c

Pistlar:

20. nóvember 2019 kl. 11:45

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Íslensk gróðurpólitík og öfgaumræða í umhverfismálum

Öfgaumræða! Er hægt að segja það um umræðuleikritið sem sett var upp í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi? Þjóðfundur í beinni en aðeins sumum boðið! Þetta kristallaðist í lokaorðum fulltrúa ungu kynslóðarinnar sem sagði að „afneitunarsinnar“ hefðu verið of margir í umræðu kvöldsins! Tveir af fjórtán, sagði umsjónarmaðurinn sér til varnar. Óháð því hversu sanngjarnt það er að kalla þau Ernu Ýr Öldudóttur blaðamann og Magnús Jónsson fyrrverandi veðurstofustjóra afneitunarsinna? Eru þá skáldið og bókmenntafræðingurinn Andri Snær Magnason og Guðni Elísson „heimsendasinnar“ en víða í ummælum þeirra og skrifum má sjá slíka niðurstöðu, að heiminum verði ekki bjargað. Það hefði mátt spyrja þá út í það í þættinum úr því verið var að kryfja menn sagna á annað borð. Taka má undir orð Páls Bergþórssonar veðurfræðings sem sagði að þátturinn hefði ekki verið vel heppnaður en Ríkissjónvarpið afhjúpaði þarna vilja sinn til að skilgreina og afmarka umræðu í samfélaginu. Allt samkvæmt geðþótta starfsmanna ríkisstofnunarinnar og óháð þeim lögum sem hún vinnur eftir.loftslagsmál

En þessi umræða dró fram margt það versta í loftslagsumræðunni en sumt af því hefur verið bent á hér undanfarið. Tilraun til að búa til kennibundin (dogmatískan) umræðuheim um jafn vandasöm vísindi og þau er liggja til grundvallar í loftslagsmálum getur ekki verið hollt fyrir vísindin né umræðuna. Jafnvel þó við virðum sjónarmið vísindamanna og sérfræðinga þá getur sú virðing ekki leitt til þess að hugsandi fólk taki þaðan öllu með þegjandi samþykki. Blaðamenn reyna til að mynda að varpa ljósi á þau álitaefni sem eru fyrir hendi í heimi loftslagsvísinda eins og annars staðar. Þeir geta ekki sætt sig við að verða hluti af hinum opinbera skoðanaheimi í málinu eins og þó birtist að nokkru leyti hjá umsjónarmönnum umræðuþáttarins í gær.

Aðgerðaráætlun án fortíðar

Í umræðuþætti gærdagsins var eðlilega nokkuð fjallað um aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar 2018-2030 sem kynnt í september fyrir ári síðan. Flestum fannst of lítið gert en þar er þó viðleitni til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og að stuðla að aukinni kolefnisbindingu þannig að Ísland geti staðið við markmið Parísarsamningsins 2013. Við það tilefni var í engu horft til þess að við (þessar kynslóðir sem aldrei hafa gert neitt!) höfum fyrir löngu skipt yfir í raforkuframleiðslu og kyndingu sem er nánast 100% umhverfisvæn. Þrátt fyrir það var skrifað undir Parísarsamkomulagið sem skuldbindur okkur til að minnka losun jafn mikið og þjóðir sem menga margfalt meira en við. Því til viðbótar hefur ríkisstjórnin stefnt að kolefnishlutleysi 2040. Áætlunin samanstendur af aðgerðum á mörgum sviðum með tvær lykiláherslur; annars vegar orkuskipti í samgöngum og hins vegar á átak í kolefnisbindingu. Gott og vel, en þá er útfærslan eftir.einar sv

Íslensk gróðurpólitík

Í gær mátti lesa athyglisvert innlegg í loftslagsumræðuna í grein eftir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðing í Morgunblaðinu. Einar verður líklega seint sakaður um að vera afneitunarsinni en hann benti á margt það sem að er í loftslagsumræðunni hér á landi og stefnumótun henni tengdri. Grein Einars snérist þó fyrst og fremst um það að líklega verður stofnunum ríkisins illa treyst fyrir því að móta eða hrinda í gang framkvæmdaáætlunum á þessu sviði. Til þess séu þær sjálfar of bundnar á klafa hagsmunagæslu, nokkuð sem fer framhjá árvökulum augum ríkisafskiptasinna og auðvitað fréttamati Ríkisútvarpsins. Um þetta segir Einar:

„Áform um bindingu rekast illilega á það sem kalla má íslenska gróðurpólitík. Einstaklingar og stofnanir á vegum ríkisins takast harkalega á um tegundaval, hvort
eigi og megi notast við erlendar tegundir.“ Hér er Einar að benda á þá þjóðernispólitík sem ríkir í þessum málum en í texta ríkisstjórnarinnar er sérstaklega kveðið á um birki. Einar bendir á og tekur þannig undir ábendingar margra skógfræðinga að íslenska birkið og kjarrskógar binda um 1/10 hluta þess sem hægt er að ná með hagstæðustu samsetningu annarra tegunda. Þannig bendir Einar á að alaskaösp og stafafura myndu í samlífi soga til sín kolefni úr lofthjúpnum um tíu tonn á hektara lands á ári. Þetta eru sláandi tölur en þá er miðað við einkar þéttan loftslagsskóg með um 2.500 gróðursetningum á hektara lands. Einar bendir á að ef birkið verður ofan á þarf tíu sinnum meira land og kostnaður eykst í svipuðu hlutfalli. Staðreyndin er sú að ef menn vildu í raun og veru gæta hagsmuna Íslendinga þá mætti auðveldlega nota gróðurauðn Íslands til þess að selja öðrum kolefnisbindingu í stað þess að nú stefnir í að við þurfum að greiða sektir fyrir slíkt.

Stofnanir ríkisins ráða í raun

En hvað er í gangi? Gefum Einari orðið: Stofnanir ríkisins ráða í raun enda eru Skógræktin, Landgræðslan og Náttúrufræðistofnun þegar farnar að grafa sér skotgrafir til langtímahernaðar. „Þetta eru ríkisstofnanir, ekki málsmetandi einstaklingar eða félagasamtök. Gróðurpólitíkin getur nefnilega verið grimm og heiftúðug, menn hafa þannig á þessum vígstöðvum rifist um lúpínuna í áratugi. Áðurnefndar stofnanir, ásamt fleirum, s.s. Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun, ráða í raun framgangi í þessum málum. Ekki stjórnmálin eða sjálf ríkisstjórnin,“ segir Einar. Einhvertímann hefðu slík orð vakið athygli.

Einar bendir á máli sínu til stuðnings að löggjöf leyfisveitinga sé skýr. Nýskógrækt yfir tilteknum mökum þarf í matsferli skipulagsáætlana. Einnig landgræðsluáætlun. Allar þessar stofnanir koma að ákvörðun á endanum og hann segir reynsluna sýna að slíkt ferli geti tekið mörg ár og allsendis óvíst um niðurstöðu. Á meðan verða of fáar plöntur gróðursettar í tilgangi bindingar og við getum ekki uppfyllt áætlanir okkar.

Einar segir að Alþingi verði að íhuga í alvöru að aftengja núverandi lagaramma um matsferli skógræktar- og landgræðsluáætlana svo ríkisstjórnin nái fram sínum
markmiðum í loftslagsmálum. Fylgja þurfi eftir áætlunum af festu ef ekki á illa að fara í skuldbindingum Íslands fyrir árið 2030, segir Einar.