c

Pistlar:

11. október 2019 kl. 12:03

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Áhugaverð fyrirtæki: Orf og Nox Medical

Á þessum vettvangi hafa stundum verið raktar velgengnissögur úr íslensku atvinnulífi. Sem betur fer finnast þær víða og sjálfsagt eru þær fleiri en margir halda. Fyrir ekki löngu síðan voru nokkrar líkar sögur tíundaðar og tímabært að koma með fleiri. Hér í dag er rakin stuttlega saga líftæknifyrirtækisins Orf sem hefur á til þess að gera skömmum tíma skapað áhugvert vöruframboð og svo hinsvegar lækningafyrirtækið Nox Medical sem byggir á svefnrannsóknum sem hafa verið stundaðar hér á landi um langt skeið en nú vonast margir til þess að fyrirtækinu sé að vaxa ásmegin.

Líftæknifyrirtækið Orf hefur styrkt sig verulega undanfarin ár en það er með mikla starfsemi nálægt Grindavík. Fyrirtækið beitir líftækni í framleiðslu hágæða sérvirkra próteina fyrir læknisrannsóknir, húðvörur og líftækniiðnað. Með þróun og nýtingu á einstakri framleiðsluaðferð sinni, sameindaræktun í byggi, stefnir fyrirtækið að enn frekari uppbyggingu sem hátæknifyrirtæki á alþjóðlegum markaði. Fyrir nokkrum árum voru framin skemmdaverk á gróðurhúsi félagsins af villuráfandi umhverfisverndarsinnum en slíkt háttarleg sést sem betur fer ekki lengur.orf

Orf hagnaðist um 161 milljón króna á síðasta ári en það er um fjórfalt meiri hagnaður en árið á undan. Tekjur félagsins námu 1,6 milljörðum króna og jukust um 30 prósent á milli ára. Um 80 prósent teknanna koma erlendis frá. Eignir Orfs námu 1.960 milljónum króna í lok 2018 og eigið féð 1.300 milljónum.

Hluthafar í félaginu eru 123 talsins. Stærstu hluthafarnir eru FIVE Invest með 35,6 prósenta hlut, Zimsen með 13,8 prósenta hlut og Torka með 9,9 prósenta hlut. Í byrjun árs gekk Orf frá 520 milljóna króna langtímafjármögnun frá Arion banka í samstarfi við Evrópska fjárfestingarsjóðinn. Verður fjármagnið meðal annars nýtt til að sækja inn á Asíumarkað og Bandaríkjamarkað. Helsta tekjulind Orfs er húðvöru­línan Bioeffect.

Svefnrannsóknir

Saga svefnrannsókna á Íslandi nær aftur til fyrirtækisins Flögu og frumkvæðis Helga Kristbjarnarsonar læknis sem stofnaði Flögu 1994. Fyrirtækið var í lok síðustu aldar leiðandi í að þróa vörur fyrir svefnsérfæðinga til að greina svefn með aðstoð tölvutækninnar og ég sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu tók þátt í að heiðra frumkvöðulsanda félagsins. Stofnendur fyrrnefndra fyrirtækja störfuðu hjá Flögu þar til starfsemi hennar var flutt úr landi árið 2005.

Nox Medical hefur skilað þokkalegum hagnaði undanfarin ár en félagið vex hratt. Greint hefur verið frá því að Nox Medical og systurfélag þess, Fusion Health, sem rekið er í Bandaríkjunum, hafi sameinast undir merkjum Nox Health. Reiknað er með að velta fyrirtækisins á þessu ári verði rúmir fjórir milljarðar króna. Starfsmenn eru 200, þar af rúmlega 50 á Íslandi. Í Fréttablaðinu var greint frá því að eftir sameininguna sé sameinað félag algerlega skuldlaust, rekið með hagnaði og jákvæðu veltufé frá rekstri. Þessi sterka staða gefur fyrirtækinu mikið frelsi til að sækja hratt fram, takast á við ný tækifæri á markaðnum og bregðast við breytingum.nox

Ekki er langt síðan greint var frá því að Nox Medical hefði hlotið 50 milljóna króna styrk úr Tækniþróunarsjóði til að þróa og markaðssetja á alþjóðamarkaði þráðlausan snjallskynjara sem mælir heilarit og súrefnismettun í svefni Snjallskynjarinn er mikilvæg viðbót við þann tækjabúnað sem fyrirtækið er með á markaði til að gera svefnmælingar heima fyrir. Hingað til hafa heimamælingar verið gerðar án heilarits og því ekki hægt að greina nákvæmlega uppbyggingu og gæði svefns á einfaldan hátt. Því hefur fólk þurft að dvelja næturlangt inni á sjúkrahúsi til að mæla heilarit í svefni og afar tímafrekt er að lesa úr niðurstöðunum.

Samhliða sameiningunni var hlutafé aukið og framtakssjóður í rekstri Alfa framtaks eignaðist 13 prósenta hlut.