c

Pistlar:

17. nóvember 2019 kl. 16:16

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Gustav Klimt: Frá list til listiðnaðar

Af öllum þeim mörgu frábæru listamönnum sem gengið hafa um götur Vínarborgar er hvað ánægjulegast að fá að uppgötva listmálarann Gustav Klimt sem dó í febrúar 1918, 55 ára að aldri. Þó að Klimt hafi vissulega notið nokkurrar frægðar í lifanda lífi þá er hann einn þeirra listamanna sem hafa endurfæðst til seinnitímafrægðar og áhrif hans á menningu og mannlíf Vínarborgar í dag ná langt út fyrir listaheiminn. Sannast að segja eru verk hans og list orðin að iðnaðarstarfsemi og „lundabúðir“ þeirra Vínarbúa selja eftirprentanir og muni tengda list hans við helstu verslanagötur borgarinnar. Allt er það heldur fínlegra og smekklegra en lundabúðaheimurinn, með fullri virðingu fyrir honum. En neysla á verkum Gustavs Klimts í dag er hugsanlega vísbending um hvernig list getur orðið að stóriðnaði og þannig verið í senn atvinnuskapandi og jákvæður þáttur í viðskipta- og atvinnulífi borgaranna. En þó að Gustav Klimt hafi sjálfsagt sóst eftir frægð og frama að einhverju leyti eins og aðrir listamenn er ólíklegt að þetta hafi beinlínis verið það sem hann ætlaði sér. Pistlahöfundur gekk þó meðvitaður í ferðamannagildruna og keypti muni sem gleðja um stundarsakir.klimt3

Frá teikningum yfir í andlitsmálverk

Engum dylst að Gustaf Klimt var frábær listamaður en hann vakti athygli strax á unga aldri sem einstaklega fær teiknari. Gustav og bróðir hans voru fengnir til að skreyta margar opinberar byggingar í Vín og skildu eftir sig áhugaverð verk. Gustav Klimt vildi hins vegar byggja upp feril á eigin forsendum og varð fljótlega vinsæll portrettmálari og ekki annað hægt en að dáðst að konum í Vín sem sóttust eftir því að láta hann mála verk af sér, sum þessi andlitsverk eru einstök og stíllinn er greinilega að verða fullmótaður upp úr 1895. Hann var sömuleiðis frábær landslagsmálari og blóma- og náttúrulífsmyndir hans vel á pari við það sem fremstu fulltrúa raunsæis létu frá sér. Gustaf Klimt varð fljótlega einn af áhrifamestu meðlimum Vienna Secession listamanna-hreyfingarinnar sem gerði uppreisn uppúr miðjum síðasta áratug 19. aldarinnar, skömmu eftir að Gustaf var orðinn fullmótaður listmálari. Meðal annarra meðlima í hreyfingunni voru Koloman Moser, arkitektarnir Josef Hoffmann og Joseph Maria Olbrich, Max Kurzweil, Wilhelm Bernatzik og fleiri þekktir einstaklingar í listasögu Vínar. Arkitektinn Otto Wagner gekk síðar til liðs við hreyfinguna. Þessi hreyfing gerði uppreisn gegn þá þekktum listahugtökum og kynntu til leiks nýjan stíl í anda nýstílsins (e. Art Nouveau). Þekkt er að Klimt hafði mikil áhrif á myndhöggvarann Aguste Rodin (1840-1917) og expressjónískir málarar leituðu í smiðju hans.klimt2

Einstakur koss

Það er merkilegt að ganga um sali Belvedere hallarinnar í Vín sem hýsir austurríska listasafnið og koma inn í herbergið þar sem frægasta verk Gustafs Klimts hangir. „Kossinn“ er einstakt verk og er málað á hátindi listsköpunar hans árið 1907 en verkið sýnir elskendur í faðmlögum á fallegu blómaengi. Myndin er ferhyrnd (180x180 sm) og bæði einstök í uppbyggingu og litavali en Klimt skipti gjarnan myndfletinum upp í misstór form og svæði og oft er hann að leika sér með hinn sjónrænan þátt málverksins. Inn á milli flatanna skreytir hann með allskyns mynstrum og formum sem jafnvel endurtaka sig reglulega. Málverkið vakti gífurlega eftirtekt þegar það var fyrst kynnt árið og þrátt fyrir að vera þá ekki fullklárað keypti austurríska listasafnið það strax. Það var í senn áhrifamikið og skoplegt að standa í sal Belvedere hallarinnar og horfa á verkið þar til það hvarf allt í einu í kínverskt mannhaf þegar ferðamannahópur þaðan birtist og hóf að taka myndir af sér við verkið. Heldur þreytandi fyrir aðra gesti.klimt1

Gustaf Klimt verður án efa skrifaður í hóp symbólista (táknsæisstefnurnar) og í Kossinum vefja tvær mannverur sig utan um hvor aðra í nánast sótthitakenndu faðmlagi sem áhorfandinn veit að tekur engan endi. Uppbygging verksins er heillandi en þó ekki síður litirnir en hinn gyllti og nánast upphafni litur sem hann notaði er einstakur þó allt mótist það auðvitað af samspili annarra lita og forma. Í verkum sínum blandar Gustaf saman munúðarfullri tjáningu og jafnvel frelsun langanna og þeirri raun sem því fylgir en konur voru undantekningalaust viðfangsefni hans. Oft tengdi hann þetta við goðsögulegar persónur eða fólk úr mannkynsögunni ef hægt er að greina þar á milli.

Deilt um eignarhald

Umtalaðasta verk Klimt hefur reynst vera málverkið af gyðingakonunni Adele Bloch-Bauer en af því er merk saga sem hefur meðal annars verið kvikmynduð með stórleikkonuna Hellen Mirren í aðalhlutverki. Adele Bloch-Bauer I (einnig kallað The Lady in Gold eða The Woman in Gold) er málað á árunum 1903 og 1907. Eiginmaður Adele, Ferdinand Bloch-Bauer bankastjóri og sykurframleiðandi óskaði eftir því að Klimt málaði myndina. Málverkið er síðasta verk hans á gulltímabili hans og undirstrikar fullkomlega það tímabil og er einu orði sagt einstaklega fallegt verk. Það var fyrsta af tveimur myndum af Adele, seinni var máluð árið 1912 en hér má finna greinargóða umfjöllun um verkið og list Gustafs Klimt.Adele Bloch-Bauer

Eftir umtöluð og langvinn réttarhöld var úrskurðað að ríkisstjórn Austurríkis yrði að skila málverkinu til erfingja Bloch-Bauer en nasistar stálu því á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Eftir að verkið fór úr eigu Austurríkismanna var það selt fyrir ógnarupphæðir en heimamenn syrgðu það mjög. Það var viðskiptajöfurinn og listasafnarinn Ronald Lauder sem borgaði 135 milljónir Bandaríkjadala fyrir verkið og kom því fyrir í Neue Galerie, listasafninu í New York sem hann setti á stofn við það tilefni.

Það er hins vegar umtalsverður ferðamannaiðnaður í kringum sölu á munum tengdum list Gustafs Klimt eins og áður sagði, en hann skapaði sér óneitanlega glæsilegan og persónulegan stíl sem á verðugt sæti í listasögunni. Þannig lifir Vín í dag á sögu sinni og menningu. Klimt sjálfur giftist aldrei, sængaði hjá módelum sínum og skildi eftir sig fullt af óskilgetnum börnum!