c

Pistlar:

14. nóvember 2019 kl. 14:11

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Eþíópía: Bætt vistkerfi og meiri hagvöxtur

Við höfum verið minnt á það undanfarið að Afríka hefur mörg andlit. Það kemur sjálfsagt ekki neinum á óvart að hún sé tengd við spillingu en ekki er síður erfitt að fá áreiðanlegar upplýsingar og fréttir þaðan. Lýðræði stendur víða veikum fótum, stofnannauppbygging vanþróuð og efnahagur og atvinnulífið veikburða. Afríka er næst fjölmennasta heimsálfan en þar býr ríflega milljarður manna í 56 löndum. Lætur nærri að sjöundi hver jarðarbúi búi þar. Afríka er ung álfa og þar fjölgar hraðar en í öðrum álfum og flest bendir til þess að hún muni skipta meira máli í heimsbúskap framtíðarinnar.

Um langt skeið hafa menn vonað að Afríkubúar nái vopnum sínum og geti styrkt og þróað þjóðfélög sín og bætt þannig hag þegna sinna. Á þessum vettvangi hefur verið fjallað um ýmis lönd og stjórnendur Afríku en álfan fóstraði einn merkasta stjórnmálaleiðtoga síðustu aldar, Nelson Mandela, en hér var nokkrum sinnum fjallað um hann. Skammt frá var hins vegar einn ómerkasti leiðtogi síðustu aldar, Robert Mugabe, sem einnig var fjallað um nokkrum sinnum í pistlum. Það dregur fram andstæðu álfunnar að skoða stjórnarfarið í Marokkó, á norðvesturströnd Afríku, þar sem konungurinn einn ríkir. Múhameð VI (Mohammed VI), hefur mikil völd enda getur hann gefið út konunglegar tilskipanir sem hafa lagagildi og hann getur leyst þingið upp án þess að þurfa að óttast eftirmála. Þetta sýnir að stjórnarfar í álfunni er oft heldur ólíkt.

Eþíópía er elsta sjálfstæða ríki Afríku og pistlahöfundur fékk fyrst áhuga á landinu þegar hann las um innrás herja Mussolini á Abbesíníu (Eþíópíu) þegar Haile Selassie Eþíópíukeisara var steypt af stóli. Mussolini fór sneypuför en segja má að alla 20. Öldina hafi þjóðin glímt við afleiðingar þeirrar upplausnar sem fylgdi. En hér var ætlunin að halda áfram að skoða þær breytingar sem hafa átt sér stað í Eþíópíu en Abiy Ahmed, forsætisráðherra landsins fékk friðarverðlaun Nóbels í ár en eins og var bent á í pistli við það tækifæri þá hafa þau undanfarið fallið mörgum Afríkubúum í skaut.eþíop

Gríðarlegt átak við endurheimt vistkerfis

Undanfarið hefur víða mátt lesa um og sjá upplýsingar um það gríðarlega átak sem hefur átt sér stað í landinu á sviði umhverfismála. Óhætt er að segja að landsmenn hafi lyft grettistaki við að styðja við og bæta vistkerfi landsins með skynsömum og að mörgu leyti hógværum aðgerðum. Það er í raun magnað að sjá hvernig tekist hefur að endurreisa vistkerfi sem voru nánast horfin, bæta gróðurfar og auka þannig afrakstur landsins umtalsvert. Þannig fór frétt um alla heimsbyggðina þegar landsmenn plöntuðu 350 milljónum trjáa á einum degi. Það er engum blöðum um það að fletta að landsmenn hafa styrk búsetu verulega og aukið samheldni og sjálfstraust með þessum aðgerðum. Má undrast þann mikla árangur sem þegar hefur náðst.planta

Eþíópía er næst fjölmennasta þjóð Afríku, næst á eftir Nígeríu. Í landinu búa nú ríflega 110 milljónir manna og njóta nú talsverðrar efnahagslegrar velsældar, reyndar þeirra mestu í Afríku. Síðustu 10 ár hefur hagvöxtur vaxið um 10% að meðaltali á ári en hafa verður í huga að landið var mjög fátækt. Þetta er þó helmingi meiri hagvöxtur en löndin á svæðinu njóta að meðaltali. Meðallaun eru ekki nema 800 Bandaríkjadalir í dag en eigi að síður sjá fleiri og fleiri tækifæri til þess að bæta stöðu sína og stjórnvöld hafa metnaðarfull markmið á því sviði.

Mikil efnahagsleg tækifæri tengt auknu einkaframtaki

Alþjóðaefnahagsstofnunarinnar, World Economic Forum, var með áhugaverða umfjöllun um Eþíópíu fyrir stuttu þar sem lofsamlegum orðum var farið um möguleika landsins. Þar hefur tekist að auka verulega stöðugleika og sætta stríðandi fylkingar bæði innan og utan lands. Þá telur stofnunin að veruleg tækifæri séu í landinu tengd auknu einkaframtaki og einkavæðingu ríkisrekstrar. Ljóst er að innviði þarf að styrkja, nánast á öllum sviðum en nú þegar sjást víða jákvæð teikn um þar séu að verða breytingar á. Landið hefur sett sér metnaðarfull tækifæri á sviði menntunar og ef landið nær athygli fjárfesta þá ætti framtíðin að brosa við þeim. En auðvitað er löng og ströng vegferð framundan.