c

Pistlar:

26. október 2019 kl. 11:59

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Vínaróperan - stóriðjuver listarinnar

Það er eftirtektarvert að skoða hin mikilfenglegu húsakynni sjálfrar Vínaróperunnar þar sem hún er staðsett í hjarta Vínar. Þetta risavaxna hús er eins og stóriðjuver ef notast má við svo óheflaða samlíkingu. Í húsinu vinna um eitt þúsund starfsmenn og sýningarnar eru keyrðar áfram nánast daglega frá lokum september fram í júlí. Dagskráin er svo þéttriðin að gæta þarf að öllu verklagi þegar verkefni eru skipulögð. Aldrei er sama sýning tvo daga í röð sem leggur vitaskuld mikið álag á þá sem sjá um sviðið og þegar forvitnir ferðamenn kíktu þarna við um kl. 14 var fjöldi fólks að endurraða sviðinu fyrir sýningu kvöldsins. Mikið gekk á og vinnuferlar augljóslega þaulskipulagðir. Þetta er augljóslega mikill rekstur en ríkið stendur undir um það bil helmingi hans þó stöðugt sé barist við að minnka það hlutfall. Óperan leggur mikið á sig að kynna tónlistina fyrir börnum og söngskólar eru reknir í tengslum við starfsemi hennar.oper4

Óperuhúsið rúmar 1.709 gesti og kostar 35 til 90 evrur á sýningu, fer eftir gæðum sæta. Frá fornu fari hefur þeim fátækari verið ætlað rými í húsinu en tvær efstu raðirnar eru fyrir stæði og í þau er byrjað að selja einum og hálfum tíma fyrir sýningu. Miðaverð í þessi stæði var nýlega hækkað úr 4 evrum upp í 10 evrur, augljóst merki um verðbólgu í menningunni. Oftast myndast strax raðir þegar miðarnir eru seldir en hver og einn má bara kaupa miða fyrir sjálfan sig. Fyrir utan óperuna má gjarnan sjá ágenga sölumenn sem selja miða til þeirra sem ekki hafa haft tíma til að verða sér út um þá á opinberum sölustöðum. Þetta eru heldur ótraustir sölumenn en fjöldi þeirra bendir til þess að þeir hafi eitthvað upp úr krafsinu. Starfsmaður óperunnar hristi höfuðið þegar hann var spurður út í framferði sölumannanna, sagði að þeir næðu alltaf í miða með einhverjum hætti og seldu þá með álagi til þeirra, sem vegna ókunnugleika eða skipulagsskorts, yrðu að treysti á þá. Þetta er ágeng sölumennska en maður tekur fljótlega eftir því að þessir tónlistarbraskarar eru um allan miðbæinn og falbjóða miða á hinar aðskiljanlegustu sýningar. Vín er sannarlega borg tónlistarinnar og út um allan bæ eru tónlistaviðburðir, sumir augljóslega settir upp til þess að bjóða ferðamönnum að njóta menningarinnar og eyða nokkrum krónum.oper2

Don Giovanni fyrsta verkið

En aftur að óperuhúsinu sjálfu. Húsið var vígt 1869 eftir að hafa verið átta ár í byggingu. Vínarbúar voru ekki á eitt sáttir um framkvæmdina, þó byggingin væri augljóslega byggð um efni fram og að hluta með samskotum vildu flestir hafa hana reisulega og helst reisulegri en hún birtist fullbyggð þó hún gnæfi um 65 metra upp í loftið. Það varð mörgum til skapraunar að lega vegarins fyrir framan hana var aðeins of há sem dró úr myndugleika byggingarinnar. Stíllinn er einhverskonar nýklassík og henni er ætlað gott rými við götuna, rétt hjá helstu höllum keisarans. Byggingin er eftirtektarverð og myndarleg en ekki endilega fallegasta bygging Vínar enda af miklu að taka þar. Opnunarverkið var Don Giovanni eftir Mozart. Vel við hæfi en þess má geta að með Töfraflautunni fékk þýskumælandi fólk loksins óperu á eigin tungumáli.

Verulegar skemmdir í styrjöldinni

Í lok seinni heimstyrjaldarinnar köstuðu flugvélar bandamanna sprengjum á óperuhúsið og brann þá stór hluti sviðsrýmisins og söngsalarins. Mörgum var líka mikil eftirsjá í búningasafninu sem brann í leiðinni auk margra fágætra listaverka.

Eftir stríð dróst að gert væri við bygginguna enda Austurríkismenn að jafna sig eftir samfylgdina við Hitler og hernám Sovétmanna. Þeir síðarnefndu voru nokkuð áhugasamir um endurbyggingu óperunnar. Það var þó ekki fyrr en í nóvember 1955 sem óperan opnaði aftur og var þá bandaríski utanríkisráðherrann John Foster Dulles, viðstaddur enda hernámslið Sovétmanna á braut. Verk eftir Beethoven þótti viðeigandi við opnunina en þar eru stórvirki óperusögunnar sett á svið með reglubundnu millibili og öll stórmenni söngsins hafa stigið þarna á svið.oper3

Stórball Vínar

Í Vín er mikil saga, gamlar byggingar og fornar aðalsættir. Hirðlíf er enn til, aðalsfólk lumar á gömlum peningum og merkilegt að sjá að einu sinni á ári er haldið sannkallað stórball Austurríkis í óperunni. Þá er miðinn seldur á 315 evrur og fæst bara aðgangur að dýrðinni fyrir það verð. Ef fólk vill veitingar og frekari þjónustu verður að borga fyrir það. Allir verða að mæta í kjól og hvítt og síðkjólum og því augljóslega ekki á allra færi að taka þátt. Þrátt fyrir þetta er slegist um alla 5.000 miðanna sem seldir eru. Það þarf ekki að hafa mörg orð um hátíðleikann, húsinu er snúið við, allir salir skreyttir og öll sæti tekin úr söngsalnum og honum þannig breytt í risastórt dansgólf. Ungsveinar og ungpíur stíga þar dans eftir ritúali og ríkisstjórnin og öll helstu fyrirmenni Austurríkis mæta á þess skrautsýningu nútímans. Limósíur eru í röðum, múgur og margmenni streyma að og fjölmiðlar keppast við að birta myndir. Smartland þeirra Austurríkismanna ærist!oper5

Fagmennskan tekur við

En umgjörð óperunnar hefur breyst í gegnum tíðina og óperuunnendur þurfa ekki lengur að sitja undir átta klukkustunda verkum sem keisarinn hefur samið! Fagmennskan hefur haldið innreið sína og líklega hefur enginn átt stærri hlut að máli þar en tónskáldið Gustaf Mahler sem var var óperustjóri lengi um þarsíðustu aldamót. Mahler breytti ýmsu í rekstri og umgjörð óperunnar, svo sem að loka salnum þegar óperan hófst og slökkva ljósin. Nokkuð sem okkur þykir sjálfsagt í dag en áður fór fólk mikið í óperuna til þess að sýna sig og sjá aðra og varð það til þess að talsvert ráp var inn og út úr salnum og stundum erfitt að halda einbeitingu listamanna og áhorfenda. Mahler stöðvaði það, lét slökkva ljósin og læsa dyrum. Þeir sem koma of seint verða að horfa fram að hléi á skjái í hliðarsal, ekkert má trufla einbeitingu listamanna sem stíga á svið í Vínaróperunni.