c

Pistlar:

29. október 2019 kl. 10:39

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Íslandsbankamálið: Fyrirtæki í leit að tilgangi

Það er tvennt sem hefur vakið sérstaka athygli í tengslum við þau áform Íslandsbanka að beita fjölmiðla sérstökum viðskiptaþvingunum ef starfsemi þeirra fellur ekki að samfélagsmarkmiðum bankans. Í fyrsta lagi sú staðreynd að bankinn skuli telja sér skylt og jafnvel nauðsyn að grípa til slíkra aðgerða sem fela í sér að hann í krafti fjármagns hyggst knýja aðra til að ganga til móts við samfélagsmarkmið sín. Skiptir engu þó hann reyni nú að draga í land, ásetningurinn er augljós. Í öðru lagi að svo margir skuli vera tilbúnir að verja aðgerð bankans þó hún sé í augljósri andstöðu við þau grunnviðmið sem við byggjum samfélag okkar á, annars vegar frelsi fjölmiðla og hins vegar tjáningarfrelsi.islands

Þjóðfélagsverkfræði banka

Ef við lítum fyrst nánar á fyrra atriði þá vekur aðferðafræði bankans athygli. Gott og vel, hann telur sér skylt að setja sér samfélagsleg markmið sem þar að auki er ætlað að falla að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Það má reyndar telja fullvíst að þar á bæ er getur tæpast verið stuðningur við þá útfærslu að leggja til vinnubrögð sem geta takmarka tjáningarfrelsi með einum eða öðrum hætti. Skiptir engu þó það sé sett fram í þeim tilgangi að innleiða stefnumótun af þessu tagi en látum það liggja milli hluta. Viðbrögðin hér heima skipta mestu.

En það er sérlega forvitnilegt að sjá að Íslandsbanki hyggist taka að sér einhverskonar þjóðfélagsverkfræði og það án þess að upplýsa í raun um við hvaða viðmið eða vinnubrögð verður stuðst eins og kom fram í harðorði ábendingu formanns Blaðamannafélags Íslands. Gagnsæi ákvörðunarinnar er ekkert og er það ekki til þess að vekja traust á framkvæmdinni. Þeir sem fyrir henni verða virðast þannig verða að treysta á verkferla bankans án þess að hafa neinn skilning á því hvernig þeir virka. Það gengur augljóslega ekki upp og fráleitt að fyrirtæki í opinberri eigu hyggist fara þessa leið. Ef markmiðið væri ekki svona „göfugt“ myndu að sjálfsöguð allir fordæma aðferðafræðina.

En þessi ákvörðun bankans vekur einnig upp spurningar um hvert sé hlutverk fyrirtækja í samfélaginu. Það er eðlilegt að fyrirtæki setji sér markmið um hvernig þau vilji haga sínum innri málum. Slík stefnumótun eða sýn hlýtur að virka best innávið og birtast meðal annars í mannauðsstefnu og samfélagslegum markmiðum eins og stjórnendur fyrirtækisins telja best henta. Ef vel tekst til geta fyrirtæki verið jákvæð fyrirmynd, sér og umhverfinu til heilla. En stundum er eins og það sem mætti kalla eðlileg sýn verði að trúarsannfæringu (upp á ensku væri þetta orðað þannig að vision verði að mission). Það er erfitt að sjá að það komi heim og saman við heilbrigðan fyrirtækjarekstur að fyrirtæki fari að helga sig tilteknum baráttumálum og beiti afli sínu til að knýja aðra til að taka þau upp óháð öðrum forsendum. Eiga ekki fyrirtæki fyrst og fremst að skila góðri vöru, skapa fólki góða vinnu og skil arði til þeirra sem vilja fjárfesta í rekstrinum? Erum við hugsanleg að sjá ástand þar sem stjórnendur taka fyrirtæki yfir og breyta þeim eftir eigin duttlungum? Það sjá allir að slíkt framferði gengur ekki til langframa, kjarnarekstur fyrirtækisins situr þá á hakanum og smám saman hættir fyrirtækið að standast samkeppni og fjarar út og allir verða verr settir. Sýnir umræðan núna að stjórnendur Íslandsbanka eru búnir að gleyma tilganginum með starfseminni?

Tjáningarfrelsi - forsenda frelsis

Um frelsi fjölmiðla og tjáningarfrelsi almennt má hafa mörg orð. Augljóslega verða fjölmiðlar aldrei sannfærandi nema þeir hafi frelsi til starfa og þar er ritstjórnarlegt frelsi mikilvægast. Grunnstoð þeirrar starfsemi er tjáningarfrelsið sem er að mörgu leyti forsenda frelsis. Án tjáningarfrelsis verður annað frelsi ekki varið, tómt mál er að tala um mannréttindi þar sem tjáningarfrelsi er ekki við lýði. Eigi að síður virðast fjölmargir vera tilbúnir að setja því augljósar skorður eins og að gera fjölmiðlamönnum skylt að starfa eftir einhverju skapalóni jafnréttistrúboðsins.

Ef við tökum jafnrétti sérstaklega fyrir þá er augljóst að löggjafinn á Íslandi hefur um langt skeið lagt áherslu á að tryggja það. Það hefur ekki heyrst í þessari umræðu að talið sé þörf á sérstökum breytingum þar. Þvert á móti hefur því verið haldið fram að í lögum um fjölmiðla séu svo sterk jafnréttisákvæði að þau ein og sér styðji aðgerðir Íslandsbanka! Það eru fráleit rök en vissulega má velta fyrir sér hvort löggjafinn hafi ekki gengið of langt í að reyna að jafnsetja umræðuna í fjölmiðlum eftir kyni? Tjáningarfrelsi hvers og eins er jafn mikið þó að blaðamaður hringi ekki í viðkomandi vegna fréttaöflunar. Blaðamenn verða að hafa frjálsar hendur um það við hverja þeir tala og meta það út frá þörfum umfjöllunar sinnar hverju sinni. Ekki er skáldsagnahöfundum gert að tryggja jafnrétti í skáldskap sínum? Hefur hann minna samfélagslegt gildi fyrir vikið?

Jafnrétti styrkir samfélagið

Engum blöðum er um það að fletta að jafnrétti styrkir samfélagið. Um það er og hefur verið sátt og því spurning hvort aðgerðir eins og þær sem Íslandsbanki boðar séu til þess fallnar að efla þá sátt? Jafnrétti tryggir ekki jafnstöðu, það er alltaf eitthvað sem orsakar að fólk stendur ólíkt að vígi og ákveður að gera hlutina með ólíkum hætti. Ef við skoðum tölur Hagstofunnar sést að á síðasta ári voru 6.236 karlar í háskólanámi en 11.533 konur. Þó að það geti skýrt eitthvað að rótgrónar kvennastéttir eins og kennarar, leikskólakennarar og hjúkrunarfræðingar hafi færst upp á háskólastig þá er svo langt um liðið að það skýrir ekki breytinguna. Nú eru til dæmis umtalsvert fleiri konur í læknanámi. Þá blasir við að miklu fleiri konur ljúka meistaragráðum. Við sjáum enda breytinguna í stjórnsýslunni þar sem konur eru að verða í meirihluta í sífellt fleiri störfum. Lætur nú nærri að um 70% þeirra sem starfa í opinberri stjórnsýslu séu konur. Kallar það á viðbrögð?

Um allt samfélagið sjáum við kynjaskiptinu sem í sumum tilfellum virðist vandasamt að sjá hvort og hvernig eigi að bregðast við. Við fiskveiðar eru 91% starfsmanna karlar, í byggingarvinnu mun þetta hlutfall vera 94%. Um leið sést að í fræðslustörfum eru 77% konur og í heilbrigðisgeiranum er hlutfallið 78%. Störf sem eru erfiðari líkamlega, hættulegri og fjarri heimili virðast falla körlum í skaut.

Sú barátta sem Íslandsbanki stendur fyrir virðist vera barátta þeirra kvenna sem fyrir löngu eru búnar að brjóta glerþakið. Af hverju þeim þykir ekki nóg að gert verða þær að útskýra. Það er þó hægt að taka undir með Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins, sem hefur bent á að hugsanlega væri nær að líta kvenna í láglaunastörfum og þeirra sem búa við fátækt. Væri það ekki verðugara baráttumál í samfélagi sem vill stuðla að jöfnuði?