c

Pistlar:

25. nóvember 2019 kl. 21:11

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Er sjálfsagt að kasta frá sér 30 MW?

Morgunblaðið greindi frá því í dag að fyrirtækið Íslensk vatnsorka hafi nú hafið umhverfismat á Hagavatnsvirkjun sunnan undir Langjökli. Svo virðist sem dregið hafi verið verulega úr virkjanaáformum þannig að í fyrst áfanga verði aðeins farið í virkjun með 9,9 MW afl. Virkjanakostir undir 10 MW falla ekki undir Rammaáætlun og ekki þarf skilyrðislaust að gera umhverfismat vegna þeirra. Eigi að síður hefur fyrirtækið hafið umhverfismatsferli með því að kynnt hefur verið matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum virkjunarinnar.hagavatn1

Þessi minni útgáfa minnkar niðurdrátt í Hagavatni og er sögð vera umhverfisvænni virkjanakostur en sú 18 MW virkjun sem sett var í biðflokk í Rammaáætlun þrjú. Áformin eru sem fyrr ekki aðeins að afla orku heldur ekki síður að stækka Hagavatn til að draga úr jarðvegseyðingu. Hagavatnsvirkjun er sannarlega ekki stór í neinu samhengi og framan af héldu menn meira að segja að hún yrði ekki umdeild. Annað hefur komið á daginn.

Eins og komið hefur fram hér í pistlum áður hefur lengi verið áhugi á að virkja við Hagavatn. Landeigendur og sveitarstjórn Bláskógabyggðar hafa verið því fylgjandi vegna jákvæðra áhrifa virkjunar á gróður og Landgræðslan studdi þessar aðgerðir á sínum tíma. Drög að virkjun allt upp í 40 MW liggja fyrir en hægur leikur væri að koma slíkri virkjun fyrir þarna. Enn stærri virkjun var talin vel möguleg. Fátt ef nokkuð mælir gegn því og þess vegna leyfi ég mér að spyrja í fyrirsögn hvort það sé svona ódýrt fyrir okkur Íslendinga að kasta frá okkur 30 MW. Um leið erum við að skipuleggja vindmyllugarða á varpsvæðum íslenska hafarnarins sem mun væntanlega stefna stofninum í voða. Má aldrei setja slíka hluti í samhengi?

Stækkun í aðalskipulagi

Umhverfisáhrif vegna Hagavatnsvirkjunar fela í sér ákveðna áskorun fyrir aðferðafræði við mat á slíkum áhrifum. Hvað er hið náttúrulega ástand við Hagavatn? Viljum við í dag varðveita lífvana vatnsbotn sem á sér ekki svo langa sögu? Svo háttar til að eftir hlaup úr Hagavatni á árinu 1939 minnkaði vatnið úr því að vera um 23 ferkílómetra í aðeins 4 ferkílómetra. Síðan hefur verið mikið fok úr gamla vatnsbotninum, meðal annars yfir byggðina. Hluti af því svifryki sem gerir höfuðborgarbúum gramt í geði kemur þaðan en fyrstu rannsóknir sína að stækkun lóns með virkjun hefur jákvæð áhrif og minnkar svifryk.

Lengi hefur verið gert ráð fyrir stækkun vatnsins og virkjun í gildandi aðalskipulagi Bláskógabyggðar. Þar kemur meðal annars fram að endurheimt Hagavatns er forsenda þess að hægt er að ráðast í frekari landgræðsluaðgerðir sunnan vatnsins. Samt hefur málið verið tafið aftur og aftur.

Stórvirkjun fórnað fyrir eyðimörk

Skipulagsstofnun féllst á fyrirhugaða stækkun Hagavatns með skilyrðum árið 1996. Frekari rannsóknir hófust síðan í kjölfar hugmynda Landgræðslu ríkisins um að hefta sandfok og gróðureyðingu við Hagavatn sunnan Langjökuls. Í framhaldi þess óskaði Orkuveita Reykjavíkur eftir rannsóknarleyfi til athugana á virkjunarvalkosti við Hagavatn. Rannsóknarleyfi var síðan úthlutað þann 1. apríl 2007 og hófust þá umfangsmiklar rannsóknir á svæðinu, sem ná m.a. til útfærslu virkjunarhugmynda, mati á helstu umhverfisáhrifum, arðsemi og flestum þeim þáttum sem tengjast slíkri framkvæmd. Íslensk vatnsorka tók síðar við verkefninu og vinnur nú að því í nafni Hagavatnsvirkjunar ehf. Upphaflega voru hugmyndir um stórvirkjun á þessum stað en undirbúningurinn fór síðan í þann farveg að stefna að byggingu 35 megavatta virkjunar. Eins og áður segir þá hefur Íslensk vatnsorka tónaði áformin niður í 18 MW virkjun og í fyrst áfanga verði aðeins farið í virkjun með 9,9 MW afl.

Verkefnisstjórn 2. áfanga Rammaáætlunar flokkaði Hagavatnsvirkjun í biðflokk og verkefnisstjórn 3. áfanga breytti því ekki. Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að ekki tókst að hnika því þrátt fyrir tilraunir áhugafólks um málið. Tillögur þriðja áfanga hafa ekki verið lögfestar. Rök verkefnisstjórnarinnar voru einkum þau að óvissa var talin ríkja um áhrif virkjunarinnar á jarðvegsfok og ferðamennsku. Verkefnisstjórnin fékk mjög misvísandi einkunnir frá faghópum sínum. Hagavatn var ekki talið verðmætt hjá sumum enda lífríki þess og umhverfis talið fábreytt. Kemur ekki á óvart, svæðið er líflítil eyðimörk! Nú bregður hins vegar svo við að svæðið fékk hæstu mögulegu verðmætaeinkunnir fyrir „víðerni og jarðgrunn“. Því taldi verkefnisstjórn rétt að bíða með ákvörðun um ráðstöfun svæðisins.

Í frétt Morgunblaðsins segir að 18 MW áformin hafi miðast við þrjár 6 MW vélar og yrði ein þeirra aðeins í notkun hluta úr árinu. Í matsáætluninni að í þessu sinni er gert ráð fyrir að aðeins verði virkjað til að nýta tiltæka orku. Nú hefur Íslensk vatnsorka kynnt nýja útfærslu, sem fyrsta áfanga þessara áforma. Þar yrðu tvær tæplega 5 MW vélar sem væru keyrðar allt árið. Afl virkjunarinnar yrði 9,9 MW. Þetta er heldur döpur niðurstaða og furðulegt að sjá að menn gefi frá sér augljósa virkjanakosti nánast baráttulaust.