c

Pistlar:

27. nóvember 2019 kl. 17:22

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Cybertruck: Nýir sigrar rafmagsbílsins?

Elon Musk, stofnandi og forstjóri bandaríska rafbílaframleiðandans Tesla, vakti athygli bílaheimsins í síðustu viku þegar hann kynnti nýjan pallbíll en slík fyrirbæri ku vera ær og kýr Bandaríkjamanna og seljast mikið frá gamalli tíð. Varla er nokkur maður með mönnum í miðvesturríkjunum nema hann eigi að minnsta kosti einn slíkan. Auðvitað hlaut Tesla að reyna fyrir sér inn á þennan markað sem hefur í senn verið gjöfull og arðbær fyrir hefðbundna bílasmiði vestanhafs. Nafnið segir sína sögu; Cybertruck, hvað annað, en bíllinn er dálítið eins og úr framtíðarmynd, nema framtíðin sé núna eins og segir í laginu.muskci

Á þessu ári eru liðin 11 ár frá því að Elon Musk setti fyrsta rafmagnaða sportbílinn á göturnar í Kaliforníu og sló öðrum bílaframleiðendum þar með ref fyrir rass. Það er meira en sjö ár síðan fjöldaframleiðsla fjölskyldubíla, eingöngu með rafmagnsmótor, hófst hjá Tesla og fyrir rúmu ári kynnti hann rafmagnsknúinn vörubíl. Nú er komið að pallbílnum. Þrátt fyrir vantrú fjárfesta og tilfallandi erfiðleika er Elon Musk ódeigur. Hann ætlar að breyta heiminum og rafmagnsbílar eru bara ein leið til þess eins og hefur verið rakið hér áður.

Blendin viðbrögð

En aftur að nýja bílnum. Eins og vanalega eru viðbrögð við nýjum bílum Tesla margblendin. Þannig er óhætt að segja að áhugamenn um bíla hafi skipst í tvær andstæðar fylkingar. Í öðrum hópnum eru þeir sem hrifust af bílnum (halda varla vatni sagði í frétt Morgunblaðsins). Hinn hópurinn telur bílinn hins vegar afspyrnuljótan! Það var einkum tvennt sem vakti athygli frétta- og samfélagsmiðla í kjölfar kynningarinnar. Annars vegar framúrstefnuleg hönnun bílsins og hins vegar það að kynningin misheppnaðist heldur illa þegar sýna átti að rúður Cybertruck væru svo sterkar að þær þyldu að stálkúlum væri hent í þær. Það reyndist ekki svo, þvert á móti brotnuðu rúðurnar en þó ekki í mola sem reyndist varnarsigur! Á kynningunni var Cybertruck látin toga á móti Ford F-150 sem kom ekki vel út fyrir Fordinn sem er vel að merkja mest seldi pallbíll sögunnar. Líklega var þó samanburðurinn ekki alveg heiðarlegur þar sem Fordinn virtist aðeins vera með afturdrifið í gangi! Í pallbílastríði er allt leyfilegt! Taka má undir efasemdir um útlit bílsins sem ögrar hefðbundnum fagurfræðilegum lögmálum við bílahönnun. Nokkuð sem Tesla hefur ekki gert áður með svo áberandi hætti þó bílar fyrirtækisins séu vissulega nútímalegir.

Þrátt fyrir smá hnökra virðist Cybertruck þó hafa fallið mörgum í geð og strax á laugardaginn greindi Elon Musk frá því að þegar hefðu borist pantanir á um 146.000 eintökum af bílnum. Nýjustu tölur segja að pantanir séu komnar upp í 200.000. Fylgdi sögunni að það hefði gerst án þess að fyrirtækið hefði keypt eina einustu auglýsingu. Musk er reyndar sérfræðingur í að byggja upp væntingar fyrir sýningar á vörum sínum og virðist þar hafa gengið í smiðju Steve Jobs, stofnanda Apple. Til að draga að sem flesta er öllum mætti nútímamiðlunar beitt og fólk upplifir að það sé að taka þátt í viðburði sem hefir áhrif á framtíð okkar allra.cibertr

Tvö ár í að fyrstu bílarnir verði afhentir

Í Bandaríkjunum mun Cybetruck kosta frá 39.900 Bandaríkjadölum og þarf að reiða fram 100 dala innborgun til að leggja inn pöntun (Það þurfti að greiða 1.000 dali í staðfestingargjald vegna Tesla Model 3). Ekki virðist hafa slegið á áhuga Tesla-unnenda að framleiðsla á pallbílnum mun, að sögn Reuters, ekki hefjast fyrr en síðla árs 2021. Þrátt fyrir góð viðbrögð til þessa þá er bíllinn kannski of frammúrstefnulegur enda lítur hann út eins og hann beri brynvörn utan á sér. Musk sagði við kynninguna að ætlunin væri að færa þyngd bílsins út í ytra byrði bílsins, hvað svo sem menn telja sig fá með því.

Sala á Tesla-bílum eykst hratt og markaðsstaða félagsins styrkist ár frá ári án þess þó að skila félaginu í hagnað. Með pallbílnum eru þrír bílar í kynningafasa og verða afhentir fólki þegar framleiðsla er komin á skrið. Þolinmæði fjárfesta hefur verið mikil til þessa og Musk hefur alltaf haft ása upp í erminni þegar hlutabréfin ætla að gefa eftir en þess má geta að þau lækkuðu um 6% í kjölfar kynningarinnar. Musk hefur ávallt tekist að halda merkinu á floti en einhvertímann verður hann að fara að skila jákvæðri afkomu.