c

Pistlar:

13. október 2019 kl. 13:58

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Útskýringar og loftslagsbreytingar

Það er ekki langt síðan að margir töldu að stríðið í Sýrlandi mætti að hluta til rekja til loftslagsbreytinga sem síðustu misseri hafa orðið að hamfarahlýnun í munni þeirra háværustu. Nú virðist tilfærsla Bandaríkjaforseta á 1.000 hermönnum í þessum ólgusjó átaka í Miðausturlöndum skipta sköpum. Báðar þessar kenningar útskýra lítið þá flóknu atburðarrás sem stuðlaði að stríðinu í Sýrlandi og hefur haldið því við í að verða bráðum átta ár. En eins og svo oft áður kjósa menn að beita einföldum þegar það hentar og skeyta þá lítið um staðreyndir málsins. Það er einn maður sem ber höfuðábyrgðina á átökunum og hve mjög þau hafa dregist á langinn. Það er Bashar Hafez al-Assad forseti Sýrlands og yfirmaður sýrlenska hersins og leiðtogi Ba'ath-flokksins. Hann er stendur nú fyrir nýrri herferð, studdur sem fyrr af Rússum og Írökum, og er afkastamestur í þessu hrjáð landi þegar kemur að drápum og ofbeldi. En kannski að þetta sé of einföld skýring til að grípa fyrirsagnirnar.loft

Villta vinstrið í loftslagsmálum

Í Silfrinu áðan talaði fulltrúi Samfylkingarinnar, Guðmundur Andri Thorsson, eins og hann væri fulltrúi vísindanna þegar kemur að loftslagsmálum. Þeir sem væru ekki lík sjónarmið og hann séu þar af leiðandi einhverskonar afneitunarsinnar, fólk sem skeytir engu um rök og vísindi og stuðlar þannig að bráðri ógn fyrir mannkynið allt. Samt er það svo að Guðmundur Andri og flestir aðrir sem taka þátt í umræðunni hafa ekki mikla þekkingu á vísindum en þurfa samt sem áður að taka afstöðu til vísindalegra gagna sem eru undirstaða allrar loftslagsumræðunnar.

Hvað eftir annað hefur verið reynt að búa til sameiginlegan þekkingargrundvöll, til dæmis með loftslagsskýrslum Sameinuðu þjóðanna, en eftir sem áður eru margir sem telja sig hafa rétt til að efast og koma með mótrök. Ekki endilega hafna gögnunum en efast um ályktanirnar. Að sumra mati starfa vísindin þannig nema menn vilji að einhverskonar trúarsannfæring leysi skilning af hólmi. Í þessu eins og svo mörgu öðru gerist það að allt of einfaldaðar og jafnvel rangar fullyrðingar leiða til þess að þeir sem ekki hafa skilning á vísindum telja að að þeir hafi vit á vísindum. Í málum tengdum hnatthlýnun eru mörg dæmi um þetta. Hafi Guðmundur Andri vakið upp efasemdir um vísindalegan skilning á loftslagsbreytingum þá batnaði það ekki þegar Ségolène Royal, fyrrverandi umhverfis- og orkumálaráðherra Frakklands og frambjóðandi sósíalista til forseta árið 2007, mætti í Silfrið. Furðulegt að hlusta á samlíkingar hennar við „villta vestrið“ þegar kom að lausn mála í dag. Þar talaði augljóslega fulltrúi villta vinstrisins í loftslagsmálum og blasir við að nálgun hennar er bara framhald af andkapítalískri og andbandarískri umræðu sem sósíalistar hafa ástundað lengi. Ekkert nýtt í þessu. Augljóslega er hún illa fær um að nálgast þessi úrlausnarefni með opnum huga enda er hún umdeild meðal umhverfissinna.

Orsök og afleiðing

Pistlaskrifari reynir eins og margir aðrir að setja sig inn í málin og reyni að lesa sér til um það sem er til umfjöllunar. Er meðal annars meðlimur í nokkrum umræðuhópum á Facebook um loftslagsmál en þar fer oft fram fjörug umræða. Þá les ég oft heimasíðu Ágústs H. Bjarnasonar verkfræðings sem lagt hefur sig eftir hinum vísindalega þætti málsins. Margir telja hann afneitunarsinna og ég minnist þess ekki að hafa heyrt honum boðið í umræðu um málin. Fróðlegt væri til dæmis að heyra hann eiga orðastað við bókmenntafræðinganna sem hafa sig mikið í frammi og hafa beinan aðgang að Ríkisútvarpinu. En Ágúst hefur bent á skrif efir dr. Richard Lindzen sem hélt fyrirlestur í London fyrir nokkrum misserum á vegum Global Warming Policy Foundation: „Global Warming for the Two Cultures“, sem Ágúst þýðir: „Hnatthlýnun fyrir hina tvo menningarheima“. Lindzen hefur efasemdir um að útskýringin á að hlýnun lofthjúpsins undanfarna áratugi stafi að mestu af aukningu koltvísýrings (CO2) úr 0,03% í 0,04% sé rétt. Í raun sé slík skýring allt of mikil einföldun og til þess fallin að rugla fólk í ríminu.

Lindzen fjallar einnig um þá staðreynd að hækkun lofthita frá Litlu Ísöldinni svokölluðu (frá 1300 til 1900) nemur ekki meira en einni gráðu. Hann vekur athygli á því að þessi hækkun hitastigs sem mælst hefur, og menn séu nokkuð sammála um, sé minni en tölvulíkön IPCC hafa spáð. Þetta er mikilsvert að hafa í huga. Að á sama tíma og spár hafa brugðist hafa menn gefið í með tungutakið og tala um nú um hamfarahlýnun! Víða erlendis hafa verið mótmæli undanfarið þar sem mótmælendur krefjast þess að lýst sé þegar í stað yfir neyðarástandi og allt jarðefnaeldsneyti verði bannað frá og með 2025! Ef það verður gert verður sannarlega þörf á að lýsa yfir neyðarástandi!

Fylgni segir ekkert um orsakasamband, það vita flestir sem eitthvað hafa komið að því að rýna í töluleg gögn. Eins og bent hefur verið hér áður í pistlum þá er engin ástæða til að afneita breytingum, við vitum hins vegar ekki fyrir víst um orsakasamband né afleiðingar. Á meðan er ráðlegt að haga viðbrögðum af skynsemi.