bjartsýnislegar og líklegt hlýtur að teljast að frekari hagstjórnaraðgerða sé þörf ef viðsnúningur hagkerfisins á að vera hraður hér á landi á næstunni,” segir Ingólfur í grein sinni í Viðskiptablaði Morgunblaðsins.

Hafa verður í huga að laun á vinnustund eru há hér á landi í alþjóðlegum samanburði. Laun hafa á síðustu árum hækkað langt umfram innlendan framleiðnivöxt og laun í löndum helstu keppinauta innlendra fyrirtækja. Samkeppnisstaðan hefur því versnað til muna á við önnur lönd. Nýlegt samkomulag Icelandair við flugmenn sína um launafrystingu staðfestir að það er skilningur á því meðal launamanna. Líklega er Icelandair það félag sem landsmenn munu horfa til af hvað mestum áhuga á næstunni.

Grunnstoðir hagkerfisins eru ágætlega traustar, hagstjórnin viðameiri og fleiri útflutningsgreinar ættu að tryggja að sveiflur verði minni og því vonandi að samdrátturinn vari ekki lengi. Ómögulegt er hins vegar að segja hvaða áhrif þróun mála á erlendum mörkuðum hefur. Þar verðum við að vona það besta.